Aurora velgerðasjóður lýkur tilraunaverkefnum Kraums tónlistarsjóðs og Hönnunarsjóðs Auroru

12.10.16

Aurora velgerðasjóður sem stofnaður var árið 2007, hefur frá upphafi lagt áherslu á stuðning við tónlistar- og hönnunarlíf landsins. Í því markmiði stofnaði Aurora tvo sjálfstæða sjóði á árunum 2008 og 2009, en það voru sjóðirnir Kraumur tónlistarsjóður og Hönnunarsjóður Auroru. Hefur Aurora veitt alls 315 milljónum í fjölda verkefna sjóðanna síðan árið 2008.

Hönnunarsjóðurinn hafði það að markmiði að styrkja framúrskarandi hönnuði með heilsteypta viðskiptahugmynd og skýra framtíðarsýn. Á sjö árum Hönnunarsjóðs Auroru hefur hann ráðstafað 175 milljónum til 70 verkefna og hönnuða auk þess að taka þátt í samstarfi um fjölda verkefna á sviði hönnunar.  Styrkirnir hafa numið allt frá 250 þúsund til 5 milljóna.  Einnig hafði sjóðurinn frumkvæði að ýmsum verkefnum eins og t.d. “Hæg Breytileg Átt” sem var metnaðarfullt verkefni sem fór af stað árið 2014 með þátttöku fjölmargra aðila er koma að skipulagi og hönnun nærumhverfis okkar.

Kraumur starfaði í átta ár og veitti 140 milljónum í stuðning við tónlistarlíf landsins.  Meginhlutverk Kraums var að efla íslenskt tónlistarlíf, fyrst og fremst með stuðningi við unga tónlistamenn.  Markmiðið var að auðvelda þeim listsköpun sína og skapa þeim tækifæri til að koma verkum sínum á framfæri.

Styrkirnir hafa runnið til um 100 tónlistarmanna með framlagi sem nemur alltfrá 300 þúsund krónum til 4ra milljóna, auk annarra styrkja til viðburða, námskeiða, hljóðverssmiðja og fleiri verkefna þar sem fjölmargir tónlistarmenn hafa notið góðs af.  Þannig hefur Kraumur styrkt stöðu ungra tónlistarmanna á Íslandi með beinum styrkjum, faglegri aðstoð og samstarfi af ýmsu tagi.

Báðir sjóðirnir höfðu sjálfstæðar stjórnir sem skipaðar voru fagfólki. Einnig hafði hvor sjóður um 12 manna fagráð sem bakhjarla auk framkvæmdastjóra. Ingibjörg Kristjánsdóttir annar stofnandi og þá stjórnarformaður Auroru var stjórnarformaður fyrstu árin í Hönnunarsjóði Auroru, en Ingibjörg er sjálf landslagsarkitekt.

Breytingar í kjölfar nýrra áherslna
Allt frá árinu 2012 hefur legið fyrir að starfssemi dóttursjóðanna tveggja myndi ljúka í þeirri mynd sem til var stofnað. Báðir sjóðirnir voru stofnaðir sem tilraunaverkefni til þriggja ára og hugmynd stjórnar Auroru var sú að ef vel gengi og sýnt væri fram á ríka þörf þá yrði leitað leiða við að fá inn nýja aðila til að taka við keflinu. Þörf var á aðilum sem hefðu brennandi áhuga á að styðja við tónlist og hönnun og hefðu skilning á mikilvægi þess að samfélagið allt, fyrirtæki og einstaklingar tækju þátt í byggja upp skapandi greinar í landinu. Einnig var hugmyndin sú að bjóða tónlistamönnum og hönnuðum sem hafa náð langt út í hinum stóra heimi, að fjárfesta í sinni eigin fortíð og auka þannig framtíðar möguleika ungra tónlistarmanna og hönnuða sem standa í sömu sporum og þeir stóðu í, fyrir einhverjum árum síðan.

Eitt af höfuð markmiðum frá upphafi Auroru er að fylgja verkefnum vel eftir, en þó aðeins þannig að þau verði sjálfbær á endanum eða eins og stefnt var að í tilfelli Kraums og Hönnunarsjóðsins að nýir aðilar kæmu inn í verkefnin þegar þau væru komin vel á veg.  Styrkur Auroru velgerðasjóðs liggur í að greina þörf og hugsa lausnir, og koma verkefnum af stað.  Aurora reynir alltaf að vinna með einstaklingum sem skara fram úr á hverju sviði og hafa þrótt og þor til að taka við keflinu þegar verkefnið er komið á siglingu.  Stefna Auroru er ekki halda úti verkefnum til framtíðar ef þau reynast ekki sjálfbær.

