Entrepreneurship Education Clubs

Ár
Fjárhæð
Svæði
Samstarfsaðilar
2021
Approx 850,000 ISK
Sierra Leone

Skool Grind SL

Hlutverk Auroru velgerðasjóðs er að styðja við menningu og þróun samfélaga og er verkefnum ætlað að örva samfélög á sjálfbæran máta. Síðustu tvö ár höfum við einblínt á start-up og frumkvöðlasenuna, sér í lagi í gegnum Aurora Impact en um er að ræða vaxandi geira í Sierra Leone og fleiri ný verkefni eru að líta dagsins ljós. Í samræmi við markmið og stefnu okkar er menntun ungs fólks mikilvæg sjóðnum og ákváðum við því að skrifa undir samstarfssamning vegna fjármögnunar verkefnis Skool Grind SL í tengslum við frumkvöðlakennslu í gagnfræðiskólum (e. secondary schools) í Sierra Leone.

Stofnandi Skool Grind SL og ábyrgðarmanneskja verkefnisins, Sunah Agnes Keili kom auga á þörf fyrir frumkvöðlastarf -og kennslu fyrir ungt fólk og barst okkur beiðni hennar um samstarf og fjárhagslega aðkomu að verkefninu Entrepreneurship Education Clubs í september 2021. Aurora ákvað að ganga til samstarfs við Skool Grind um að koma á fót og reka frumkvöðlaklúbba og styðja við verkefnið fyrsta árið. Markmið verkefnisins er að kynna börn í sjö gagnfræðiskólum í Freetown fyrir frumkvöðlastarfi; hugmyndafræðinni, hugarfari frumkvöðla, þekkingarsviði og færni þeirra. Verkefninu er ætlað að standa yfir í níu mánuði á ársgrundvelli og hófst það undir lok október 2021.

Sex vikna þjálfunarlotur taka við í skólunum eftir að klúbbunum hefur verið komið á laggirnar þar sem nemendur fá innsýn í frumkvöðlastarf og praktíska reynslu í gegnum óhefðbundið nám og námskrá sem miðar að því að þjálfa hæfni eins og bókhald og fjármálalæsi, hugmyndasköpun og hvernig byggja á upp viðskiptaáætlun. Nemendur læra þá ennfremur að markaðsetja hugmyndir sínar með til að mynda samfélagsmiðlum og öðlast þekkingu á aðferðum til samvinnu og leiðum til frekari rannsókna.