Aschobi Design

Ár
Fjárhæð
Svæði
2010
ISK 6.212.726
Sierra Leone

Adama Kai er ungur fatahönnuður frá Sierra Leone en hún hefur lokið námi í fatahönnun við Parsons School of Design í París. Að loknu námi ákvað hún að setjast að í fæðingarborg sinni, Freetown, og stofna sitt eigið fyrirtæki. Adama byrjaði á að setja upp litla saumastofu og í kjölfarið framleiddi hún sína fyrstu fatalínu undir nafninu Aschobi Design og sett upp verslun í miðbæ Freetown. Á Facebook-síðu sinni hafði hún sett sér það háleita markmið að verða jafnþekkt í Sierra Leone og fatahönnuðurinn Ralph Lauren er í Bandaríkjunum.  Adama Kai er að mörgu leyti sú ímynd sem ungt fólk í Sierra Leone skortir. Hún er duglegur einstaklingur með framtíðarsýn og metnað fyrir sig og Sierra Leone.

Styrkur Auroru var notaður til þess að vinna við gerð viðskiptaáætlunar fyrir fyrirtæki hennar Aschobi Design. Gerður var samningur við franska ráðgjafafyrirtækið Luxe Corp. um aðstoð við gerð viðskiptaáætlunarinnar. Í framhaldi af kynningu fyrir stjórn Auroru var samið við Elínu Stefánsdóttur, viðskiptafræðing, um að taka að sér tímabundið að aðstoða Adömu við frekari útfærslu og aðlögun viðskiptaáætlunarinnar. Elín vann starf sitt í sjálfboðavinnu sem var hennar framlag til fyrirtækis Adömu, Aschobi Design.