(Icelandic only)

FRÁ FORMANNI STJÓRNAR

Árið 2015 var ár töluverða breytinga hjá Auroru velgerðasjóði. Stór skref voru tekin í átt að nýjum tímum hjá sjóðnum en það er aukin áhersla á verkefni í Sierra Leone, verkefni þar sem Aurora velgerðasjóður kemur beint að framkvæmd. Eignastaða sjóðsins er mjög góð þrátt fyrir að ávöxtun ársins hafi ekki verið í takt við ávöxtun undanfarinna ára, sökum slakrar stöðu á mörkuðum í Evrópu og styrkingu krónunnar.

Varlega var farið í úthlutanir á árinu þar sem verið er að færa áhersluna á verkefni undir stjórn Auroru velgerðasjóðs í Sierra Leone. Engu að síður voru rúmum 60 milljónum úthlutað til 8 verkefna.

Stærsti einstaki styrkurinn fór til dóttursjóðs Auroru Hönnunarsjóðs Auroru sem hlaut 25 milljónir króna eins og undanfarin ár. Þetta var sjöunda árið í röð sem Hönnunarsjóðurinn hlýtur 25 milljón króna framlag frá Auroru velgerðasjóði, en þetta var jafnframt síðasta úthlutun Auroru til Hönnunarsjóðsins. Styrkur til Kraums tónlistarsjóðs hins dóttursjóðsins var mun minni eða einungis 5 milljónir króna enda hefur sá sjóður dregið verulega úr starfsemi sinni.

Vinafélag Vinjar fékk þriðju og jafnframt lokaúthlutun sína vegna starfseminnar á Hverfisgötu, eftir að hafa sent inn skýrslu um það frábæra starf sem þar fer fram.

Aðrir styrkir fóru út fyrir landsteinana. Styrkti Aurora til að mynda ABC barnastarf í Kenýa til þess að byggja nýja skólabyggingu í Loitokitok, sem er á Masai Mara svæðinu.

Fyrirferðamesta verkefnið erlendis á árinu 2015 var án efa yfirtaka Auroru velgerðasjóðs, ásamt KIMI SARL, á rekstri fjögurra löndunar- og fiskvinnslutöðva í Sierra Leone. Skrifað var undir samninga þar að lútandi í upphafi árs og fengum við aðgengi að stöðvunum í júlí. Hófumst við þá handa við að yfirfara stöðvarnar og gera upp en þær hafa staðið ónotaðar frá árinu 2012 og voru í slæmu ásigkomulagi. Fyrsta stöðin sem hóf einhverja starfsemi var löndunarstöðin í Tombo, en farið var að selja ís/klaka til sjómanna og annarra í nær samfélaginu í september. Tafir voru á formlegri afhendingu stjórnvalda á fullu yfirráði yfir stöðvunum til Neptune þar til í desember. Hefur það valdið seinkun á því að full starfsemi hafi farið af stað. Stefnt er að full starfsemi hafi hafist í öllum stöðvunum fjórum um mitt ár 2016.

Einnig létum við hanna fyrir okkur fyrirhugað fæðingarheimili í Sierra Leone en það verkefni er ennþá á byrjunarstigi. Þá fékk annað örlánafyrirtækið sem við erum í samstarfi við seinni úthlutun sína á árinu.

Engar breytingar urðu á stjórn sjóðsins á árinu en aftur á móti urðu breytingar í rekstri félagsins. Stjórn sjóðsins hafði lagt aukna áherslu á þróunarmál og Regína Bjarnadóttir var ráðinn sem framkvæmdastjóri þróunarmála á árinu 2015 og hóf störf 1.júlí. Þegar Auður Einarsdóttir lét af störfum þann 1. Ágúst tók Regína einnig við sem framkvæmdastjóri sjóðsins.

Ég vil þakka Auði Einarsdóttur kærlega fyrir vel unnin störf á undanförnum árum. Einnig vil ég þakka núverandi framkvæmdastjóra, meðstjórnendum mínum í stjórn Auroru velgerðasjóðs ásamt stjórnum dóttursjóða kærlega fyrir gott samstarf á árinu 2015.

