FRÁ FORMANNI STJÓRNAR

Árið 2012 var ágætt ár hjá Auroru velgerðasjóði. Eignastaða er góð og ávöxtun umfram væntingar miðað við ástand á fjármálamörkuðum.

Úthlutanir Auroru árið 2012 voru í samræmi við úthlutunarstefnu sjóðsins; það er að styðja veglega við fá verkefni og fylgja þeim vel eftir. Alls var framlag sjóðsins til menningar og þróunarverkefna 85 milljónir króna. Ákveðið var að einbeita sér að þremur stærstu verkefnum sjóðsins en það eru dóttursjóðirnir; Kraumur og Hönnunarsjóður Auroru, auk menntaverkefnisins í Síerra Leóne.

Aurora stóð áfram fyrir kröftugu starfi dóttursjóðanna en samtals renna styrkir upp á 45 milljónir árlega til þeirra. Dóttursjóðir Auroru hafa styrkt fjöldann allan af ungum hönnuðum og tónlistarfólki og hafa fyrir löngu skipað sér fastan sess innan þeirra fagsamfélaga. Það er því óhætt að áætla að sjóðirnir eigi mikilvægan þátt í örum vexti íslenskrar hönnunar og blómlegs tónlistariðnaðar á síðustu árum.

Fimmta greiðsla og jafnfram sú síðasta, að upphæð 40 milljónir króna, fór til menntaverkefnisins í Síerra Leóne. Verkefnið sem unnið er í samstarfi við menntayfirvöld þar í landi og UNICEF er stærsta og jafnframt veigamesta verkefni sjóðsins frá upphafi. Verkefnið snýst um að byggja upp barnvænt menntakerfi í Kono, einu af fátækustu héruðum landsins. Alls hefur sjóðurinn lagt fram um 200 milljónir króna til verkefnisins, en að auki lögðu stofnendur sjóðsins til 36 milljónir króna til byggingu 50 skóla í fátækustu héruðum Síerra Leóne, áður en Aurora velgerðasjóður var stofnaður.

Áhrifa verkefnisins gætir þegar, en á þessum fimm árum hefur fjöldi nemenda á grunnskólastigi í Kono aukist um 9%, fjöldi menntaðra kennara hefur aukist um 11% og um leið gæði kennslunnar. Aðgengi hefur verið bætt fyrir fjöldann allan af börnum sem annars höfðu enga möguleika á grunnskólamenntun. Þessar tölur eru nokkuð yfir meðaltali fyrir landið í heild. En verkefni sem þetta er í eðli sínu langtímaverkefni og erfitt er að meta að fullu áhrif verkefnisins, að svo stuttum tíma liðnum. Fyrir utan beinan stuðning við menntunina þá tekur verkefnið á ýmsum samfélagslegum þáttum sem eru til þess gerðir að stuðla að bættri menntun barnanna. Þessir þættir verða hins vegar ekki mældir í tölum fyrr en að einhverjum tíma liðnum. Mæðraklúbbarnir, sem stofnaðir voru við skólana eru t.d. komnir mjög mislangt. En þar sem mæðraklúbbarnir hafa tekið flugið, er greinilegt að þeir hafa mjög jákvæð áhrif á skólagöngu barnanna, auk þess sem þeir styrkja stöðu mæðranna innan þorpssamfélagsins. Samstaða mæðranna og kraftur hefur smitað út frá sér, þjappað foreldrunum saman og opnað augu þeirra fyrir nauðsyn þess að styðja við menntun barna sinna. Við teljum að mæðraklúbbarnir séu einn af mikilvægustu þáttum verkefnisins og ætti tvímælalaust að styrkja enn frekar útbreiðslu þeirra.

Aurora velgerðasjóður stendur nú á vissum tímamótum varðandi verkefnaval. Samstarfið við UNICEF hefur verið mjög ánægjulegt og hvetjandi og við höfum lært mikið af því. Framundan er spennandi vinna við að ákveða næstu skref. Í skýrslu landsnefndar UNICEF á Íslandi kemur fram að Aurora velgerðasjóður er ekki einungis stærsti einstaki styrktaraðili UNICEF á Íslandi, heldur einnig stærsti einstaki styrktaraðili af heildarframlagi Íslands til þróunaraðstoðar. Aurora er einn af fimm stærstu einstöku styrktaraðilum UNICEF í Evrópu og stærsti einstaki gefandinn í Síerra Leóne.

