Útgáfa bókarinnar Listir og menning sem meðferð: íslensk söfn og Alzheimer

Ár
Fjárhæð
Svæði
2017
ISK 1.000.000
Ísland

Alzheimer er heilasjúkdómur sem veldur dauða taugafruma og rýrnun heilans. Sjúkdómurinn er algengastur heilabilunarsjúkdóma, og einkennin í flestum tilvikum minnisleysi, skapferlisbreytingar, samskiptaerfiðleikar og tap á rökhugsun.

Upplifun sem veitir gleði og ánægju situr eftir sem góð tilfinning um einhvern tíma. Að þessu leyti er enginn munur á þeim sem eru með Alzheimer sjúkdóm og öðrum. Tónlist hefur mest verið skoðuð í þessu samhengi, en áhrif hennar virðast m.a. vera að hún getur vakið minningar og góðar tilfinningar sem tengjast oft fyrri reynslu.

Í handbókinni Listir og menning sem meðferð: íslensk söfn og Alzheimer, er fjallað um þá aðferð að nota list og tilfinningar sem þær vekja, í því skyni að auka vellíðan alzheimersjúklinga. Handbókinni er beint til þeirra rúmlega hundrað safna sem prýða landið, en nýtist öllum menningarstofnunum og fjölskyldum við að auðga líf sjúklinganna.

Með því að nota þessa handbók, vinna söfn mikilvægt starf við að brjóta niður múra og auka skilning á ólíkum þörfum mismunandi þjóðfélagshópa.

Aurora velgerðarsjóður styrkir útgáfu bókarinnar um eina milljón króna, en hún kom út á vegum Háskólaútgáfunnar 20. september 2017, í tengslum við alþjóðlegan dag Alzheimer þann 21. september.

Málþing var haldið í Ráðhúsi Reykjavíkur og á Listasafni Íslands sem liður í kynningu útgáfunnar, þar sem höfundar bókarinnar komu fram. Meðal höfunda eru Jón Snædal, læknir og forstöðumaður Minnismóttöku Landakots, Carmen Antúnez Almagro, taugasérfærðingur og forstöðumaður Minnismóttöku Háskólasjúkrahússins Virgen de la Arrixaca, Francesca Rosenberg deildarstjóri í Nútímalistasafninu í New York (MoMA) og Guðrún Nordal forstöðumaður Árnastofnunar.