Neyðaraðstoð vegna ebólufaraldursins

Ár
Fjárhæð
Svæði
2014
ISK 15.107.729
Sierra Leone

Ebólufaraldurinn kom fram í Sierra Leone í maí 2014. Opinberar tölur segja að 14.124 einstaklingar hafi smitast og 3.956 látist. Haustið 2014 fékk Aurora velgerðasjóður beiðni frá forsetafrú Sierra Leone um neyðaraðstoð vegna faraldursins. Þrátt fyrir að stofnskrá Auroru velgerðasjóðs geri ekki ráð fyrir veitingu styrkja í neyðartilvikum ákvað stjórn sjóðsins að þetta væri einstakt tilvik og brást við óskinni.

Í nóvember 2014, þegar faraldurinn stóð sem hæst, gaf Aurora tvö tonn af lyfjum og öðrum búnaði, eins og hlífðarfatnaði og gúmmíhönskum, svo unnt væri að meðhöndla veika einstaklinga. Vörunum var dreift á þær fjölmörgu ebólumiðstöðvar sem settar voru upp víðs vegar um landið.

Þar að auki fjármagnaði Aurora töluvert af matargjöfum (hrísgrjónum, salti, lauk og matarolíu) sem dreift var víða, meðal annars til Goderich, fjölmargra munaðarleysingjahæla og til heimilislausra. Dreifing matvælanna átti sér stað þegar þriggja daga útgöngubann var sett á til þess að reyna að stemma stigu við úbreiðslu ebólufaraldursins.

donation