Brúðuheimar

21.05.10

Lista- og menningarmiðstöðin Brúðuheimar var opnuð í Borgarnesi í gær við hátíðlega athöfn í gömlu kaupfélagshúsunum í Englendingavík innan við Brákarsund.  Þar eru brúður í öllum mögulegum myndum í aðalhlutverki.

Það var Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, sem opnaði formlega Brúðuheima, þennan mikla ævintýraheim, en opnun Brúðuheima var hugsanlega stærsta ævintýri lífsins fyrir aðstandendur verkefnisins að þeirra sögn.
Brúðuheimar er frumkvöðlaverkefni hjónanna Bernd Ogrodnik brúðulistamanns og Hildar Jónsdóttur framkvæmdastjóra. Miðstöðin er annars vegar gagnvirkt leikbrúðusafn og hins vegar brúðuleikhús sem sýnir verk fyrir bæði börn og fullorðna.
Brúður Bernds eru  aðal aðdráttarafl Brúðuheima  og í leikbrúðusafninu er fjöldinn allur af kunnulegum persónum, s.s. ljóti andarunginn úr sýningu Þjóðleikhúsins á Klaufum og kóngsdætrum, vondu skógarnornirnar úr sýningu Borgarleikhússins á Ronju ræningjadóttur, mannætuplantan Audrey úr sýningu Leikfélags Akureyrar á Litlu Hryllingsbúðinni að ógleymdum Pappírs Pésa sjálfum.
Brúður Bernds  er einnig  hægt að sjá í fullu fjöri allar helgar en þá verður boðið upp á sýningar í brúðuleikhúsinu.
Kaffihús staðarins er einn ævintýraheimurinn til viðbótar en þar er lögð áhersla á barnvænar veitingar með hollustuna í fyrirrúmi. Á loftinu fyrir ofan kaffihúsið er leikherbergi fyrir börnin þar sem þau getað skapað sinn eigin ævintýraheim með leikbrúðum og leikbúningum.  Einnig er hægt að setjast út á pall á góðviðrisdögum en þaðan eru einungis nokkrir metrar niður í fjöru þar sem krakkarnir geta leikið sér. Og ekki skemmir það fyrir að næsti nágranni Brúðuheima er hinn landsfrægi Bjössaróló.
Heimsókn í Brúðuheima er ævintýraleg upplifun og skemmtileg samverustund fólks á öllum aldri og er Aurora velgerðasjóður afar stolt af að hafa átt þess kost að leggja þeim lið við þetta verðuga verkefni.