Hönnunarsjóður Auroru

Ár
Fjárhæð
Svæði
2009 – 2016
ISK 175.000.000
Ísland

Stofnun Hönnunarsjóðs Auroru markaði tímamót í hönnun á Íslandi því hér hafði aldrei verið til sérstakur sjóður sem styrkti hönnuði. Sjóðurinn var stofnaður í ársbyrjun 2009 og var hann rekinn sem sjálfstætt starfandi dóttursjóður Auroru velgerðasjóðs. Hönnunarsjóðurinn var tilraunaverkefni sem upphaflega átti að veita 75 milljónir króna til þriggja ára.

Sjóðurinn hafði það meginmarkmið að styrkja framúrskarandi hönnuði með heilsteypta viðskiptahugmynd og skýra framtíðarsýn. Á fyrstu þrem árum sjóðsins ráðstafaði hann styrkjum til tæplega 40 verkefna og hönnuða auk þess að taka þátt í samstarfi um ýmis verkefni á sviði hönnunar. Sjóðurinn hefur einnig veitt allnokkra framhaldsstyrki sem er í takt við þá stefnu sjóðsins að fylgja eftir völdum verkefnum þannig að viðkomandi hönnuður nái þeim markmiðum sem hann stefnir að.

Stjórn Auroru velgerðasjóðs samþykkti svo í lok árs 2011 að tryggja starfsemi Hönnunarsjóðs Auroru önnur 3 ár eða til loka ársins 2014 og veita til þess verkefnis 75 milljónum króna. Stjórnin var sannfærð um að Hönnunarsjóður Auroru hafi gegnt mikilvægu hlutverki innan íslensks hönnunarsamfélags og skipt sköpum fyrir þá aðila sem notið hafa styrkja hans og þá sérstaklega þeirra sem hlotið hafa endurtekna styrki frá sjóðnum. Stjórn Auroru taldi einnig mikilvægt að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð var í upphafi, það er að viðhalda gróskumiklu starfi allt árið um kring með eigin verkefnum, samstarfsverkefnum og ráðgjöf.

Hlín Helga Guðlaugsdóttir, vöruhönnuður, starfaði sem framkvæmdastjóri Hönnunarsjóðs Auroru fyrstu þrjú starfsár sjóðsins en Guðrún Margrét Ólafsdóttir tók síðan við sem framkvæmdastjóri.  Ómetanlegt og óeigingjarnt starf þeirra styrkti sjóðinn og kom honum í þann góða farveg að vera mikilvægur hluti af stuðningsumhverfi hönnuða á Íslandi.

Hönnunarsjóð Auroru var lokað árið 2016.

Nánari upplýsingar um Hönnunarsjóð Auroru má finna á  www.honnunarsjodur.is.