Sweet Salone

Ár
Fjárhæð
Svæði
Samstarfsaðilar
2017 -
Áframhaldandi
Sierre Leone

As We Grow, Kron by KronKron, 1+1+1, Hugdetta, Handverksfólk í Sierra Leone

Í Sierra Leone eins og í fleiri löndum Afríku er rík hefð fyrir handverki á borð við tréskurð, vefnað, batik og körfu- og leirgerð. Fatasaumur og fatahönnun skipa þar einnig háan sess. Hönnun í landinu er þó á byrjunarstigi sem kemur t.d fram í því að flestir þeir sem kalla sig fatahönnuð hafa enga menntun í faginu. Hið sama má segja um flestar aðrar greinar hönnunar innan Sierra Leone.

Tíu ára borgarastyrjöld sem lauk árið 2002 hafði lamandi áhrif á allt handverk í landinu. Árið 2014 skall síðan á ebólu-faraldur sem aftur dró úr allri framleiðslu. Smám saman er verið að byggja upp iðnað og handverk á ný og yngra fólkið er að byrja að læra af þeim eldri.

Aurora trúir á mátt hönnunar og lista til þess að auka lífsgæði fólks og hefur sjóðurinn stutt dyggilega við hönnuði á Íslandi undanfarin tíu ár. Því Höfum við lengi alið með okkur þann draum að nýta þá þekkingu og tengslanet sem hefur orðið til í gegnum Hönnunarsjóð Auroru og stefna saman hönnuðum og handverksfólki frá Íslandi og Sierra Leone. Löndin gætu vart verið ólíkari en við trúum því að ástæða sé fyrir því að ólíkir aðilar laðist hvor að öðrum. Með því að kynna hönnuði á Íslandi fyrir handverksfólki í Sierra Leone vonumst við til þess að handverksfólkið fái byr undir báða vængi um leið og íslenskir hönnuðir fá tækifæri til að víkka út sjóndeildarhring sinn. Með því að deila hugmyndum, vinna saman og læra hvort af öðru þá getum við haft áhrif og bætt lífsgæði.

Verkefnið hófst á því að aðstæður varðandi framleiðslu á hvers kyns vörum í Sierra Leone voru kannaðar, svo sem á nytjahlutum, húsbúnaði, fatnaði, húsgögnum, listmunum og fleira. Um leið átti sér stað kortlagning á handverki, efnivið og sögulegri hefð í Sierra Leone. Í framhaldinu fengum við íslenska hönnuði til að leggja Auroru lið við verkefnið. Fyrst voru það hönnunarfyrirtækin Kron by KronKron og As We Grow sem heimsóttu Sierra Leone í september 2017, og tveimur mánuðum seinna kom íslensk-finnsk-sænski hönnunarhópurinn 1+1+1. Í framhaldinu tók íslenski hluti 1+1+1 yfir Hugdetta sem megin hönnuðir á vörum Sweet Salone. Markmið íslensku hönnuðanna var að velja vörur til frekari þróunar og framleiðslu og hanna nýjar vörur í samstarfi með heimamönnum.

Haft var að leiðarljósi að hönnunin myndi laga sig að þeim efniviði sem til er í Sierra Leone og ekki síður að framleiðslugetu og tæknikunnáttu heimafólks. Hönnuðirnir kynntu sér framleiðsluhefðir í landinu og sögulegar og praktískar útfærslur og unnu með handverksfólkinu að hagkvæmustu framleiðslunni.

Allar vörur í þessu verkefni verða framleiddar undir merkinu Sweet Salone. Salone merkir Sierra Leone á Kríó, sem er eitt af megintungumálum sem töluð eru í landinu og Sweet Salone er gælunafn heimamanna á landinu sínu. Allar vörurnar verða merktar með sérstöku kynningarefni um þá sem komu að framleiðslu og hönnun viðkomandi vöru.

Vörurnar og hugmyndirnar sem fæddust í þessu samstarfi hafa farið langt fram úr okkar björtustu vonum. Gæði vara sem heimamenn höfðu þá þegar sett á markað voru bætt en einnig ýttu íslensku hönnuðirnir þeim út fyrir þægindarammann. Saman unnu þau að nýjum vörum sem engu að síður eru framleiddar eftir hefðbundnum Salone leiðum og eru mest megnis unnin úr staðbundnum efnum. Vörurnar eiga því allar mikla skírskotun í landið þar sem þær eru upprunnar í Sierra Leone en inn í þær blandast íslensk hönnun.

Vörurnar eru seldar í vefverslun okkar www.aurorawebshop.com og vonandi víðar þegar fram líða stundir. Við vonumst til þess að sala á þessum vörum sé aðeins byrjunin á einhverju miklu meira.

Markmið verkefnisins er að ýta undir og styðja við hönnun, handverk og framleiðslu í Sierra Leone. Um leið er arfleifð og söguleg hefð í handverki, efnivið og framleiðsluaðferðum sem eiga undir högg að sækja varðveitt. Jafnframt er markmiðið að veita handverksfólki í Sierra Leone tækifæri til mannsæmandi lífs. Íslensku hönnuðurnir fá spennandi tækifæri til að fræðast, fræða aðra og til að láta gott af sér leiða. Síðast en ekki síst er markmiðið að búatil verðmæti úr fallegri hönnun.

Aurora hafði yfirumsjón með  verkefninu með aðstoð frá Sigríði Sigurjónsdóttur en hún var faglegur verkefnastjóri. Aurora fjármagnaði aðkomu íslensku hönnuðanna að þessu samstarfsverkefni og sá einnig um að fjármagna framleiðslu á fyrstu vörunum.

Vörurnar frá Sweet Salone má finna á vefsíðu aurorawebshop.com og í eftirtöldum verslunum / stöðum:

1+1+1 og Hugdettu  Í BARR Living, Garðatorgi 4, Garðabæ

As We Grow  í safnbúð Hönnunarsafns Íslands, Garðatorgi 1

Kron by Kronkron í versluninni Kronkron, Laugavegur 63, Vitastígsmegin

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar af þeim vörum sem seldar eru undir merkjum Sweet Salone

Í tengslum við Hönnunarmars 2019 þá var gerð heimildarmyndarþáttur um hönnuðina Róshildi og Snæbjörn, þar er þeim m.a. fylgt til Sierra Leone þar sem þau fara að vinna með handverksfólki Sweet Salone verkefnisins.