FRÁ FORMANNI STJÓRNAR

Árið 2014 var enn eitt gott ár hjá Aurora velgerðasjóði sannarlega ár breytinga því mikilvæg skref voru tekin í átt að nýjum tímum hjá sjóðnum. Varlega var farið í úthlutanir á árinu eins og fyrr en fyrirferðamestu styrkirnir eru til dóttursjóðanna en sú mynd verður breytt strax á næsta ári þar sem styrkir til sjóðanna eru á enda en þá hafa báðir sjóðirnir verið starfræktir í 7.ár.

Aurora tóka aftur höndum saman með Unicef og styrkti áframhaldandi uppbyggingu mæðraklúbba í Sierra Leone sem má segja að sé sjálfstætt framhalda af hinu metnaðarfulla menntaverkefni sem kláraðist árið 2012. Stjórn Auroru brást við neyðarkalli frá forsetafrú Sierra Leone út af skelfilegu ástandi í landinu vegna Ebólu faraldsins sem geysað hefur undanfarin misseri. Ákveðið var að styrkja neyðaraðstoð og voru hjálpargögn fyrir 150.000 USD send á svæðið. Undirritaður fór sjálfur á staðinn með neyðargögnin og sá með eigin augum hversu skelfilega landið þjáist af völdum þessa hræðilega faraldurs. Var tekið einstaklega vel á móti styrk þessum og má segja að þakklætið sé enn meira en áður þar sem flestir erlendir aðilar hafa dregið úr starfsemi og horfið á braut.

Vinafélag Vinjar fékk aðra úthlutun af þrem eftir að hafa sent inn skýrslu um stórgott starf sem fer fram á Hverfisgötunni og Skákfélagið Hrókurinn fékk styrk til að halda áfram einstöku starfi hjá nágrannaþjóð okkar í Grænlandi.

Mikilvæg skref voru stigin hjá sjóðnum þegar tímamótasamningar voru undirritaðir í Sierra Leone. Aurora tók við rekstri fjögurra löndunar- og fiskvinnslustöðva í félagi við Neptune Holding og stjórnvöld í landinu. Með rekstri stöðvanna verður lögð áhersla á að efla þekkingu fiskimanna á veiðiaðferðum, vinnslu á sjávarfangi og drefingu þess á markað ásamt því að auka framboð á fiski til íbúa landsins. Verkefni þetta er mjög mikilvægt til að efla atvinnulíf í landinu og stuðla að sjálfbærni og standa vonir til að verkefnið verði fyrirmynd annara verkefna til eflingar atvinnulífs í Sierra Leone.

Aurora gerði einnig lánasmaninga við tvö örlánafyrirtæki í Freetown en markmið með því er að styðja við bakið á smærri fyrirtækjum og efla þannig atvinnulíf í landinu.

Undirritaður tók við stjórnarformennsku á aðalfundi um mitt árið en tveir nýjir stjórnarmenn þau Birta Ólafsdóttir og Stefán Ingi Stefánsson komu inní stjórn í stað Sigurðar Guðmundssonar sem starfað hefur með sjóðnum frá stofnun og Auðar Einarsdóttur sem jafnframt starfar sem framkvæmdarstjóri sjóðsins. Stjórnin ákvað að auglýsa eftir framkvæmdastjóra þróunarmála í ljósi stórra nýrra verkefna hjá sjóðnum í Sierra Leone og mun sá aðili koma til liðs við sjóðinn á nýju ári.

Með bjartsýni að leiðarljósi mun Aurora velgerðasjóður vinna hörðum höndum að því að bæta lífsskilyrði í einu fátækasta ríki heims Sierra Leone .

Ólafur Ólafsson, stjórnarformaður

 

STARFSEMIN Á ÁRINU 2014

Stjórnarfundir

Stjórn Auroru kom fimm sinnum saman til fundar á árinu 2014 en aðalfundur var haldinn þann 24. Júní 2014. Nokkur mál voru afgreidd af stjórn í gegnum tölvupósta og bókuð í næstu fundargerð.

