Velkomin á Sweet Salone og á ljósmyndasýninguna Sense of place

08.11.17

Í tilefni af tíu ára afmæli Auroru velgerðasjóðs bjóðum við ykkur velkomin á SWEET SALONE miðvikudaginn 15. nóvember kl. 18.00 í versluninni KronKron, Laugavegi 63 (gengið inn frá Vitastíg).

Þá fögnum við litríku samstarfi tveggja íslenskra hönnunarfyrirtækja, As We Grow og Kron by KronKron við handverksfólk í Sierra Leone.

Við trúum því að í gegnum samtal og samvinnu verði til þekking og skilningur sem víkkar sjóndeildarhringinn og stuðlar að bættum lífskjörum fólks.

Samtímis opnar ljósmyndasýning Birtu Ólafsdóttur, Sense of place. Birta hefur fangað stemningu vinnuumhverfisins í Sierra Leone með áhrifamiklum hætti.

Á þessum myndum hefur hún valið augnablik þegar alger kyrrð ríkir í rýminu. Áhorfandinn skynjar tímann fyrir og eftir andartakið á ljósmyndinni. Við sjáum engan en finnum fyrir fólkinu sem þarna starfar og skilur eftir ákveðna stemningu þrátt fyrir að hafa brugðið sér frá. Hér er sem sagt verið að ljósmynda andrúmsloft. Óáþreifanlegt fyrirbæri sem er til í óendanlegum útfærslum og segir allt án þess að segja nokkuð.

Ljósmyndasýningin stendur til 15. janúar.

Nánari upplýsingar um verkefnið SWEET SALONE má finna hér.