ÞRIÐJI PÓLLINN

Ár
Fjárhæð
Svæði
2018-2020
ISK 1,000,000
Ísland

Í Nepal rétt eins og á Íslandi, ríkja fordómar gegn geðsjúkdómum, og skömmin yfir því að vera haldinn slíkum sjúkdómi hefur dregið allt of marga til dauða. Fólk leitar ekki aðstoðar, heldur einangrar sig í ótta við útskúfun samfélagsins.

Í heimildarmyndinni Þriðji póllinn er tekið á geðheilbrigðismálum með ljóðrænum hætti, en í myndinni er tónlistarmanninum Högna Egilssyni fylgt til Nepal, þar sem hann tekur þátt í tónleikum skipulögðum til vitundarvakningar um geðheilbrigðismál. Tónleikana skipulagði Anna Tara Edwards, hálfíslensk kona sem ólst upp í Nepal. Hún átti þar æsku sem á yfirborðinu virtist ævintýraleg, en undir niðri litaðist fjölskyldusagan af geðhvarfasýki móður hennar, – og síðar andlegum veikindum hennar sjálfrar.

Myndin fjallar um þetta óvenjulega tónleikaferðalag, en einnig ferðalag Högna og Önnu Töru með geðsjúkdóma sem lífsförunauta. Með óviðjafnanlega tónlist Högna Egilssonar í bakgrunni, ferðumst við með þeim í gegnum frumskóga, fjallvegi, klaustur, sveitir og borgir Nepals, þar sem þau ræða um geðræn vandamál sín á opinskáan hátt. Harmur og skömm er hluti af reynslu þeirra, en einnig von, bjartsýni og jákvæð upplifun af þeim úrræðum sem í dag eru til staðar. Í þessu óvenjulega ævintýri taka Högni Egilsson og Anna Tara Edwards höndum saman með heimamönnum í Nepal og ráðast gegn þeirri þöggun sem fylgt hefur geðsjúkdómum, og skora skömmina á hólm.

Þetta er ferðasaga, mynd um óvænta vináttu og opin umræða um hvað það þýðir að vera með geðsjúkdóm. Myndin er því ekki aðeins óvenjulegt og fallegt listaverk um einn af fremstu listamönnum þjóðarinnar, heldur einnig mikilvægt innlegg til þeirrar vitundarvakningar sem á sér stað um þessar mundir, um að auka umburðarlyndi gagnvart geðsjúkdómum.

Þriðji póllinn er geðveik heimildamynd með söngvum og fílum. Í senn ævintýraleg og alvarleg, fyndin, draumkennd og sár.

Aurora velgerðasjóður styrkti gerð myndarinnar.

Leikstjórn/handrit:        Andri Snær Magnason og Anní Ólafsdóttir

Framleiðsla:  Elsku Rut, Ground Control Productions, Ursus Parvus, Andri Snær Magnason, Halldóra Þorláksdóttir, Hlín Jóhannesdóttir og Sigurður Gísli Pálmason

Tónlist:         Högni Egilsson

Kvikmyndataka:  Anní Ólafsdóttir og Eiríkur Ingi Böðvarsson

Klipping:             Eva Lind Höskuldsdóttir, Anní Ólafsdóttir og Davíð Alexander Corno