Ólafur Ólafsson, stjórnarformaður

 

STARFSEMIN Á ÁRINU 2015

Stjórnarfundir

Stjórn Auroru kom sex sinnum saman til fundar á árinu 2015 en aðalfundur var haldinn þann 5. maí.

Stjórn & starfsmenn

Á aðalfundi sjóðsins þann 5. maí var stjórn Auroru endurkjörin og er hún sem fyrr skipuð eftirfarandi aðilum:

 • Ólafur Ólafsson, annar stofnandi sjóðsins
 • Ingibjörg Kristjánsdóttir, landslagsarkitekt og annar stofnandi sjóðsins
 • Birta Ólafsdóttir, BA í frumkvöðlafræði og nýsköpun
 • Stefán Ingi Stefánsson, yfirmaður samfélagslegrar ábyrgðar og fjáraflanna Unicef í Rómönsku ameríkur og Karíbahafi

Formaður stjórnar er Ólafur Ólafsson

Aðsetur sjóðsins er í Vonarstræti 4b en þar er einnig aðsetur dóttursjóðanna.

Framkvæmdastjóri sér um allan daglegan rekstur en um faglega fjárstýringu sjóðsins sér Bruellan Wealth Management í Sviss en Róbert Aron Róbertsson starfsmaður stofnenda sjóðsins í Sviss veitir ýmissa faglega ráðgjöf varðandi fjárfestingar á Íslandi. Um launakeyrslur fyrir Auroru og dóttursjóði sér launadeild Samskipa og um færslu bókhalds og skil til endurskoðenda sér Festing hf. Aurora þakkar öllum þessum aðilum fyrir mikilvægt framlag þeirra til sjóðsins.

Stofnsjóður

Árið 2015 var ekki sérstaklega hagfellt á hlutabréfamörkuðum í Evrópu og hækkuðu bréf almennt lítið yfir árið. Á sama tíma styrktist íslenska krónan gagnvart helstu gjaldmiðlum, nema bandaríkjadal, sem hefur neikvæð áhrif á erlenda eign sjóðsins, mælda í íslenskum krónum. Aftur á móti var mikill vöxtur á íslenska hlutabréfamarkaðnum á árinu 2015 og hækkaði úrvalsvísitalan um hátt í 50% yfir árið sem hafði mjög jákvæðar afleiðingar fyrir íslenska hluta sjóðsins og bætti þónokkuð upp fyrir litla ávöxtun á erlenda eignasafni sjóðsins.

Eignir í árslok 2015 námu 1.419.682.207 kr. og lækkuðu á árinum um sem nemur 58.662.635 kr. Veittir voru styrkir á árinu fyrir 60.389.507 kr. (þar af námu beinir styrkir 39.399.577 kr. og annarsskonar stuðningur í formi lána og eigin fjárs 20.989.930 kr.), einnig var ákveðið að gjaldfæra á árinu 2015 styrki frá árinu 2014 sem veittir voru í formi lána og nam sú upphæð 37.980.000 kr. Þá nam kostnaður sjóðsins 29.606.783 kr. fyrir árið 2015. Að teknu tilliti til styrkja og kostnaðar nam ávöxtun ársins 4,7%, sem er töluvert undir meðal ávöxtun undanfarinna ára.

Heimasíða

Aurora velgerðasjóður heldur úti heimasíðunni www.aurorafund.is en þar er að finna samþykktir, starfsreglur og ýmsar fleiri upplýsingar um velgerðasjóðinn og dóttursjóð hans, Kraum tónlistarsjóð, Hönnunarsjóð Auroru og önnur styrktarverkefni, ný og gömul. Þar eru einnig upplýsingar um stjórnir og stjórnendur sjóðanna þriggja. Unnið er stöðugt að því að gera heimasíðuna betri og að þar megi nálgast allar upplýsingar sem lúta að starfsemis sjóðsins og þeim verkefnum sem hann hefur styrkt.