En það er ekki markmið í sjálfu sér að vera stór innan um aðra og svo sannarlega ekki það sem drífur okkur áfram í þessu starfi. Það sem skiptir máli er að verkefnin skili sem mestum og bestum árangri og að hver króna vinni fyrir bættum lífskjörum og betri framtíð skjólstæðinga Auroru sem í þessu tilfelli eru börnin í Síerra Leóne.

Ég þakka samstarfsfólki mínu gott samstarf á árinu 2012.

Ingibjörg Kristjánsdóttir, formaður stjórnar Auroru velgerðasjóðs

 

STARFSEMIN Á ÁRINU 2012

 1. Stjórnarfundir


Stjórn Auroru kom sex sinnum saman til fundar á árinu 2012 en aðalfundur var haldinn þann 30. apríl 2012.

 1. Stjórn og starfsmenn


Á aðalfundi sjóðsins þann 30. apríl var stjórn Auroru endurkjörin og er hún sem fyrr skipuð eftirfarandi aðilum:

 • Ingibjörg Kristjánsdóttir, landslagsarkitekt og annar stofnandi sjóðsins
 • Ólafur Ólafsson, stjórnarformaður Samskipa og annar stofnandi sjóðsins
 • Sigurður Guðmundsson, forseti heilbrigðisvísindasviðs HÍ
 • Auður Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Auroru velgerðasjóðs

Formaður stjórnar er Ingibjörg Kristjánsdóttir.

Aðsetur sjóðsins er í Vonarstræti 4b en þar er einnig aðsetur dóttursjóðanna. 
Framkvæmdastjóri sér um allan daglegan rekstur en um faglega fjárstýringu sjóðsins sér Bruellan Wealth Management í Sviss en Róbert Aron Róbertsson starfsmaður stofnenda sjóðsins í Sviss veitir ýmsa faglega ráðgjöf varðandi 
fjárfestingar á Íslandi. Um launakeyrslur fyrir Auroru og dóttursjóði sér launadeild Samskipa og um færslu bókhalds og skil til endurskoðenda sér Festing hf. Aurora þakkar öllum þessum aðilum fyrir framlag þeirra til sjóðsins.

3. Stofnsjóður

Staða Auroru styrktist nokkuð á árinu 2012 enda voru verðbréfamarkaðir bæði á Íslandi og erlendis nokkuð hagfelldir á árinu. Greiðsla úr þrotabúi KSF á Mön barst um mitt ár og því hefur megnið af því fé borist sjóðnum. 
Eignir í árslok 2012 námu kr. 1.392.085.669 og jukust á árinu sem nemur kr. 25.369.297. Veittir voru styrkir á árinu fyrir kr. 85.000.000 og kostnaður nam kr. 12.535.348. Að teknu tilliti til styrkja og kostnaðar nam ávöxtun ársins 9,1%. Stofnfé sjóðsins hefur aukist frá stofnun og að teknu tilliti til styrkja frá upphafi sem hafa numið kr. 508.000.000 þá er ávöxtun sjóðsins um 14% að meðaltali á ári frá stofnun.

4. Heimasíða


Aurora velgerðasjóður heldur úti heimasíðunni www.aurorafund.is en þar er að finna samþykktir, starfsreglur og ýmsar fleiri upplýsingar um velgerðasjóðinn og dóttursjóði hans, Kraum tónlistarsjóð Auroru, Hönnunarsjóð Auroru og önnur styrktarverkefni, ný og gömul. Þar eru einnig upplýsingar um stjórnir og stjórnendur sjóðanna þriggja ásamt hagnýtum upplýsingum fyrir umsækjendur.

5. 
Úthlutanir á árinu 2012

Aurora velgerðasjóður úthlutaði alls 85 milljón króna framhaldsstyrkjum til þriggja verkefna á sviði mannúðar, mennta og menningar hérlendis og í Afríkuríkinu Síerra Leóne á árinu 2012. Tvö af þessum þrem verkefnum eru eigin verkefni sjóðsins en þriðja verkefnið er fimm ára verkefni í samvinnu við UNICEF.

