Rauði kross Íslands

Ár
Fjárhæð
Svæði
2009
ISK 20.000.000
Ísland

Álag jókst mikið á Hjálparsímann og Vin þegar holskefla efnahagskreppunnar reið yfir samfélagið á árunum 2008 og 2009. Samstarf var milli Vinnumálastofnunar og Rauða krossins um móttöku á fólki sem vildi halda sér virku í samfélaginu með því að gerast sjálfboðaliðar. Deildir Rauða krossins buðu upp á aðstoð, ókeypis fræðslu og námskeið, einkum varðandi sálrænan stuðning.

Aurora styrkti þrjú ólík verkefni sem þjónuðu mismunandi hópum:

  • Hjálparsíminn 1717 er gjaldfrjáls og opinn allan sólarhringinn fyrir þá sem leita aðstoðar vegna kvíða, þunglyndis, depurðar eða jafnvel sjálfsvígshugsana. Hringingar í 1717 voru á þriðja tug þúsunda á árinu 2008 en það var veruleg aukning frá fyrra ári. Álagið á Hjálparsímann var þannig 40% meira í okóber og nóvember 2008 en í sömu mánuðum árið 2007.
  • Aðgerðir Rauða krossins fyrir atvinnulausa og aðra sem áttu erfitt vegna efnahagskreppunnar. Deildir Rauða krossins buðu upp á sálrænan stuðning, ráðgjöf, fræðslu og ókeypis námskeið til að aðstoða fólk við að takast á við nýjar og breyttar aðstæður. Rauði krossinn studdist meðal annars við reynslu frá því í efnahagskreppunni í Finnlandi nokkrum árum áður. Þar, líkt og hér, stóðu einstaklingar og fjölskyldur skyndilega á afar alvarlegum tímamótum atvinnumissis og tilheyrandi erfiðleika sem bregðast þurfti við.
  • Vin. Áhrif efnahagskreppunnar á starfsemi Vinjar voru ekki eins skýr og varðandi Hjálparsímann. Um 27 gestir komu að jafnaði í athvarfið á degi hverjum árið 2008. Þeim fjölgaði á síðasta fjórðungi ársins 2008 og matargestum sömuleiðis.