Aurora velgerðasjóður heldur einnig út facebook síðu Auroru, þar sem allar helstu fréttir af sjóðnum er settar inn jafnóðum og þær berast.

Úthlutanir á árinu 2015

Aurora velgerðasjóður úthlutaði alls 60,4 milljónum króna til átta verkefna á sviði mennta, atvinnuuppbyggingar, heilbrigðis, menningar og mannúðar hérlendis og í afríkuríkjunum Sierra Leone og Kenýa á árinu 2015. Sex þessara verkefna hlutu beina styrki en tvö þeirra hlutu aðstoð í formi lána eða sem framlag sem eigið fé. Fjögur þessara átta verkefna eru eigin verkefni sjóðsins en hin fjögur verkefnin eru mjög ólík en tengjast meginmarkmiðum sjóðsins.

Verkefnin sem hlutu beina styrki árið 2015:

 1. Hönnunarsjóður Auroru………………………………………………………….kr 25.000.000
 2. Kraumur, tónlistarsjóður Auroru……………………………………………..kr    5.000.000
 3. Neyðaraðstoð til Sierra Leone vegna Ebólu (eftirstöðvar)………….kr 3.364.954
 4. Rauði Kross Íslands v.Vinafélags Vinjar………………………………………kr   1.000.000
 5. ABC Barnahjálp í Kenýa ……………………………………………………………kr  3.400.000
 6. Fæðingarheimili í Sierra Leone ………………………………………………….kr 1.634.623

Verkefni sem hlutu annarsskonar aðstoð árið 2015:

 1. GGEM og ACTB, smálánafyrirtæki …………………………………………..kr 13.000.000
 2. Neptune, rekstraraðili fiskvinnslustöðvanna í Sierra Leone ……….kr   8.006.395

  

1.   Lýsing verkefna
1. 1 Eigin verkefni
1.1.1 Innlend verkefni

Stjórn Auroru hafði, árið 2012, óskað eftir því við stjórnir dóttursjóðanna að setja af stað vinnu við að leita allra leiða til að halda áfram starfsemi sjóðanna með aðkomu nýrra styrktaraðila. Eftir þónokkra umræðu og skoðun tók Stjórn Kraums þá ákvörðun að hætta almennri starfsemi frekar en að fá inn nýja styrktaraðila og var ákveðið að Kraumur myndi einungis halda út smærri verkefnum á árinu 2015. Stjórn Hönnunarsjóðsins hefur lagt mikla vinnu við að finna nýja styrktaraðila og fór mikill tími í þá starfsemi árið 2015 en án árangurs. Ákveðið hafði verið að Hönnunarsjóðurinn myndi halda áfram starfsemi sinni á árinu 2015 og fékk því fullan styrk, en jafnframt var ákveðið að þetta væri síðasta almenna starfsár sjóðsins.

Hönnunarsjóður Auroru                                                                                                        styrkur kr 25.000.000

Hönnunarsjóður Auroru er sjálfstætt starfandi dóttursjóður á vegum Auroru Velgerðasjóðs. Hönnunarsjóðurinn var stofnaður í ársbyrjun 2009 að frumkvæði Auroru og var honum veittar 75 milljónir króna til þriggja ára. Aurora veitti Hönnunarsjóðnum síðan framhaldsstyrk til þriggja ára og að því loknu til eins árs í viðbót og hefur sjóðurinn því starfað í sjö ár.

Stefna Hönnunarsjóðsins er að styrkja framúrskarandi hönnuði með heilsteypta viðskiptahugmynd og skýra framtíðarsýn. Á þessum sjö árum sem Hönnunarsjóðurinn hefur starfað hefur hann ráðstafað styrkjum til tæplega 70 verkefna og hönnuða auk þess að taka þátt í samstarfi um ýmis verkefni á sviði hönnunar.