Verkefnin sem hlutu styrki árið 2012:

 • Hönnunarsjóður Auroru ……………………………………………………… kr. 25.000.000
 • Kraumur, tónlistarsjóður Auroru …………………………………………. kr. 20.000.000 

 • Menntaverkefni í Síerra Leóne á vegum UNICEF…………………… kr. 40.000.000 


 

6. Lýsing verkefna
6.1. Eigin verkefni


Hönnunarsjóður Auroru                                                                                                      styrkur kr. 25.000.000

Hönnunarsjóður Auroru er sjálfstætt starfandi dóttursjóður á vegum Auroru velgerðasjóðs. Hönnunarsjóðurinn var stofnaður í ársbyrjun 2009 að frumkvæði Auroru og voru honum veittar 75 milljónir króna til þriggja ára. Aurora veitti Hönnunarsjóðnum síðan framhaldsstyrk til næstu þriggja ára og mun því tryggja tilvist sjóðsins til ársins 2014.

Stefna Hönnunarsjóðsins er að styrkja framúrskarandi hönnuði með heilsteypta viðskiptahugmynd og skýra framtíðarsýn.

Á þessum fjórum árum hefur Hönnunarsjóðurinn ráðstafað styrkjum til tæplega 50 verkefna og hönnuða auk þess að taka þátt í samstarfi um ýmis verkefni á sviði hönnunar.

Alls var úthlutað 16.500.000 króna til ýmissa hönnuða og verkefna á árinu 2012 í tveim úthlutunum í maí og nóvember. Sjóðnum bárust metfjöldi umsókna af öllum sviðum hönnunar en samhliða auknum fjölda umsókna merkir sjóðurinn aukin gæði þeirra. Veittir voru nokkrir framhaldsstyrkir sem er í takt við þá stefnu sjóðsins að fylgja eftir völdum verkefnum þannig að sá árangur megi fremur nást sem viðkomandi hönnuður stefnir að. Í seinni úthlutun sjóðsins var lögð áhersla á að veita hönnuðum næði til að kafa á aukið dýpi í rannsóknarvinnu sinni sem er einn mikilvægasti þáttur hönnunarferilsins og forsenda góðrar útkomu. Úthlutunarferlið var eins og áður unnið í náinni samvinnu stjórnar og framkvæmdastjóra.

Framkvæmdastjóra og stjórn til ráðgjafar er sérstakt fagráð hönnuða og aðila úr atvinnulífinu og hefur komist á gott samstarf á milli sjóðsins og fagráðsins auk þess sem tveir aðilar innan fagráðsins hafa tekið að sér ráðgjöf fyrir sjóðinn.

Þann 1. ágúst tók Guðrún Margrét Ólafsdóttir, húsgagna– og innanhúsarkitekt við sem framkvæmdastjóri Hönnunarsjóðsins af Hlín Helgu Guðlaugsdóttur vöruhönnuði sem tók sæti í stjórn sjóðsins. Jafnframt sagði Ingibjörg Kristjánsdóttir af sér sem stjórnarformaður sjóðsins og tók Jóhannes Þórðarson við sem stjórnarformaður.

Stjórn Hönnunarsjóðs Auroru skipa eftirtaldir aðilar:

 • Jóhannes Þórðarson, arkitekt, stjórnarformaður
 • Halla Helgadóttir, grafískur hönnuður og framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar 
Íslands, meðstjórnandi
 • Hlín Helga Guðlaugsdóttir, vöruhönnuður, meðstjórnandi

Í fagráði Hönnunarsjóðs Auroru sitja:

 • Eyþór Ívar Jónsson, framkvæmdastjóri Klaks og dósent við Kaupmannahafnar- háskóla
 • Eyjólfur Pálsson, húsgagnahönnuður og kaupmaður í Epal
 • Sigurður Þorsteinsson, iðnhönnuður og eigandi Design Group Italia
 • Sigríður Sigþórsdóttir, arkitekt, Basalt arkitektar
 • Guðmundur Oddur Magnússon, prófessor í grafískri hönnun í Listaháskóla Íslands
 • Steinunn Sigurðardóttir fatahönnuður

