Heimavistarskólinn í Magbenteh, sem er staðsettur í Bombali héraði Sierra Leone, var stofnsettur árið 2016 af svissneska þróunarsjóðnum Swiss-Sierra Leone Development Foundation (SSLDF).
Nemendur skólans eru börn úr fátækustu þorpum svæðisins, sem mörg hver urðu munaðarlaus í kjölfar ebólufaraldursins sem geysaði í landinu 2014-2016. Skólinn telur tæplega 200 nemendur og veitir börnum sem ekki áttu kost á skólagöngu mikilvægt tækifæri til náms, og er þannig um leið stuðningur við þeirra nánustu aðstandendur.
Eftir stofnun skólans kom fljótlega í ljós að gífurleg þörf var á að bjóða upp á skólamáltíðir fyrir börnin. Mörg þeirra mæta daglega til skóla án þess að hafa fengið að borða, sem setur sitt mark á skólastarfið þar sem slíkt dregur bæði úr námsgetu og einbeitingu.
Mörg barnanna þurfa daglega að sinna erfiðum heimilisstörfum bæði á undan og eftir skóla en fá aðeins að borða einu sinni á dag og glíma því við vannæringu. Vannæring er landlægur vandi meðal barna í Sierra Leone, en langvarandi næringarskortur var greindur hjá 30% barna yngri en 5 ára, í rannsókn sem gerð var árið 2014 af Matvælastofnun sameinuðu þjóðanna.
SSLDF mun leggja áherslu á næringarþátt máltíðanna og tryggja að þær innihaldi nægilegt magn vítamína og steinefna, fitu og prótíns til að fullnægja næringarþörf nemendanna og byggja upp líkamlegt og andlegt atgervi þeirra, sem mun án efa skila sér í bættri frammistöðu þeirra og vellíðan.
Aurora velgerðarsjóður styrkir heimavistarskólann í Magbenteh um upphæð sem dugir til að útvega öllum börnum skólans skólamáltíðir þrisvar sinnum í viku í hálft ár. Önnur samtök hafa nú þegar styrkt skólan um skólamáltíð tvisvar í viku, svo öll börnin fá mat fimm daga vikunnar, eða alla þá daga sem þau koma í skólann.