Enginn bein úthlutun var hjá Hönnunarsjóðnum á árinu 2015 en áfram var stutt við verkefnið Hæg breytileg átt sem hófst á árinu 2014. Hæg breytileg átt er verkefni á sviði byggða- og íbúðaþróunar þar sem lögð verður áhersla á að fá fram hugmyndir sem varpa ljósi á vistvænni, samfélagsmeðvitaðri, ódýrari og framsæknari íbúðarkosti í íslensku þéttbýli í krafti hugmyndavettvangs, þar sem samvinna verður í fyrirrúmi. Mynduð verða þverfagleg teymi hönnuða, arkitekta, tæknimenntaðra einstaklinga, hugvísinda- og raunvísindafólks til að takast á við þetta mikilvæga verkefni. Samstarfaðilar Hönnunarsjóðs Auroru í þessu verkefni eru Reykjavíkurborg, Samtök iðnaðarins og Hönnunarmiðstöð.

Opnuð var sýning í Hafnarhúsinu á Hönnunarmars þann 13. Mars og var hún liður í því að veita sem flestum innsýn í tillögur hópanna og þá þekkingu sem að baki þeim liggur. Samhliða var gefin út bók þar sem kynna má sér verkefnið, tillögur hópanna, hugleiðingar ólíkra sérfræðinga sem komu að verkefninu sem eru hver um sig eins konar leiðarvísir inn í framtíðina og fleira.

Sýningunni og viðburðunum voru gerð góð skil í fjölmiðlum og m.a. var gerð fimm þátta útvarpssería um verkefnið hjá RUV.

Hönnunarsjóðurinn veitti einn beinan styrk á árinu 2015. Sá styrk hlaut Guja Dögg Hauksdóttir arkitekt fyrir útgáfu bókverks um Högnu Sigurðardóttur arkitekts.

Úthlutunarferlið var eins og áður unnið í náinni samvinnu stjórnar og framkvæmdastjóra. Framkvæmdastjóra og stjórn til ráðgjafar er sérstakt fagráð hönnuða og aðila úr atvinnulífinu og hefur komist á gott samstarf á milli sjóðsins og fagráðsins auk þess sem tveir aðilar innan fagráðsins hafa tekið að sér ráðgjöf fyrir sjóðinn.

Stjórn Hönnunarsjóðs Auroru skipar eftirtalda aðila:

 • Jóhannes Þórðarsson, arkitekt, formaður stjórnar.
 • Atli Hilmarsson, grafískur hönnuður, meðstjórnandi.
 • Hlín Helga Guðlaugsdóttir, vöruhönnuður, meðstjórnandi.

Í fagráði Hönnunarsjóðs Auroru sitja:

 • Eyþór Ívar Jónsson, framkvæmdastjóri Klaks og dósent við Kaupmannahafnar-háskóla.
 • Eyjólfur Pálsson, húsgagnahönnuður og kaupmaður í Epal.
 • Sigurður Þorsteinsson, iðnhönnuður og eigandi Design Group Italia.
 • Sigríður Sigþórsdóttir, arkitekt, Basalt arkitektar.
 • Guðmundur Oddur Magnússon, prófessor í grafískri hönnun í Listaháskóla Íslands.
 • Fiona Cribben, fatahönnuður

Framkvæmdastjóri Hönnunarsjóðs Auroru Guðrún Margrét Ólafsdóttir, sem tók við embættinu árið 2012, lét af störfum í lok árs 2015. Mun hún þó fylgja eftir lokaskrefum sjóðsins á árinu 2016.

Kraumur tónlistarsjóður Auroru                                                                                           styrkur kr 5.000.000

Kraumur tónlistarsjóður Auroru var stofnaður í ársbyrjun 2008 sem tilraunaverkefni til þriggja ára sem fékk síðan framhaldsstyrk til fjögurra ára í viðbót. Þrátt fyrir að framkvæmdastjóri hafi látið af störfum á árinu 2014 var ákveðið að halda lítilsháttar starfsemi Kraums áfram á árinu 2015, annars vegar með stórum tónleikum í tengslum við Hönnunarmars og hins vegar að halda áfram með Kraumslistann.

Starfsemi Kraums á árunum 2008-2014 hefur verið umfangsmikil og blómleg en sjóðurinn hefur átt fjölbreytt samstarf við ýmsa aðila innan tónlistargeirans. Á þessum árum hafa fjölmargir tónlistarmenn, hljómsveitir og tónlistartengd verkefni fengið úthlutað.

