Aurora velgerðasjóður styrkir Neistann og Kraft um rétt rúmar 6 milljónir króna

03.07.16

Laugardaginn 2. júlí var Neistanum, styrktarfélagi hjartveikra barna, og Krafti, stuðningsfélagi ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein, afhentar rúmar 7 milljónir króna sem safnast höfðu á vegum Hrossarækt.is með sölu happdrættismiða. Aurora velgerðasjóður tók þátt í þessu frábæra framtaki með því að leggja söfnuninni lið og lagði fram 5 milljónir króna í upphafi söfnunarinnar. Þar að auki hét Aurora því að leggja fram krónu á móti hverri krónu sem myndi safnast með sölu happdrættismiðanna. Seldir voru happdrættismiðar fyrir 1.016.000 kr. og lagði Aurora velgerðasjóður því 6.016.000 kr. í söfnunina í heild en söfnunarféð varð samtals 7.032.000 kr. sem rennur til helminga til Neistans og Krafts.
Styrkurinn var afhentur á Landsmóti hestamanna að Hólum í Hjaltadal. Stuðningur Aurora er veittur í minningu mikils hestamanns Einars Öder, sem lést á síðasta ári, og voru það Dagmar dóttir Einars, og Svanhvít, eiginkona hans sem afhentu styrkinn fyrir hönd Auroru.
Á myndinni eru frá vinstri: Snorri Kristjánsson og Magnús Benediktsson frá Hrossarækt, mæðgurnar Svanhvít Kristjánsdóttir og Dagmar Öder, Sandra Valsdóttir frá Neistanum, Berglind Jónsdóttir og Ragnheiður Davíðsdóttir frá Krafti og Hulda G. Geirsdóttir frá Hrossarækt.