 

Kraumur tónlistarsjóður Auroru                                                                                      styrkur kr. 20.000.000

Kraumur tónlistarsjóður Auroru var stofnaður í ársbyrjun 2008 sem tilraunaverkefni til þriggja ára en er nú að klára sitt fimmta starfsár. Starfsemi Kraums hefur verið umfangsmikil og blómleg en sjóðurinn hefur átt fjölbreytt samstarf við ýmsa aðila innan tónlistargeirans. Á þessum árum hafa fjölmargir tónlistarmenn, hljómsveitir og tónlistartengd verkefni fengið úthlutað.

Kraumur hefur það meginhlutverk að efla íslenskt tónlistarlíf, fyrst og fremst með stuðningi við unga listamenn, auðvelda þeim að vinna að listsköpun sinni og koma verkum sínum á framfæri. Markmiðið er að styrkja stöðu ungra tónlistarmanna á Íslandi með beinum styrkjum, faglegri aðstoð og samstarfi af ýmsu tagi. Sjóðnum er sömuleiðis ætlað að ná markmiðum sínum með því að miðla þekkingu á sínu sviði, meðal annars með námskeiðahaldi, ráðgjöf og smiðjum (workshops) og með samstarfi við ýmsa þá sem vinna að sömu markmiðum.

Það er því ljóst að nærvera sjóðsins skiptir miklu máli í íslensku tónlistarlífi.

Sú nýbreytni átti sér stað nú í ár að Kraumur var með eina formlega úthlutun sem fór fram í mars en þá var tæplega 10 milljónum úthlutað til 15 verkefna. Þar af fóru 5,4 milljónir í Útrás (stuðningur og samstarf við listamenn á leið í tónleikaferðir erlendis), 4 milljónir fóru í Innrás (stuðningur og samstarf við listamenn og tónlistarhátíðir við tónleika innanlands), plötugerð og kynning 400 þúsund og síðan var 3,1 milljón varið í eigin verkefni sjóðsins en þar ber hæst Kraumslistinn sem er nú orðinn fastur liður í tónlistarlífinu í desember.

Framkvæmdastjóri Kraums er sem áður Jóhann Ágúst Jóhannsson.

Sú breyting varð á fagráði Kraums að Anna Hildur Hildibrandsdóttir fór út en nýr aðili í fagráðinu er Sigtryggur Baldursson.

Stjórn Kraums tónlistarsjóðs á árinu 2012 skipuðu eftirtaldir aðilar:

 • María Huld Markan, tónlistarmaður og framkvæmdastjóri, formaður
 • Ásmundur Jónsson, framkvæmdastjóri, meðstjórnandi.
 • Eldar Ástþórsson, verkefnisstjóri markaðsdeildar CCP, meðstjórnandi

Í fagráði Kraums tónlistarsjóðs sitja:

 • Árni Heimir Ingólfsson, tónlistarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands
 • Árni Matthíasson, blaðamaður á Morgunblaðinu
 • Björk Guðmundsdóttir, tónlistarmaður
 • Elísabet Indra Ragnarsdóttir, dagskrárgerðamaður hjá Ríkisútvarpinu
 • Kjartan Sveinsson, hljómborðsleikari Sigur Rósar
 • Sigtryggur Baldursson, framkvæmdastjóri ÚTÓN
 • Örn Elías Guðmundsson (Mugison), tónlistarmaður

 

6.2. Erlend verkefni – þróunarhjálp

Menntaverkefni í Síerra Leóne                                                                                              styrkur kr. 40.000.00

Menntaverkefni í einu fátækasta ríki heims Afríkuríkinu Síerra Leóne fékk úthlutað í fimmta og síðasta sinn 40 milljónum króna til að byggja upp barnvænt menntakerfi og skólahúsnæði, einkum með þarfir stúlkubarna í huga. Þetta er að öðrum verkefnum ólöstuðum veigamesta verkefni sjóðsins frá stofnun og mun koma í ljós á næsta starfsári hvort sjóðurinn muni halda áfram stuðningi við það eða fara í önnur þróunarverkefni.