Stjórn & starfsmenn

Á aðalfundi sjóðsins þann 24.júní tilkynnti formaður stjórnar að Auður Einarsdóttir og Sigurður Guðmundsson gæfu ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Formaður lagði til þau Birtu Ólafsdóttur og Stefán Inga Stefánsson sem voru samþykkt einróma. Jafnframt tilkynnti formaður stjórnar Ingibjörg Kristjánsdóttir að hún gæfi ekki lengur kost á sér sem formaður stjórnar og lagði til að Ólafur Ólafsson tæki við sem stjórnarformaður sem var einróma samþykkt. Stjórn Auroru er því skipuð eftirfarandi aðilum:

 • Ólafur Ólafsson, stjórnarformaður Samskipa og annar stofnandi sjóðsins
 • Ingibjörg Kristjánsdóttir, landslagsarkitekt og annar stofnandi sjóðsins
 • Birta Ólafsdóttir, BA í frumkvöðlafræði og nýsköpun
 • Stefán Ingi Stefánsson, yfirmaður samfélagslegrar ábyrgðar og fjáraflanna 
Unicef í Rómönsku ameríku og Karíbahafi

Formaður stjórnar er Ólafur Ólafsson

Aðsetur sjóðsins er í Vonarstræti 4b en þar er einnig aðsetur dóttursjóðanna. 
Framkvæmdastjóri sér um allan daglegan rekstur en um faglega fjárstýringu sjóðsins sér Bruellan Wealth Management í Sviss en Róbert Aron Róbertsson starfsmaður stofnenda sjóðsins í Sviss veitir ýmissa faglega ráðgjöf varðandi fjárfestingar á Íslandi. Um launakeyrslur fyrir Auroru og dóttursjóði sér launadeild Samskipa og um færslu bókhalds og skil til endurskoðenda sér Festing hf. Aurora þakkar öllum þessum aðilum fyrir mikilvægt framlag þeirra til sjóðsins.

Stofnsjóður 


Árið 2014 var Auroru hagfellt á verðbréfamörkuðum. Bæði erlend og innlend söfn sjóðsins gáfu jákvæða ávöxtun. Þrátt fyrir styrkingu krónunnar gagnvart evru þá vógu eignir í dollurum nokkuð mikið í safninu sem styrkist um 10% gagnvart krónunni á árinu. Það jók ávöxtun sjóðsins í krónum.

Eignir í árslok 2014 námu kr. 1.478.344.842 og jukust á árinu sem nemur kr. 51.570.017. Veittir voru styrkir á árinu fyrir kr. 59.942.775 og nam kostnaður sjóðsins kr. 10.855.879. Að teknu tilliti til styrkja og kostnaðar nam ávöxtun ársins 8,6%.

Stofnfé sjóðsins hefur aukist talsvert frá stofnun og að teknu tilliti til styrkja sem numið hafa kr. 639.647.303 frá upphafi er meðalávöxtun sjóðsins um 11% á ári frá stofnun.

Heimasíða

Aurora Velgerðasjóður heldur úti heimasíðunni www.aurorafund.is en þar er að finna samþykktir, starfsreglur og ýmsar fleiri upplýsingar um velgerðasjóðinn og dóttursjóði hans, Kraum tónlistarsjóð Auroru, Hönnunarsjóð Auroru og önnur styrktarverkefni, ný og gömul. Þar eru einnig upplýsingar um stjórnir og stjórnendur sjóðanna þriggja. Unnið er stöðugt að því að gera heimasíðuna betri og að þar megi nálgast allar upplýsingar sem lúta að starfsemi sjóðsins og þeim verkefnum sem hann hefur styrkt.

