Sviðslistastyrkur

Ár
Fjárhæð
Svæði
2011
ISK 10.000.000
Ísland

Sviðslistir á Íslandi hafa verið í mikilli framþróun og hefur sköpunarkrafturinn vakið athygli út fyrir landsteinana. Aurora vildi efla enn frekar sviðslistir (leiklist, danslist og sönglist) á Íslandi með því að styrkja framúrskarandi og metnaðarfull verkefni.

Aurora fékk með sér í lið þau Viðar Eggertsson, leikstjóra, og Ingibjörgu Þórisdóttur, dramatúrg og leiklistargagnrýnanda, til að veita faglega ráðgjöf við val á verkefnum. Áhersla var lögð á að verkefnin væru listræn, áræðin og unnin af fagfólki. Sjóðnum bárust alls 67 umsóknir sem var langt umfram það sem búist var við og er ljóst að um mikla grósku er að ræða í sviðslistum á Íslandi.

Formleg úthlutun sviðslistastyrksins fór fram þann 25. maí. Verkefnin sem hlutu styrk voru:

  • Vesturport, nýtt leikrit byggt á þjóðsögunni um Axlar-Björn          4.000.000 kr.
  • Íslenski dansflokkurinn, uppfærsla á verkinu Minus 16                3.000.000 kr.
  • 16 elskendur, Sýning ársins.                                                        2.000.000 kr.
  • Brúðuleikhúsið 10 fingur, Litla skrímslið                                       1.000.000 kr.

Nánar um verkefnin:

VESTURPORT fékk styrk til að vinna að leiksýningu upp úr þjóðsögunni um Axlar-Björn. Vesturport hefur vakið athygli langt út fyrir landsteinana fyrir áræðni og listfengi í efnistökum á klassískum verkum. Skemmst er að minnast Evrópsku leiklistarverðlaunanna, þar sem þau hlutu eina helstu viðurkenningu sem sviðslistamönnum getur hlotnast.  Verkefnið er nýr áfangi í sögu þeirra en að þessu sinni tókust þau á við þjóðararfleifð og numu nýjar lendur í listsköpun sinni.Höfundur og leikstjóri verksins var Björn Hlynur Haraldsson, en um tónlistina sá Kjartan Sveinsson úr Sigur Rós. Axlar-Björn var frumsýndur 11. janúar 2012.

ÍSLENSKI DANSFLOKKURINN (ÍD) fékk styrk til að ráðast í það metnaðarfulla verkefni að fá hinn kunna danshöfund Ohad Naharin til að sviðsetja verk sitt Minus 16 fyrir dansflokkinn. Naharin er einn virtasti og eftirsóttasti danshöfundur heims og hafði ÍD lengi haft hug á að fá hann til samstarfs. Má gera ráð fyrir að samstarfið við svo eftirsóttan danshöfund hafi leitt dansflokkinn enn lengra fram á við.  ÍD er í fararbroddi í nútímalistdansi hér á landi og hefur jafnframt með áratugalöngu starfi sínu og miklum metnaði vakið athygli erlendis fyrir listfengi sitt og hæfni. Minus 16 var frumsýnt 11. febrúar 2012.

16 ELSKENDUR fékk styrk til að setja upp verkið Sýning ársins. 16 elskendur er hópur ungra og framsækinna leikhúslistamanna úr ýmsum greinum sviðslista en þau hafa vakið athygli fyrir rannsóknarvinnu sína á samtvinnun sviðslista og samfélags. Þetta var svo sannarlega nýstárleg sýning sem byggð var á skoðanakönnun meðal fólks um „sýninguna sem allir vilja sjá“ og „sýninguna sem enginn vill sjá“.  Með þessu vildu þau varpa ljósi á það hvað íslenskir áhorfendur vilja helst og síst sjá í leikhúsi. Sýningin vakti einnig upp spurningar um gildi og trúverðugleika skoðanakannana, eins helsta skoðanamótandi tækis samtímans.  Sýning ársins var frumsýnd 3. mars 2012.

LEIKHÚSIÐ 10 FINGUR fékk styrk til að vinna að brúðuleikhússýningunni Litla skrímslið eftir Helgu Arnalds. Brúðuleiklist er ung listgrein hér á landi en hefur hin síðari ár eflst til muna fyrir atorku og listfengi örfárra brúðuleikhúslistamanna. Þar í hópi er Helga Arnalds og leikhús hennar 10 fingur. Sýningunni var ætlað að virkja börn á leikskólaaldri til listsköpunar meðan á sýningu stóð og sá frjókornum sköpunar meðal ungra áhorfenda. Um leikstjórn sá Charlotte Bøving og um tónlistina sá Eivör Pálsdóttir.  Litla skrímslið var frumsýnt 3. mars 2012.