Kraumur hefur haft það meginhlutverk að efla íslenskt tónlistarlíf, fyrst og fremst með stuðningi við unga listamenn, auðvelda þeim að vinna að listsköpun sinni og koma verkum sínum á framfæri. Markmiðið hefur alltaf verið skýrt að styrkja stöðu ungra tónlistarmanna á Íslandi með beinum styrkjum, faglegri aðstoð og samstarfi af ýmsu tagi. Sjóðnum hefur líka unnið að því að miðla þekkingu á sínu sviði, meðal annars með námskeiðahaldi, ráðgjöf og smiðjum (workshops) og með samstarfi við ýmsa þá sem vinna að sömu markmiðum.

Það er því ljóst að nærvera sjóðsins hefur skipt miklu máli í íslensku tónlistarlífi, en engu að síður var tekin sú ákvörðun árið 2014 að draga verulega úr umsvifum sjóðsins.

Í bráðabirgðastjórn Kraums tónlistarsjóðs frá miðju ári 2015 sitja eftirtaldir aðilar:

 • Eldar Ástþórsson, verkefnisstjóri markaðsdeildar CCP, formaður
 • Ingibjörg Kristjánsdóttir, annars stofnandi Auroru velgerðasjóðs, meðstjórnandi
 • Birta Ólafsdóttir, BA í frumkvöðlafræði og nýsköpun, meðstjórnandi

Ekkert umsóknarferli fyrir listamenn eða hljómsveitir var auglýst á árinu og ekki varð framhald á verkefnunum Hljóðverssmiðjur, Innrásin stuðningur við tónleikahald innanlands eða ráðstefnu á Aldrei fór ég suður.

Kraumur stóð hins vegar fyrir stórum og veglegum viðburði í mars mánuði ásamt systursjóði sínum Hönnunarsjóði Auroru, stefnumóti tónlistar og hönnunar í Listasafni Reykjavíkur-Hafnarhúsi þar sem sem íslensk tónlist var í fyrsta sinn í fararbroddi á vettvangi HönnunarMars. Þar komu fram listamenn sem sjóðurinn hefur áður stutt til góðra verka og má segja að þar hafi verið á ferð nokkurskonar uppskeruhátíð hans.

Sjóðurinn stóð jafnframt fyrir Kraumsverðlaunum áttunda árið í röð, þar sem famúrskarandi plötur sex listamanna og hljómsveita voru valin, verðlaunuð og kynnt sérstaklega. Alls hafa nú um 44 listamenn og hljómsveitir hlotið verðlaunin.

1.1.2 Erlend verkefni

Neptune, löndunarstöðvar, Sierra Leone                                                                 lán og eigið fé kr. 8.006.395

Aurora velgerðasjóður hefur í samstarfi við KIMI SARL og stjórnvöld í Sierra Leone tekið við rekstri fjögurra löndunar- og fiskvinnslustöða. Samningar þess efnis voru undirritaðir í Freetown í Sierra Leone í janúar 2015 og gilda þeir til 10 ára.

Stöðvarnar fjórar voru byggðar árið 2012 í samstarfi á milli African Development Fund (ADF) og stjórnvalda í Síerra Leóne til að efla sjávarútveg í landinu. Þrátt fyrir góð fyrirheit hafa þær staðið ónotaðar síðan þá, einkum sökum skorts á þekkingu á slíkum rekstri í landinu. Með samningunum komast þær hins vegur í fulla notkun.

Samningarnir sem undirritaðir voru eru svokallaðir Public-private Partnership samningar (PPP) og gilda þeir til næstu tíu ára. Samningarnir eru í reynd samstarf einkaframtaks, velgerðarstarfs og stjórnvalda um þróunarstarf, fjárfestingu og nýsköpun í sjávarútvegi í Sierra Leone. Þetta eru fyrstu PPP samningarnir sem stjórnvöld í Sierra Leone gera. Gert er ráð fyrir að heimamenn sjálfir taki við rekstri löndunarstöðvanna að samningstíma loknum.