Úthlutanir á árinu 2014

Aurora Velgerðasjóður úthlutaði alls 78.2 milljón króna til sex verkefna á sviði mennta, menningar og mannúðar hérlendis og í Afríkuríkinu Sierra Leone á árinu 2014. Tvö af þessum verkefnum eru eigin verkefni sjóðsins en hin fjögur verkefnin eru mjög ólík en tengjast meginmarkmiðum sjóðsins. Í fyrsta skipti tók sjóðurinn þátt í neyðaraðstoð eftir að beiðni kom frá forsetafrú Sierra Leone.

Verkefnin sem hlutu styrki 2014:

 1. Hönnunarsjóður Auroru………………………………………………………….kr 25.000.000
 2. Kraumur, tónlistarsjóður Auroru……………………………………………..kr 20.000.000
 3. UNICEF á Íslandi vegna mæðraklúbbar í Sierra Leone………………..kr 11.500.000
 4. Neyðaraðstoð til Sierra Leone vegna Ebólu……………………………….kr 20.00.000
 5. Rauði Kross Íslands v.Vinafélags Vinjar………………………………………kr 1.000.000
 6. Skákfélagið Hrókurinn……………………………………………………………..kr 700.000

 

 1. Lýsing verkefna
1.1. Eigin verkefni

Stjórn Auroru óskaði eftir því þegar árið 2012 við stjórnir dóttursjóðanna að setja af stað vinnu við að leita allra leiða til að halda áfram starfsemi sjóðanna með aðkomu nýrra styrktaraðila. Stjórn Auroru lýsti sig ennfremur reiðubúna til að aðstoða við þá vinnu en lítið hefur gerst á því ári sem er liðið og er staðan því sú að Kraumur er á sínu síðasta starfsári 2014 en Hönnunarsjóður Auroru fékk styrk í eitt ár til viðbótar.

Hönnunarsjóður Auroru                                                                                                         styrkur kr 25.000.000

Hönnunarsjóðurinn heldur áfram sinni vinnu við að leita leiða til fyrir sjóðinn til að halda áfram tilvist án aðkomu Auroru og var ákveðið að veit þeim eitt ár í viðbót til að fullreyna þá vinnu og mun því koma í ljós á næstu misserum hvernig til tekst.

Hönnunarsjóður Auroru er sjálfstætt starfandi dóttursjóður á vegum Auroru Velgerðasjóðs. Hönnunarsjóðurinn var stofnaður í ársbyrjun 2009 að frumkvæði Auroru og var honum veittar 75 milljónir króna til þriggja ára. Aurora veitti Hönnunarsjóðnum síðan framhaldsstyrk til þriggja ára og er sjóðurinn því á sínu sjötta starfsári.

Stefna Hönnunarsjóðsins er að styrkja framúrskarandi hönnuði með heilsteypta viðskiptahugmynd og skýra framtíðarsýn.

Á þessum sex árum sem Hönnunarsjóðurinn hefur starfað hefur hann ráðstafað styrkjum til tæplega 70 verkefna og hönnuða auk þess að taka þátt í samstarfi um ýmis verkefni á sviði hönnunar.

Alls var úthlutað 15.00.000 króna til ýmissa hönnuða og verkefna á árinu 2014 í tveim úthlutunum í maí og nóvember. Sjóðnum bárust metfjöldi umsókna af öllum sviðum hönnunar en samhliða auknum fjölda umsókna merkir sjóðurinn mikla grósku og framþróun í verkefnum hönnuða á Íslandi. Veittir voru nokkrir framhaldsstyrkir sem er í takt við þá stefnu sjóðsins að fylgja eftir völdum verkefnum þannig að sá árangur megi fremur nást sem viðkomandi hönnuður stefnir að. Í seinni úthlutun sjóðsins var lögð sérstök áhersla á arkitektur með styrk til verkefnisins Hæg breytileg átt sem er eigin verkefni sjóðsins og var kynnt á Hönnunarmars með viðburð í Hannesarholti.

