Kraumsverðlaunin afhent í áttunda sinn

20.12.15

Það var mikil gleði í Vonarstrætinu þann 17. desember þegar Kraumur tilkynnti hvaða 6 íslensku tónlistarmenn og hljómsveitir hljóta Kraumsverðlaunin í ár!

Listamennirnir sem þóttu skara fram úr í gæðum og frumleika þetta árið eru Dj flugvél og geimskip fyrir sína þriðju breiðskífu Nótt á hafsbotni, Mr. Silla fyrir samnefnda breiðskífu, Asdfhg fyrir fraumraun sína Steingervingur, Misþyrming fyrir sína fyrstu plötu Söngvar elds og óreiðu, Teitur Magnússon fyrir sína fyrstu sólóplötu 27 og Tonik Ensemble, sem til þessa hefur gefið út smáskífur og endurhljóðblandanir af verkum annarra, fyrir sína fyrstu breiðskífu; Snapshots.

Alls hafa hátt í fimmtíu breiðskífur hlotið verðlaunin á undanförnum átta árum, en með þeim er verið að verðlauna þá listamenn sem þykja skara fram úr í gæðum, metnaði og frumleika að mati dómnefndar.

Með verðlaununum er ætlað að kynna og styðja við plötuútgáfu íslenskra listamanna og hljómsveita með því að verðlauna og vekja sérstaka athygli á því sem er nýtt og spennandi og þeim verkum sem þykja skara fram úr í gæðum, metnaði og frumleika. Allar íslenskar plötur sem hafa komið út á árinu eiga möguleika á að komast á Kraumslistann og hreppa Kraumsverðlaunin. Bæði plötur sem eru gefnar út á geisladisk og/eða vínyl, sem og útgáfur á netinu.

Kraumsverðlaunin eru valin af sextán manna dómnefnd sem skipuð er fólki sem hefur margvíslega reynslu af því að fjalla um, spila og vinna með íslenska tónlist. Formaður dómnefndar er Árni Matth­ías­son.

Ráðið fór yfir hátt í annað hundrað hljómplatna sem komið hafa út á árinu og í kjölfarið valdi 21 íslenska plötu á Kraumslistann sem tilkynntur var þann 1. desember sl. á degi íslenskrar tónlistar.