ABC barnahjálp var stofnuð árið 1988 og starfar nú í sex löndum í Asíu og Afríku. Starfið snýst um að veita fátækum börnum varanlega hjálp í formi menntunar, framfærslu og heilsugæslu. ABC barnahjálp í Keníu var stofnuð í höfuðborginni Naíróbí árið 2006 og starfa þar nú 69 manns. Um 800 nemendur sækja skólana tvo sem ABC rekur í Keníu. Í skólanum í Naíróbí eru 445 nemendur, þar af 180 á heimavist, og í Loitokitok er 351 nemandi, þar af 76 á heimavist.
Á árinu 2013 styrkti Aurora velgerðasjóður starfið um 1,8 milljónir króna sem fóru í kaup á nauðsynjum fyrir heimavistina í Naíróbí.
Á árinu 2015 styrkti Aurora starfið um 3,4 milljónir króna til þess að byggja nýtt skólahús (viðbót við fyrri byggingar) í Loitokitok sem er á svæði Masai-fólksins en það býr við rætur hæsta fjalls Afríku, Kilimanjaro. Nýja byggingin var tekin í notkun í september 2015.
Frekari upplýsingar um verkefnið er að finna á heimasíðu ABC www.abc.is