Hæg breytileg átt er verkefni á sviði byggða- og íbúðaþróunar þar sem lögð verður áhersla á að fá fram hugmyndir sem varpa ljósi á vistvænni, samfélagsmeðvitaðri, ódýrari og framsæknari íbúðarkosti í íslensku þéttbýli í krafti hugmyndavettvangs, þar sem samvinna verður í fyrirrúmi. Mynduð verða þverfagleg teymi hönnuða, arkitekta, tæknimenntaðra einstaklinga, hugvísinda- og raunvísindafólks til að takast á við þetta mikilvæga verkefni. Samstarfaðilar Hönnunarsjóðs Auroru í þessu verkefni eru Reykjavíkurborg, Samtök iðnaðarins og Hönnunarmiðstöð.

Úthlutunarferlið var eins og áður unnið í náinni samvinnu stjórnar og framkvæmdastjóra. Framkvæmdastjóra og stjórn til ráðgjafar er sérstakt fagráð hönnuða og aðila úr atvinnulífinu og hefur komist á gott samstarf á milli sjóðsins og fagráðsins auk þess sem tveir aðilar innan fagráðsins hafa tekið að sér ráðgjöf fyrir sjóðinn.

Stjórn Hönnunarsjóðs Auroru skipar eftirtalda aðila:

 • Jóhannes Þórðarsson, arkitekt, formaður stjórnar.
 • Atli Hilmarsson, grafískur hönnuður, meðstjórnandi.
 • Hlín Helga Guðlaugsdóttir, vöruhönnuður, meðstjórnandi.

Í fagráði Hönnunarsjóðs Auroru sitja:

 • Eyþór Ívar Jónsson, framkvæmdastjóri Klaks og dósent við Kaupmannahafnar- háskóla.
 • Eyjólfur Pálsson, húsgagnahönnuður og kaupmaður í Epal.
 • Sigurður Þorsteinsson, iðnhönnuður og eigandi Design Group Italia.
 • Sigríður Sigþórsdóttir, arkitekt, Basalt arkitektar.
 • Guðmundur Oddur Magnússon, prófessor í grafískri hönnun í Listaháskóla Íslands.
 • Fiona Cribben, fatahönnuður

Kraumur tónlistarsjóður Auroru                                                                                           styrkur kr 20.000.000

Ljóst var um mitt ár 2014 að framkvæmdastjóri og stjórn Kraums sáu engar leiðir til framhaldslífs Kraums án aðkomu Auroru. Það varð því sameiginleg ákvörðun beggja stjórna Kraums og Auroru að stjórn Kraums yrði skipt út sem og að framkvæmdastjóri segði upp störfum enda ljóst að starfsemin yrði lítil sem engin næstu misseri. Á síðast aðalfundi var því kosin bráðabirgðastjórn sem fer með ákvörðunarvald um framhaldslíf Kraums. 
Kraumur tónlistarsjóður Auroru var stofnaður í ársbyrjun 2008 sem tilraunaverkefni til þriggja ára sem fékk síðan framhaldsstyrk til fjögurra ára í viðbót og er nú á sínu sjöunda og síðasta starfsári. 
Starfsemi Kraums hefur verið umfangsmikil og blómleg en sjóðurinn hefur átt fjölbreytt samstarf við ýmsa aðila innan tónlistargeirans. Á þessum árum hafa fjölmargir tónlistarmenn, hljómsveitir og tónlistartengd verkefni fengið úthlutað. 
Kraumur hefur haft það meginhlutverk að efla íslenskt tónlistarlíf, fyrst og fremst með stuðningi við unga listamenn, auðvelda þeim að vinna að listsköpun sinni og koma verkum sínum á framfæri. Markmiðið hefur alltaf verið skýrt að styrkja stöðu ungra tónlistarmanna á Íslandi með beinum styrkjum, faglegri aðstoð og samstarfi af ýmsu tagi. Sjóðnum hefur líka unnið að því að miðla þekkingu á sínu sviði, meðal annars með námskeiðahaldi, ráðgjöf og smiðjum (workshops) og með samstarfi við ýmsa þá sem vinna að sömu markmiðum. 
Það er því ljóst að nærvera sjóðsins hefur skipt miklu máli í íslensku tónlistarlífi.

