Kraumur

Ár
Fjárhæð
Svæði
2008 – 2017
ISK 142.000.000
Ísland

Kraumur tónlistarsjóður var stofnaður í ársbyrjun 2008 sem tilraunaverkefni til þriggja ára og var hann rekinn sem sjálfstætt starfandi dóttursjóður Auroru velgerðasjóðs. Kraumur var stofnaður með það í huga að efla íslenskt tónlistarlíf, fyrst og fremst með stuðningi við unga listamenn til að auðvelda þeim að vinna að listsköpun sinni og koma verkum sínum á framfæri.

Markmiðið var að styrkja stöðu ungra tónlistarmanna á Íslandi með beinum styrkjum, faglegri aðstoð og samstarfi af ýmsu tagi. Sjóðnum var sömuleiðis ætlað að ná markmiðum sínum með því að miðla þekkingu á sínu sviði, meðal annars með námskeiðahaldi, ráðgjöf og smiðjum (e. workshops) og með samstarfi við ýmsa þá sem vinna að sömu markmiðum.

Starfsemi Kraums var blómleg og átti sjóðurinn fjölbreytt samstarf við ýmsa aðila innan íslensks tónlistarlífs. Kraumur styrkti yfir 100 tónlistarmenn, hljómsveitir og tónlistartengd verkefni. Kraumur hefur m.a. styrkt tónleika og tónleikaferðalög heima og heiman, aðstoðað við markaðssetningu erlendis. Einnig hefur hann staðið fyrir tónlistarviðurkenningum undir nafninu Kraumslistinn.

Eldar Ástþórsson var framkvæmdastjóri í upphafi og kom hann Kraumi á kortið, lagði línurnar fyrir starfsemi sjóðsins og leiddi hann í gegnum fyrstu þrjú árin og kom honum í mjög farsælan farveg. Jóhann Ágúst Jóhannsson tók við af Eldari sem framkvæmdastjóri Kraums í maí 2011 og gengdi því starfi fram til ársins 2014. Á árunum 2014 og 2015 voru miklar breytingar innan sjóðsins og sá þá stjórn Kraums og þá sérstaklega formaður stjórnar, Auður Einarsdóttir, um rekstur sjóðsins. Árið 2015 tók Eldar Ástþórsson við sem stjórnarformaður, en hann hafði setið í stjórn frá árinu 2011.

Kraum tónlistarsjóð var lokað árið 2016, en eitt af verkefnum sjóðsins Kraumslistinn heldur þó áfram og verður framvegis verkefni á vegum Auroru velgerðasjóðs. Eldar Ástþórsson er verkefnastjóri Kraumslistans.

Nánari upplýsingar um Kraum tónlistarsjóð má finna á vefsíðu hans www.kraumur.is.