Á vettvangi stöðvanna verður lögð áhersla á að efla þekkingu fiskimanna á veiðiaðferðum, vinnslu á sjávarfangi og dreifingu þess á markað. Leitað verður leiða til að hagnýta fiskiauðlindir landsins á sem sjálfbærastan hátt og auka virði aflans um leið. Á sama tíma standa væntingar til þess að auka framboð á fiski fyrir íbúa Sierra Leone sem er ein fátækasta þjóð heims. Fiskur er í dag undirstaða prótín neyslu þjóðarinnar, en árleg veiði landsmanna í dag er um 100 tonn. Ráðgert er að um 400 manns muni starfa við stöðvarnar fjórar.

Aurora velgerðarsjóður telur um mjög mikilvægt verkefni sé að ræða og verður höfuðmarkmið þess að auka þekkingu landsmanna á sjávarútvegi og gera þá betur í stakk búna til að nýta auðlindar sínar á sem bestan og skynsamastan hátt. Öflugt og sjálfbært atvinnulíf er hverri þjóð mikilvægt og standa vonir Auroru til þess að verkefnið muni styrkja undirstöður hagkerfis Sierra Leone til framtíðar. Verkefnið er módelverkefni en væntingar eru um að það gæti orðið fyrirmynd annarra verkefna til eflingar atvinnulífs í Sierra Leone.

Aurora velgerðasjóður ásamt samstarfsaðilum sínum stofnaði fyrirtæki, sem skrásett er í Sierra Leone, um rekstur stöðvanna og hefur það hlotið nafnið Neptune. Aurora velgerðasjóður veitti Neptune stuðning á árinu 2015 í form eiginfjárs og lána. Framkvæmdastjóri Auroru velgerðasjóðs situr í stjórn Neptune og er stjórn Neptune mjög virk í daglegum rekstri stöðvanna. Einnig veitir stjórnarformaður Auroru stjórn og helstu yfirmönnum Neptune ráðgjöf.

Fæðingarheimili, Sierra Leone                                                                                             styrkur kr. 1.634.623

Aurora velgerðasjóður er að undirbúa verkefni sem snýst að því að byggja fæðingarheimili í Sierra Leone. Forsagan er sú að forsetafrú Sierra Leone fór þess á leit við stjórn Aurora velgerðasjóðs hvort Aurora væri tilbúin að aðstoða við að byggja fæðingarheimili í heimahéraði hennar Kono. En í því héraði hefur Aurora í samstarfi við UNICEF unnið að stórum menntaverkefnum undanfarin ár. Eftir að hafa skoðað málið frá ýmsum hliðum hefur stjórn Auroru ákveðið að ef Aurora kemur að byggingu fæðingarheimilis í Sierra Leone, þá verði það í Freetown eða á því svæði. Fæðingarheimilið mun verða byggt á eins vestrænan hátt hvað varðar gæði eins og hægt er miðað við aðstæður og verður rekstrarmódel heimilisins að vera tryggt til þess að Aurora sé tilbúin að ráðast í slíkt verkefni.

Eitt að því sem Aurora hefur gert nú þegar er að hanna fæðingarheimilið og var sú vinna gerð á árinu 2015. Næstu skref í þróun fæðingarheimilisins verða tekin á haustmánuðum 2016. 

1.2 Erlend verkefni – þróunaraðstoð

Neyðaraðstoð í Sierra Leone vegna Ebólu                                                                          styrkur kr. 3.364.954

Á árinu 2014 hafði stjórn Auroru samþykkti að legga allt að 20 milljónir króna til neyðaraðstoðar í Sierra Leone vegna Ebólu faraldursins.  Stærsti hluti verkefnisins átti sér stað á árinu 2014. Peningurinn fór m.a. til kaupa á sjúkragögnum auk aðstoðar við að koma gögnunum á áfangastað, dreifa þeim til viðkomandi sjúkrastofnana og fleira.   Aurora tók höndum saman með breska flugfélaginu Hangar 8, sem sendi flugvél til Sierra Leone , hlaðna ýmsum búnaði og lyfjum sem nauðsynleg eru til að meðhöndla sjúka.  Stjórnarformaður sjóðsins Ólafur Ólafsson fór sjálfur með flugvélinni til Sierra Leone og afhenti sjúkragögnin á árinu 2014. Einhverjar eftirstöðvar voru eftir að kostnaði í upphafi árs og var það greitt út á árinu 2015.

