Keramikverkstæðið hefur heldur betur fengið góðan liðsauka

21.05.19

Síðastliðnar vikur hafa verið annasamari en vanalega hjá Lettie Stuart leirkeraverkstæðinu. Sólarsellur hafa verið settar á þakið og er þar með loksins komið rafmagn á verkstæðið, til að geta keyrt nauðsynlegan búnað, veitt lýsingu á skýjuðum dögum og kælt drykki!

Mikilvægast er þó að minnast á komu tveggja snillinga, sem eru reyndir og frábærir leirkerasmiðir og hafa þeir nú gengið til liðs við teymið til að aðstoða við kennslu, þróa nýjar vörur og best af öllu, byggja nýjan brennsluofn!

Rétt eftir páska kom Peter Korompai, leirkerasmiður frá Ungverjalandi, og mun hann eyða einum mánuði á keramikverkstæðinu sem sjálfboðaliði. Verkefnin hans eru meðal annars að aðstoða við rannsóknir á mismunandi leir og glerungi og hjálpa til við kennsluna. Mestur tími hans hefur þó farið í að byggja nýjan brennsluofn. Með hjálp frá sierra leonísku leirkerasmiðunum og nemendum hefur hann náð að smíða ofninn, múrstein fyrir múrstein og er nýi ofninn þrisvar sinnum stærri en sá gamli.

Í síðustu viku bættist svo Guðbjörg Káradóttir í hópinn, leirkerasmiður frá Íslandi sem er að koma í sjálfboðavinnu á verkstæðið í annað sinn, og verður hún einnig í heilann mánuð. Í síðustu heimsókn hannaði hún, ásamt öðrum íslenskum leirkerasmiði Halldóru Þorláksdóttur, og leirkerasmiðunum í Sierra Leone; Brima, Mohamed og Fatmata nýja kennslunámskrá fyrir skólann. Einnig hjálpaði hún til við að endurskipuleggja verkstæðið og gera það tilbúið fyrir opnun skólans. Núna er hún m.a. að hjálpa til við kennsluna, bæta nokkrar vörur, gera prófanir á mismunandi leir og aðstoða við frekari endurskipulagningu á verkstæðinu.

Koma þeirra beggja hefur gefið bæði kennurunum og nemendunum á verkstæðinu mikla hvatningu og er gaman að sjá brennandi áhugann. Það er alltaf líf og fjör á hverjum degi og er gleðin og hamingjan í loftinu áþreifanleg. Við erum virkilega ánægð með hvernig þetta verkefni hefur þróast og höfum fulla trú á því að teymið á Lettie Stuart leirkeraverkstæðinu muni ná að halda velgengninni áfram.