Menntaverkefni í Kono í Sierra Leone

Ár
Fjárhæð
Svæði
Samstarfsaðilar
2008 - 2012
ISK 164.700.000
Sierra Leone

UNICEF

Borgarastríðið í Sierra Leone stóð yfir í heilan áratug (1991–2002) og kom það illa niður á öllum innviðum samfélagsins, þar með talið menntakerfinu. Varð það til þess að stór hluti barna hafði ekki aðgang að neinni menntun. Þegar stríðinu lauk voru innan við 70% barna með einhverja grunnskólamenntun. Í kjölfar stríðsins fór mikil uppbygging í gang. Ríkisstjórn landsins eyrnamerkti 20% af útgjöldum sínum til menntamála og var staðráðið í að ná þúsaldarmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um að tryggja öllum börnum grunnmenntun fyrir árið 2015. Þessu markmiði var ekki hægt að ná nema með aðstoð, þar sem ríkið var ekki í stakk búið að takast á við verkefnið eitt og sér.

Menntaverkefni Auroru í Kono var hrundið af stað árið 2008. Var þar upphaflega um að ræða þriggja ára verkefni, sem seinna var framlengt og varð í heildina að fimm ára verkefni. Verkefnið einblíndi á Kono-héraðið, sem er eitt af fátækustu héruðum landsins og jafnframt þar sem stríðið stóð sem lengst. Markmiðið var að öll börn á skólaaldri í Kono fengju grunnmenntun.
Verkefnið fylgdi í kjölfar á öðru verkefni sem einnig var unnið með UNICEF. Það verkefni var styrkt beint af stofnendum Auroru velgerðasjóðs, þeim Ingibjörgu Kristjánsdóttur og Ólafi Ólafssyni. Fimmtíu nýir skólar voru byggðir í afskekktum þorpum víðs vegar um Sierra Leone ásamt meðfylgjandi vatnsbrunnum og salernisaðstöðu.

Vegna menntaverkefnis Auroru í Kono hafa á annað hundrað kennarara hlotið endurmenntun og níu nýjar skólabyggingar hafa risið með tilheyrandi vatnsveitu- og frárennsliskerfum, húsbúnaði og kennslugögnum. Í hverju húsi eru þrjár til sex skólastofur þar sem börnum á aldrinum 6–12 ára er kennt. Mikil áhersla var lögð á gæði námsins og að laga það sem best að þörfum barnanna. Sérstök áhersla var lögð á menntun stúlkubarna. Markmiðið er að halda stúlkunum sem lengst í skóla og koma þannig í veg fyrir að þær gangi í hjónaband og hefji barneignir á æskuárum. Nærsamfélagið var einnig virkjað með því að stofna foreldrafélög við skólana og mæðraklúbba.

Hluti af stjórn Auroru velgerðasjóðs, ásamt nokkrum aðilum frá UNICEF á Íslandi, heimsótti skólanna árið 2013 til þess að meta verkefnið. Í kjölfar heimsóknarinnar voru gefnar út skýrslur sem mátu árangurinn. Í niðurstöðunum kom meðal annars fram að 9% aukning hafði orðið á fjölda nemenda í skólum í Kono-héraði og 11% aukning menntaðra kennara á svæðinu. Skýrsluna má nálgast á stikunni hér til hliðar.

Verkefnið er það stærsta sem Aurora velgerðasjóður hefur staðið að í samstarfi með UNICEF á Íslandi. UNICEF í Sierra Leone hafði umsjón með verkefninu í samvinnu við menntamálaráðuneyti landsins og hefur það ýtt undir enn frekara samstarf milli UNICEF og stjórnvalda í Sierra Leone.

Þetta verkefni er eitt fjögurra menntaverkefna sem Aurora hefur styrkt með UNICEF í Sierra Leone á tímabilinu 2008–2016.