ABC barnahjálp í Kenýa                                                                                                            styrkur kr. 3.400.000

ABC barnahjálp er íslenskt hjálparstarf sem var stofnað árið 1988 og starfar nú í 6 löndum í Asíu og Afríku. Starfið snýst um að veita fátækum börnum varanlega hjálp í formi menntunar, framfærslu og heilsugæslu. ABC barnahjálp í Kenya var stofnað í Nairóbí árið 2006 og starfa þar í dag um 69 starfsmenn. Um 800 nemendur sækja skólana tvo sem ABC rekur í Kenía. Í skólanum í Nairobi eru 445 nemendur og 180 af þeim eru á heimavist og í Loitokitok eru 351 nemendur og 76 af þeim eru a heimavist.

Á árinu 2013 styrkt Aurora velgerðasjóður starfið um 1.8 milljónir króna sem fóru í kaup á nauðsynjum fyrir heimavistina í Nairobi.

Á árinu 2015 styrkti Aurora velgerðasjóður starfið um 3.4 milljónir króna til þess að byggja nýtt skólahús (viðbót við fyrri byggingar) í Loitokitok sem er á svæði Masai fólksins, sem býr við rætur hæsta fjalls Afríku, Kilimanjaro. Nýja byggingin var tekin í notkun í september 2015.

Frekari upplýsingar um verkefnið er að finna á heimasíðu ABC  www.abc.is

1.3. Innlend verkefni

Rauði kross Íslands v.Vinafélag Vinjar                                                                 styrkur 1 milljón á ári í þrjú ár 

Árið 2009 styrkti Aurora velgerðasjóður Rauða kross Íslands um 20 milljónir króna til þriggja verkefna og þar af var eitt verkefnið Vin, athvarf Rauða Kross Íslands fyrir fólk með geðraskanir.  Vinafélag Vinjar var stofnað árið 2011 til að tryggja framtíð Vinjar þar sem Rauði Krossinn huggðist loka vegna fjárskorts.  Árið 2012 var gerður samningur milli Reykjavíkurborgar, Velferðarráðuneytisins, Rauða Krossins og Vinafélags Vinjar til að tryggja starfsemi Vinjar til þriggja ára.   Vinafélagið skuldbatt sig til að leggja fram hluta af rekstrarfénu og Aurora velgerðasjóður endurnýjaði þannig stuðning sinn við Vin með því að leggja Vinafélaginu til  1.milljón króna á ári til þriggja ára. Eftir að stjórn Vinjar skilaði inn skýrslu um stórgott starf þeirra samþykkti stjórn Auroru greiðslu á þriðja og jafnframt síðasta hluta styrksins á árinu 2015.

1.4. Erlend verkefni – stuðningur í formi lána

GGEM, smálánafyrirtæki                                                                                                                lán kr. 13.000.000

Á árinu 2014 gekk Aurora velgerðasjóður frá lánasamningi við tvö smálánafyrirtæki (e. microfinance) í Freetown, Sierra Leone. Samningar þess efnis voru undirritaðir 17. Nóvember 2014 og eru til þriggja ára.

Markmið lánveitingarinnar er að styðja við bakið á smærri fyrirtækjum og einstaklinum og um leið auka veg hagþróunar í Sierra Leone. Samkvæmt samningunum fá fyrirtækin tvö hvort um sig $200.000 að láni á 9% vöxtum. Peningana munu þau endurlána til einstaklinga og lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Annað fyrirtækið A Call to Business fékk sinn hluta allan greiddan á árinu 2014 en hitt fyrirtækið fékk helming við undirskrift samnings og hinn helminginn eða sem samsvarar 13 milljónum króna í maí 2015.