Kraumur var með eina formlega úthlutun í apríl á þessu ári, líkt og undanfarin tvö ár. 7,8 milljónum úthlutað til 13 verkefna þar af fóru rúmlega 5 milljónir í Útrás ( stuðningur og samstarf við listamenn á leið í tónleikaferðir erlendis), 2,3 milljónir fóru í Innrás ( stuðningur og samstarf við listamenn og tónlistarhátíðir við tónleika innanlands). 
Framkvæmdastjóri Kraums fram á mitt ár 2014 var Jóhann Ágúst Jóhannsson.

Í bráðabirgðastjórn Kraums tónlistarsjóðs frá miðju ári 2014 sitja eftirtaldir aðilar:

 • Auður Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Auroru velgerðasjóðs, formaður
 • Eldar Ástþórsson, verkefnisstjóri markaðsdeildar CCP, meðstjórnandi
 • Ingibjörg Kristjánsdóttir, annars stofnandi Auroru velgerðasjóðs, meðstjórnandi

Í fagráði Kraums tónlistarsjóðs sitja:

 • Árni Matthíasson, blaðamaður á Morgunblaðinu
 • Björk Guðmundsdóttir , tónlistarmaður
 • Elísabet Indra Ragnarsdóttir, dagskrárgerðamaður hjá Ríkisútvarpinu
 • Guðni Tómasson, stjórnarformaður Sinfóníuhljómsveitar Íslands
 • Kjartan Sveinsson, hljómborðsleikari Sigur Rósar
 • Sigryggur Baldursson, framkvæmdastjóri ÚTÓN
 • Örn Elías Guðmundsson (Mugison), tónlistarmaður
1.2 Erlend verkefni – þróunaraðstoð


UNICEF á Íslandi, stofnun 100 mæðraklúbba í Sierra Leon                                            styrkur kr 11.500.000

Mæðraklúbbar hafa reynst óvenjuleg en öflug leið til að koma fátækustu börnunum í Síerra Leóne í skóla, halda gildi menntunar á lofti, styðja við nemendur úr berskjölduðum fjölskyldum og stuðla að valdeflingu kvenna.
Síðastliðin ár hefur Aurora veitt umfangsmikinn stuðning við menntaverkefni UNICEF í Síerra Leóne, meðal annars með stofnun mæðraklúbba. Fyrir tilstuðlan Auroru hefur um 300 mæðraklúbbum þegar verið komið á fót í Kono-héraði. Meðalfjöldi í hverjum klúbb er um 40 og meðal nemendafjöldi í skólum sem klúbbarnir sjá um 235. Margfeldisáhrifin af klúbbunum eru því gríðarleg og má því segja að mæðraklúbbar í Síerra Leóne hafi þegar náð til um 70.000 barna. 
Aurora velgerðasjóður styrkir nú Unicef á Íslandi til að koma á laggirnar 100 mæðraklúbbum í fjórum héruðum í Sierra Leone. 
Frekari upplýsingar um verkefnið er að finna á heimasíðu UNICEF www.unicef.is

Neyðaraðstoð í Sierra Leone vegna Ebólu                                                                            styrkur kr.20.000.000

Stjórn samþykkti að legga allt að 20 miljónir króna til neyðaraðstoðar í Sierra Leone vegna Ebólu faraldursins. Peningurinn fór m.a. til kaupa á sjúkragögnum auk aðstoðar við að koma gögnunum á áfangastað, dreifa þeim til viðkomandi sjúkrastofnana og fleira. Aurora tók höndum saman með breska flugfélaginu Hangar 8, sem sendi flugvél til Sierra Leone , hlaðna ýmsum búnaði og lyfjum sem nauðsynleg eru til að meðhöndla sjúka. Stjórnarformaður sjóðsins Ólafur Ólafsson fór sjálfur með flugvélinni til Sierra Leone og afhenti sjúkragögnin.

