Vorúthlutun Hönnunarsjóðs Auroru

30.05.13

Níu verkefni fengu úthlutað 9,6 milljónum króna í 10. úthlutun Hönnunarsjóðs Auroru.  Verkefnin sem hlutu styrk eru af margvíslegum og ólíkum toga. Má þar nefna þróun þarabaða þar sem umsækjendur stefna að því að setja upp tilraunaverkefni í Gróttu á Seltjarnarnesi í sumar, handritsgerð og hönnun bókverks fyrir spjaldtölvur sem byggir á ævintýrinu um Búkollu, vöruþróun á matarstelli á leirkeraverkstæði í Reykjavík og gerð kennslumyndbands um möguleika í þróun prjónsins.

Að þessu sinni bárust sjóðnum rúmlega 60 umsóknir af öllum sviðum hönnunar. Umsóknirnar báru þess merki að mikil gróska og framþróun er að eiga sér stað í verkefnum hönnuða á Íslandi.

Hjá sjóðnum er lögð áhersla á að styðja verkefni þar sem umsækjendur hafa skýra sýn og markmið. Í auknum mæli er farið að meta umsóknir út frá sjálfbærni og samfélagslegum gildum.

Á bak við fyrirtækið SLÍJM SF standa þær Kristín Gunnarsdóttir fata- og textílhönnuður sem einnig hefur lagt stund á nám í heimspeki og Edda Kristín Sigurjónsdóttir sem er hönnuður og lagði í námi sínu áherslu á samspil mannlegrar hegðunar og umhverfis. Þær fá styrk til að undirbúa og framkvæma mannfélagslegt rannsóknarverkefni sem byggir á tilraunum með samtalsvettvang og ólíkum leiðum í menningarlegri þróun samfélags. Þær munu í þeim tilgangi setja á fót Slíjm- þaraböð sem opin verða almenningi í Gróttu í sumar og einnig standa fyrir Slíjm-salonkvöldum innblásnum af Salonmenningu fyrri tíma.
facebook.com/Slijm ‎

Siggi Eggerts (1.5 milljón)
Siggi Eggerts hönnuður og listamaður, fær styrk til vinnu við gerð gagnvirks bókverks byggða á ævintýrinu um Búkollu.
siggieggertsson.com

Postulína (1 milljón)
Guðbjörg Káradóttir keramikhönnuður og Ólöf Jakobína Ernudóttir innanhússarkitekt, fá styrk til hönnunar, þróunar og undirbúnings framleiðslu á matarstelli sem til stendur að framleiða á leirkeraverkstæði þeirra í Reykjavík.
gudbjorgkaradottir.com
olofjakobinadesign.blogspot.com

STEINUNN SIGURD ehf (1.5 milljón)
Steinunn Sigurðardóttir fatahönnuður, fær styrk til áframhaldandi þróunar á prjóna-vinnustofu og gerð myndbands um möguleika í þróun prjóns. Vinnustofan eykur skilning fólks á menningarlegu og listrænu gildi prjóns.
steinunn.com

Halldóra Arnardóttir (1.2 milljón)
Halldóra Arnardóttir er doktor í listfræði með sérþekkingu á hönnun og byggingarlist og meðeigandi teiknistofunnar SARQ arkitektar á Spáni. Halldóra fær styrk til rannsóknar- og hönnunarverkefnis vegna undirbúnings og gerð bókar um verk og hugmyndir Kristínar Guðmundsdóttur, fyrsta hýbýlafræðings landsins.
sarq.org

Barnafatalínan AS WE GROW (1 milljón)
Margrét Hlöðversdóttir lögfræðingur og fata- og textílhönnuðirnir Guðrún Ragna Sigurjónsdóttir og María Th. Ólafsdóttir, fá styrk til markaðssetningar erlendis á barnafatalínunni As We Grow.
aswegrow.is

FÍLA (400 þúsund)
Félag íslenskra landslagsarkitekta, fær styrk til uppbyggingar og þróunar gagnagrunns en félagið hefur hleypt af stokkunum heimasíðunni xland.is með samantekt um markverða umhverfishönnun sem landslagsarkitektar hafa unnið á höfuðborgarsvæðinu.
xland.is

Sunna Örlygsdóttir (500 þúsund)
Sunna Örlygsdóttir fatahönnuður, fær styrk til starfsnáms hjá fyrirtækinu MariaLux í Amsterdam þar sem hún verður undir handleiðslu hönnuðarins Lilian Driessen.
orlygsdottir.com

Hönnunarmiðstöð (1 milljón)
Hönnunarmiðstöð Íslands fær styrk til skrásetningar og gerð kynningarefnis um HönnunarMars hátíðina meðal annars til heimildavinnu, myndatöku og skrásetningu fyrir gerð kynningarmyndar um hátíðina.
honnunarmidstod.is ‎

Stefnt er að því að næsta úthlutun úr sjóðnum verði í október og er umsóknarfrestur til 15. september 2013.

Hönnunarsjóður Auroru vinnur að undirbúningi nýs verkefnis sem stefnt er að hleypa af stokkunum á næstu misserum. Verkefnið, sem er á sviði byggða og íbúðaþróunar, var kynnt í Hannesarholti á HönnunarMars 2013 undir heitinu HÆG BREYTILEG ÁTT.