Því lagði stjórn Auroru það til við stjórnir dóttursjóðanna að leitað yrði leiða til að halda áfram starfssemi sjóðanna með aðkomu nýrra styrktaraðila í stað Auroru. Þannig myndi sú reynsla og þekking sem sjóðirnir höfðu aflað sér á þessum árum nýtast áfram og ekki síður það traust og sá velvilji sem báðir sjóðirnir nutu í ríkum mæli innan fagsamfélagsins.

Mismunandi sýn á bakland skapandi greina
Stjórn Kraums og framkvæmdastjóri funduðu með nokkrum aðilum sem vinna við skapandi greinar og í framhaldi af því var niðurstaða meirihluta stjórnar að það væri ekki fýsilegt að halda áfram starfsemi Kraums ef Aurora væri ekki lengur aðal styrktaraðili. Stjórnin hafði áhyggjur af því að fyrirtæki og einstaklingar myndu gera aðrar og meiri kröfur til listamannanna um auglýsingar og merkingar á tónlistarviðburðum og útgefnu efni, heldur en Aurora velgerðasjóður hafði gert. Það myndi breyta þó nokkuð því umhverfi sem sjóðurinn og styrktaraðilar hans hefðu notið hjá Aurou og gæti virkað neikvætt á styrktaraðila. Einnig mátu stjórnarmenn Kraums það svo að litlar líkur væru á því að fyrirtæki og einstaklingar væru tilbúnir að koma jafn myndarlega að stuðningi við tónlistarmenn eins og Aurora hefði gert. Niðurstaða Kraums var því að leggja sjóðinn niður í þáverandi mynd.  Þetta var stjórn Auroru velgerðasjóðs viss vonbrigði, en stjórnin virti niðurstöðu stjórnar Kraums sem var tekin að vandlega hugsuðu máli.

Stjórn Hönnunarsjóðs Auroru og framkvæmdastjóri voru hins vegar á öðru máli og lögðu í vandaða og vel undirbúna vinnu við að fá inn fjárfesta og stuðningsaðila og tryggja þannig framhaldslíf Hönnunarsjóðsins.  Því er skemmst frá að segja að þrátt fyrir jákvæð viðbrögð í upphafi, þá gekk það ekki eftir. Eftir langar og tímafrekar viðræður við helstu fjármálastofnanir í landinu var ákveðið að láta staðar numið.

Voru það að sjálfsögðu vonbrigði að skilningur samfélagsins og stuðningur við þennan vettvang væri ekki meiri en raun bar vitni. Þó að mikið hafi áunnist síðastliðinn áratug í kynningu á skapandi greinum og mikilvægi þeirra fyrir samfélagið allt, bæði út frá hagrænu- og menningarlegu sjónarmiði þá virðist sem enn sé einhver fyrirstaða hjá einkageiranum þegar kemur að beinum fjárstuðningi við þessar greinar.  Að sama skapi kom í ljós að ákveðin fyrirstaða er til staðar innan listasamfélagsins, eins og kom fram í tilfelli Kraums, að þiggja styrki frá einstaklingum og fyrirtækjum. Þetta kom nokkuð á óvart, en erlendis hefur það tíðkast frá fornu fari að menningin er styrkt jöfnum höndum af ríki og einkageira.

Ekki einhugur um hvernig styðja beri við skapandi greinar
Þann 3. september síðastliðinn stóð Listaháskóli Íslands fyrir athyglisverðum pallborðsumræðum sem báru yfirskriftina “Samfélag án lista?” og voru þær hluti af lýðræðishátíðinni Fundi Fólksins. Þemað var þríþætt, listir sem auðlind, fjármögnun lista og framtíð lista. Fríða Björk Ingvarsdóttir rektor Listaháskóla Íslands kastaði m.a. fram þeirri spurningu í ágætu erindi sínu, af hverju það væri svona erfitt að fjármagna listir. Eitt svarið, sem reyndar kom ekki frá pallborðinu, var að hækka þyrfti skatta til að hægt væri að siðvæða samfélagið. Við værum semsagt ekki á þeim stað í dag. Það virtist vera nokkuð samdóma álit fundarmanna að ríkið ætti alfarið að sjá um fjármögnun lista, allt annað væri aukabónus. Og það er hugsanlega hluti af skýringunni á því af hverju ekki tókst að finna aðra til að taka við Hönnunarsjóðnum af Auroru velgerðasjóði. Krafa virðist vera uppi um að stuðningur við listir og hönnun komi alfarið frá ríkinu fremur en beint frá einstaklingum og fyrirtækjum sem byggja þetta samfélag. Þessi skoðun virðist vera ríkjandi í íslensku samfélagi og er í takt við reynslu okkar hjá Auroru.