Aurora er mjög stolt af þessu verkefni en það er mjög umfangsmikið og er unnið í samvinnu við menntayfirvöld í Síerra Leóne og UNICEF á Íslandi og þar í landi.

Ef litið er yfir verkefnið þá hafa rúmlega 60 skólar verið byggðir í fimm héruðum en byrjað var í fátækustu héruðunum. Skólarnir voru allir búnir skólahúsgögnum ásamt kynjaskiptum salernum sem er einn af lykilþáttum þess að tryggja öryggi stúlkna í skólunum. Vatnsdælum var komið fyrir í hverjum skóla en það er gert til að tryggja nemendum aðgengi að hreinu vatni. Yfir 100 kennarar hafa hlotið þjálfun í kennsluaðferðum og réttindum barna en því miður er ofbeldi gagnvart börnum í skólum algengt. Eins hefur mikilvægi menntunar verið rætt innan samfélaganna og í framhaldi af því verið stofnaðar skólanefndir og mæðraklúbbar.

Mæðraklúbbar hafa reynst öflug og óvenjuleg leið til að koma fátækustu börnunum í Síerra Leóne í skóla og halda gildi menntunar á lofti. Klúbbarnir hafa haft jákvæð áhrif á vernd barna gegn ofbeldi og hafa stutt við nemendur úr berskjölduðum fjölskyldum. Auk alls þessa stuðla mæðraklúbbarnir að valdeflingu kvenna en þær fá þjálfun í að skipuleggja félagsstarfsemi, halda fundargerðir og skipulagt bókhald. Mæðraklúbbarnir styðja síðan við almenna þróun samfélagsins bæði efnahagslega og félagslega en þeir eru hugsanlega góð leið til að auka virðingu kvenna gagnvart karlmönnum ásamt því að konurnar finna hversu sterkar þær eru ef þær standa saman.
Alls hefur 296 mæðraklúbbum nú þegar verið komið á fót í Kono-héraði og er meðalfjöldi kvenna í hverjum mæðraklúbbi í kringum 40 konur en meðalnemendafjöldi í skólunum sem mæðraklúbbarnir sjá um er um 235 börn. Margfeldisáhrifin af starfi mæðraklúbbana eru því mikil og má reikna út að mæðraklúbbar í Síerra Leóne hafi þegar náð utan um 70.000 börn.

Það er því alveg ljóst að verkefnið hefur skilað börnum í Síerra Leóne aðgengi að menntun sem þau annars hefðu ekki átt kost á og er merkjanleg 9% aukning í skólasókn og 11% fleiri kennarar sem hlotið hafa þjálfun í Kono-héraði á tímabilinu.

Aurora velgerðasjóður hefur því ráðstafað rúmlega 200 milljónum króna á þessu fimm ára tímabili til þessa verkefnis að meðtöldum 36 milljónum króna sem stofnendur sjóðsins lögðu til áður en sjóðurinn var stofnaður.
Frekari upplýsingar um verkefnið er að finna á heimasíðu Auroru velgerðasjóðs, www.aurorafund.is, og einnig á heimasíðu UNICEF, www.unicef.is

Höfuðmarkmið verkefnisins er að styðja UNICEF og stjórnvöld Síerra Leóne í því að tryggja öllum börnum á skólaaldri grunnmenntun fyrir 2015. Stofnað var til verkefnisins árið 2008 og jafnframt tilkynnt að Aurora myndi ráðstafa til þess alls USD 2.000.000, eða 120 milljónum króna á þáverandi gengi, í þrennu lagi á árunum 2008-2010. Við hrun íslensku krónunnar í lok árs 2008 jókst greiðslubyrði sjóðsins vegna þessa verkefnis um helming, þar sem upphafleg upphæð styrksins var í dollurum. Í samvinnu við Landsskrifstofu UNICEF á Íslandi var því ákveðið að dreifa greiðslunum á allt að fimm ár í stað þrjú. Miðað við óbreytt gengi mun því Aurora veita til þessa verkefnis um 200 milljónum króna á fimm árum. Þessar breytingar voru samþykktar af stjórn Auroru velgerðarsjóðs á stjórnarfundi í apríl 2009.