Á annað þúsund manns hafa nú látist af völdum ebólunnar í Sierra Leone og allt að þúsund börn hafa misst annað eða báða foreldra sína. Börnin búa við ömurlega aðstæður og eru mjög einangruð vegna hræðslu umhverfisins við smit. Afleidd áhrif á innviði samfélagsins eru ekki síður alvarleg en faraldurinn hefur haft lamandi áhrif á menntun, heilsugæslu og atvinnulíf í landinu.

Aðeins 13 ár eru síðan að borgarastyrjöldnni lauk í Sierra Leone (1991-2002), þar sem talið er að yfir 50.000 manns hafi látið lífið. Stríðið var mjög mannskætt og eyðileggingin algjör en mest allir innviðir landsins eyðilögðust ásamt því að milljónir manna flúðu heimkynni sín og settust að sem flóttamenn í nágrannaríkjunum. Að loknu stríði var Sierra Leone efst á lista yfir fátækustu lönd heims. Á þessum árum sem liðin eru hefur samfélagið hægt og rólega verið að vinna sig út úr mjög brothættu ástandi fátæktar og sárrar neyðar. Menn óttast að Ebólufaraldurinn nú geti haft skelfilegar afleiðingar fyrir framtíðar hagvöxt og hagsæld í landinu og ógni þeim stöðuleika sem náðst hefur. Í ljósi þessa ákvað Aurora að leggja sitt af mörkum til neyðaraðstsoðar í Sierra Leone, en aðeins með samhæfðu átaki margra er hægt að stoppa útbreiðslu þessa skelfilega faraldurs.

1.3. Innlend verkefni


Rauði kross Íslands v.Vinafélag Vinjar                                                                  styrkur 1 milljón á ári í þrjú ár

Árið 2009 styrkti Aurora velgerðasjóður Rauða kross Íslands um 20 milljónir króna til þriggja verkefna og þar af eitt verkefnið Vin, athvarf Rauða Kross Íslands fyrir fólk með geðraskanir. Vinafélag Vinjar var stofnað árið 2011 til að tryggja framtíð Vinjar þar sem Rauði Krossinn huggðist loka vegna fjárskorts. Árið 2012 var gerður samningur milli Reykjavíkurborgar, Velferðarráðuneytisins, Rauða Krossins og Vinafélags Vinjar til að tryggja starfsemi Vinjar til þriggja ára, Vinafélagið skuldbatt sig til að leggja fram hluta af rekstrarfénu og mun Aurora velgerðasjóður þannig endurnýja stuðning sinn við Vin með því að leggja Vinafélaginu til 1.milljón króna á ári til þriggja ára. Eftir að stjórn Vinjar skilaði inn skýrslu um stórgott starf þeirra samþykkti stjórn Auroru greiðslu á öðrum hluta styrksins af þremur.

Skákfélagið Hrókurinn                                                                                                                  styrkur 700.000

Skákfélagið Hókurinn hefur síðan árið 2003 unnið markvisst að útbreiðslu skákíþróttarinnar í Grænlandi en fyrir þann tíma var skák þar nánast óþekkt. Hrókurinn hefur farið fjölmargar ferðir til Grænlands og heimsótt flest þorpin þar og haldið námskeið, fjöltefli og skákmót. Útbreiðsla skákíþróttarinnar hefur verið mikil og Hróknum tekið vel hvar sem hann hefur komið og eru fjölmörg börn og fullorðnir að tefla á Grænlandi fyrir tilstuðlan Hróksins. Aurora velgerðasjóður styrkir Hrókinn um 700.000 kr til að fara þeirra árlegu ferð í Scoresby-sund sem er afskekktasta þorp norðurslóða en þar halda þeir stóra skákhátíð.