Aurora velgerðasjóður tekur undir þá skoðun að fjárstuðningur við hönnun og listir er skammarlega lítill af hendi ríkisvaldsins og mikið vantar á skilning stjórnvalda á mikilvægi þessara grunnstoða samfélagsins, því að samfélag án lista er að sjálfsögðu ekki til.  Það er hinsvegar eindregin skoðun stjórnar Auroru að einkageirinn hafi ekki síður skyldur þar að lútandi. Þetta þarf að vera sambland af mörgum þáttum, þar sem ríki, fyrirtæki og einstaklingar koma allir að; einnig‘crowdfunding’ sjóðir eins og Karolina Fund, Kickstarter ofl., ásamt einkasjóðum eins og Auroru, Kraumi og Hönnunarsjóð Auroru. Samfélag þar sem á sér stað áhugavert samtal og samspil listamanna, hönnuða og þeirra sem njóta góðs af framlagi þessara hópa hlýtur að vera áhugavert samfélag. Þarna þurfa allir aðilar koma að borðinu með skilning á viðhorfum hvors annars.

Það má svo ekki gleyma því að á bak við fyrirtækin í landinu er allt fólkið sem vinnur þar. Ekki er ólíklegt að þetta fólk njóti þess að hlusta á tónlist, fara á leikrit, horfa á kvikmyndir, þræða listasýningar og lesa góðar bækur. Kannski er þetta einmitt fólkið sem kann að meta vandaða hönnun og nýtur þess að vera í fallegu umhverfi. Þarna eru að öllum líkindum viðskiptavinir listamannanna og hönnuðanna og þeir eru jafnvel stoltir af að vinna hjá fyrirtæki sem styrkir átrúnaðargoðin sín. Það ætti því ekki að vera svona flókið að komast að einhverri sameiginlegri niðurstöðu þar sem allir fara sáttir frá borði.

Aurora velgerðasjóður þakkar samleiðina og opnar á ný tækifæri
Þegar Aurora velgerðasjóðurinn var settur á laggirnar árið 2007, að frumkvæði þeirra hjóna Ólafs Ólafssonar aðaleiganda Samskipa og Ingibjargar Kristjánsdóttur landslagsarkitekts lá ekki að fullu fyrir hve víðtækt starfið innan Kraums og Hönnunarsjóðsins yrði.

Í dag metum við það svo að jákvæð áhrif sjóðanna á umhverfi hönnunar og tónlistar í landinu hafi verið vonum framar. Niðurstöður árangursmats sem fór fram á 3ja ári sjóðanna og var unnið af Margréti S Sigurðardóttur og Tómasi Young hjá HÍ, sýndi að stuðningur sjóðanna skipti fjárhagslega sköpum fyrir marga styrkþega. Eftir því sem sjóðirnir byggðu upp traust fagsamfélagsins urðu óbein jákvæð áhrif í formi umfjöllunar, sem fylgdi í kjölfar styrkjanna einnig afgerandi.

En framundan eru breytingar og ný verkefni eru í þróun sem munu lúta forsendum þróunaraðstoðar í meira mæli enda brýnt að fá aukna vigt í þann málaflokk.  Draumur stofnenda Auroru hefur alltaf verið að brúa þá tvo heima sem Aurora hefur starfað hvað mest innan, þ.e. Íslands og Sierra Leone, en skapandi greinar eru einmitt áhrifarík leið til valdeflingar í fátækum samfélögum. Til eru mörg dæmi þess að tækifæri og aðstaða til sköpunar hafi gjörbreytt lífi ungs fólks sem er á botni samfélagsins.

Og ekki er það síður mikilvægt fyrir unga íslenska hönnuði og tónlistamenn að taka þátt í starfi sem miðar að því að bæta aðstæður og lífsgæði hjá fátækustu íbúum þessa heims.  Við erum sannfærð um að það skili sér heim í þroskaðri manneskju með dýpri skilning á sjálfri sér og gildum lífsins. Þess vegna erum við m.a. að undirbúa verkefni sem stefnir að því að koma á samstarfsgrundvelli með íslenskum hönnuðum og tónlistarfólki annars vegar og kollegum þeirra  í Sierra Leone hins vegar.

Aurora velgerðasjóður vill því nota þessi tímamót og þakka samleiðina öllu því frábæra fólki sem hefur lagt sjóðunum lið, fagráðum, stjórnum og framkvæmdastjórum og eins þeim sem hafa reitt sig á stuðning þeirra.

211B8029 (1)

Aurora Foundation third ICT for Beginners Course: A Remarkable Success

Aurora Foundation third ICT for Beginners Course: A Remarkable Success

We are thrilled to share the remarkable outcome of our latest ICT for Beginners course, which concluded on September 6th. Hosted at the Aurora office training center, this two-week program saw exceptional participation and success. Starting on August 26th, eager young...

Successful compelition of Marketing Bootcamp for UNDP’s Growth Accelerator Programme

Successful compelition of Marketing Bootcamp for UNDP’s Growth Accelerator Programme

                                                                                                                                                                                          We are thrilled to share the success of our recent three-day Marketing Bootcamp,...