Barnavernd í Sierra Leone

Ár
Fjárhæð
Svæði
Samstarfsaðilar
2011 – 2012
ISK 15.700.000
Sierra Leone

UNICEF

Nánast helmingur íbúa í Sierra Leone er yngri en 18 ára. Á hverjum einasta degi standa börn og ungmenni frammi fyrir bæði félagslegum og efnahagslegum áskorunum. Mörg börn eru þolendur ofbeldis og misnotkunar, einkum í kjölfar borgarastríðsins. Hið opinbera hefur hvorki næga getu né bolmagn til þess að veita börnunum vernd, sérstaklega ekki þeim sem talin eru mest berskjölduð.

Markmið verkefnisins var að þjálfa félagsráðgjafa í barnaverndarmálum. Félagsráðgjafarnir fengu leiðsögn hvernig þeir gætu tekið á málum eins og kynferðislegri misnotkun og komið þeim í réttan farveg. Barnaverndarnefndir fengu aðstoð og leiðsögn hvernig best væri að samræma aðgerðir í þágu barna. Hluti verkefnisins einblíndi til dæmis á ótímabærar þunganir unglingsstúlkna. Þar var skoðað hvað hægt væri að gera til að stemma stigu við ótímabærum þungunum og hvernig best væri að aðstoða þær ungu stúlkur sem verða þungaðar.

Yfir 100 félagsráðgjafar hlutu þjálfun í gegnum verkefnið, ásamt embættismönnum í sveitarfélögum og í félagsmálaráðuneytinu.

Verkefnið er eitt fjögurra menntaverkefna sem Aurora hefur styrkt með UNICEF í Sierra Leone á tímabilinu 2008–2016.