Vorúthlutun Hönnunarsjóðs Auroru

20.05.10

Þetta var fjórða úthlutun úr sjóðnum frá því hann var stofnaður þann 13.febrúar 2009 og önnur úthlutun þessa árs. Ákveðið var að hafa þrjár úthlutanir á þessu ári til þess að koma til móts við hraða verkefna í faginu.
Þetta var fjórða úthlutun úr sjóðnum frá því hann var stofnaður þann 13.febrúar 2009 og önnur úthlutun þessa árs.
Ákveðið var að hafa þrjár úthlutanir á þessu ári til þess að koma til móts við hraða verkefna í faginu. Sú fyrsta fór fram 17.febrúar s.l. þar sem 7.880.000 kr. var úthlutað. Í gær var úthlutað 4.000.000 kr. og þar með hefur um 33.000.000 kr. verið úthlutað til um 25 hönnuða og verkefna frá því Hönnunarsjóðurinn hóf starfsemi sína.

Sjóðurinn hefur leitast við að styrkja hönnuði með heilsteypta viðskiptahugmynd og skýra framtíðarsýn með það í huga að stuðningur sjóðsins hafi afgerandi áhrif í ferli viðkomandi hönnuðar í átt til frekari fjármögnunarmöguleika og/eða sjálfbærni. Í því samhengi hefur verið stefna hjá Hönnunarsjóðnum að veita hönnuðum ráðgjöf í viðskiptum og framleiðslu og tækni. Þetta er unnið í samvinnu við viðkomandi hönnuð og fagaðila. Framhald verður á þessu og mun Hönnunarsjóðurinn nú styrkja Unu Hlín Kristjánsdóttur með fatamerki sitt Royal Extreme til slíkrar ráðgjafar að verðmæti 250.000 kr. Önnur slík verkefni eru einnig í farvatninu og til þeirra ráðstafað 250.000 kr.

Af sama meiði sprettur styrkur til LungA, listahátíð á Seyðisfirði. Sjóðurinn mun verðlauna tvo framúrskarandi þáttakendur í hönnunarsýningu LungA, en verðlaunin verða á formi sérsniðinnar ráðgjafar að verðmæti 250.000 kr. LungA fagnar 10 ára afmæli sínu í ár og er því vel við hæfi að huga að næstu skrefum.

Sérstakir starfsreynslustyrkir fyrir nýlega útskrifaða hönnuði, voru fyrst kynntir í október s.l. Þessum styrkjum er ætlað að fjölga tækifærum fyrir nýlega útskrifaða hönnuði á vinnumarkaði, auka færni þeirra og efla tengslanet innan greinarinnar, enda er vilyrði starfandi hönnuðar, arkitekts eða fyrirtækis forsenda umsóknar. Nú er það Hreinn Bernharðsson sem fær 550.000 kr. styrk til þriggja mánaða starfsreynslu hjá Hrafnkeli Birgissyni vöruhönnuði. Þeir munu vinna að ýmsum verkefnum á Íslandi og í Danmörku í sumar.
Hafsteinn Júlíusson með vörumerki sitt HAF, fær 1.500.000 kr. til vöruþróunar og markaðssetningar. HAF var kynnt í Mílanó í síðasta mánuði og hlaut góðar undirtektir og athygli. Hafsteinn útskrifaðist frá LHÍ 2008 með BA próf í vöruhönnun, 2009 með Master í innahúss- og iðnhönnun og hefur síðan starfað fyrir ítalska hönnuðinn Diego Grandi á Ítalíu.

Hönnunarsjóðurinn hefur lagt sig fram um að styrkja einnig verkefni sem þjóna hagsmunum margra, s.s. hönnunarsýningar, sem styðja við greinina. Og að þessu sinni fær slíkan styrk Sigríður Sigurjónsdóttir 1.200.000 kr. til sýningahalds í SPARK design space, sem er nýstofnað hönnunargallerí í Reykjavík. Í fréttatilkynningu frá SPARK segir að “starfsemi gallerísins sé vettvangur fyrir íslensk og erlend hönnunarverkefni en sérstök áhersla verður lögð á verkefni sem fela í sér samstarf hönnuða við aðrar starfsstéttir. Þar verður boðið upp á verkefni og viðburði sem spennandi verður að fylgjast með.“ Fyrsta sýningin opnar í júlí.
Nánari upplýsingar um styrki og störf Hönnunarsjóðs Auroru er að finna á www.honnunarsjodur.is