(Icelandic only)

FRÁ FORMANNI STJÓRNAR

Vel hefur gengið að ávaxta fé Auroru á árinu 2013 og virðist sem óróleiki og óvissa síðustu ára á fjármálamörkuðum sé nú í rénum. Það er einnig ánægjulegt að sjá að þrátt fyrir þessa erfiðleika á fjármálamörkuðum almennt, svo að segja allan líftíma sjóðsins, þá hefur meðalávöxtun hans verið 12% á ári allt frá stofnun.

Varlega var farið í úthlutanir Auroru árið 2013 af ýmsum ástæðum, en alls var úthlutað 48 milljónum til fimm verkefna og þar af fóru 45 milljónir til dóttursjóðanna, Kraums og Hönnunarsjóðs Auroru. Ákveðin gerjun var að eiga sér stað varðandi verkefnaval, en stór verkefni sem hafa verið í gangi frá upphafi voru ýmist að klárast (menntaverkefni í Sierra Leone) eða í ákvörðunar ferli um áframhaldandi stuðning, en þar á ég við dóttursjóðina. Á sama tíma var verið að skoða ýmis stór verkefni í Sierra Leone og ákvað stjórn að lokum að gefa sér betra svigrúm til að leita að réttum verkefnum. Niðurstaðan var því að ekkert stórt þróunarverkefni var styrkt á árinu.

Hápunktur ársins 2013 var óumdeilt ferð stjórnar og framkvæmdastjóra til Sierra Leone í lok maí. Ferðin var farin til að taka út stærsta verkefni sjóðsins til þessa sem lauk 2012, en Aurora hefur frá stofnun sjóðsins 2007 unnið með UNICEF að því að byggja upp barnvænt menntakerfi í Kono, einu fátækasta héraði landsins.

Samstarfi Auroru og UNICEF í þessu verkefni er nú lokið. Þó að menntun barna haldi áfram að vera áskorun hjálparstofnana og stjórnenda í landinu, þá hefur verkefnið í Kono skilað áberandi árangri og mikilvæg reynsla orðið til hjá þeim sem að verkefninu standa. Vegna áherslu stjórnar Auroru að einbeita sér að einu héraði, var hægt að sjá marktækan tölulegan mun á milli héraða á þátttöku barna í skólakerfinu og fjölda menntaðra kennara. Mikilvæg reynsla hefur einnig orðið til hjá Auroru sem mun nýtast starfsfólki og stjórn í áframhaldandi starfi í þessum heimshluta. Erum við mjög þakklát fyrir það.

Aurora er þó ekki að segja skilið við UNICEF. Við höfum mikla trú á þeim samtökum og höfum á þessum árum kynnst ágætlega starfsfólki samtakanna á Íslandi og í Sierra Leone. Það sem þessi alþjóðlegi hópur á fyrst og fremst sameiginlegt er einbeittur vilji til að hjálpa börnum sem lifa við ömurleg lífsskilyrði. Við höfum því fullan hug á að vinna áfram með UNICEF að verkefnum er tengjast börnum og möguleikum þeirra til betra lífs.

En ferðin til Sierra Leone var ekki síður farin til að styrkja tengsl okkar við aðila sem tengjast menningar-, atvinnu- og viðskipalífi og þróa áfram hugmyndir að nýjum verkefnum í tengslum við smálánastarfsemi og fleira. Úr varð uppspretta hugmynda sem áfram verður unnið úr, en einnig mikilvæg tengsl við aðila úr atvinnu- og fjármálageiranum sem og embættis- og stjórngeira landsins. Öll þessi tengsl eru mikilvæg ef Aurora hyggst halda áfram að styðja við uppbyggingu í Sierra Leone.

Að lokum þá er breytinga að vænta á stjórn sjóðsins. Sigurður Guðmundsson hefur verið með okkur í stjórn Auroru frá upphafi, en hefur nú ákveðið að gefa ekki kost á sér áfram. Vil ég nota tækifærið hér og þakka honum fyrir ómetanlegt framlag til starfsins og ekki síður einstaklega góð og ánægjuleg samskipti. Ég óska honum heilla í öllum sínum verkefnum.

Auður Einarsdóttir hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér lengur í stjórn, en hún er að flytja af landi brott í haust. Ég vil einnig þakka henni fyrir hennar góða framlag í stjórn Auroru, en við munum þó áfram njóta hennar starfskrafta þar sem hún gegnir áfram starfi framkvæmdastjóra sjóðsins.

Að lokum þá hefur undirrituð ákveðið að gefa ekki kost á sér áfram sem stjórnarformaður Auroru. Ég hef nú gengt því hlutverki frá stofnun sjóðsins og hefur það veitt mér ómælda ánægju að eiga þess kost að vera í forsvari fyrir starfsemi sem lýtur að því að styðja við svo margþætt málefni sem Aurora hefur komið að. Ég mun hins vegar áfram gefa kost á mér í stjórn sjóðsins og vinna að heilum hug að þeim verkefnum sem stjórnin velur sér hverju sinni.

Ég vil því á þessum tímamótum þakka meðstjórnendum mínum í stjórn Auroru og framkvæmdastjóra, ásamt starfsmönnum dóttursjóðanna og stjórnum þeirra afskaplega ánægjuleg samskipti og samvinnu í gegnum árin.

Ingibjörg Kristjánsdóttir

 

STARFSEMIN Á ÁRINU 2013

Stjórnarfundir

Stjórn Auroru kom tvisvar sinnum saman til fundar á árinu 2013 en aðalfundur var haldinn þann 3. Júní 2013. Nokkur mál voru afgreidd af stjórn í gegnum tölvupósta og bókuð í næstu fundargerð.

Stjórn & starfsmenn

Á aðalfundi sjóðsins þann 3.júní var stjórn Auroru endurkjörin og er hún sem fyrr skipuð eftirfarandi aðilum:

 • Ingibjörg Kristjánsdóttir, landslagsarkitekt og annar stofnandi sjóðsins
 • Ólafur Ólafsson, stjórnarformaður Samskipa og annar stofnandi sjóðsins
 • Sigurður Guðmundsson, forseti heilbrigðisvísindasviðs HÍ
 • Auður Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Auroru velgerðasjóðs 
Formaður stjórnar er Ingibjörg Kristjánsdóttir.

Aðsetur sjóðsins er í Vonarstræti 4b en þar er einnig aðsetur dóttursjóðanna.

Framkvæmdastjóri sér um allan daglegan rekstur en um faglega fjárstýringu sjóðsins sér Bruellan Wealth Management í Sviss en Róbert Aron Róbertsson starfsmaður stofnenda sjóðsins í Sviss veitir ýmissa faglega ráðgjöf varðandi fjárfestingar á Íslandi. Um launakeyrslur fyrir Auroru og dóttursjóði sér launadeild Samskipa og um færslu bókhalds og skil til endurskoðenda sér Festing hf. Aurora þakkar öllum þessum aðilum fyrir framlag þeirra til sjóðsins.

Stofnsjóður

Árið 2013 var Auroru hagfellt á verðbréfamörkuðum. Bæði erlendir og innlendir verðbréfamarkaðir hækkuðu nokkuð í verði. Gengi íslensku krónunnar styrkist talsvert sem hafði neikvæð áhrif á erlenda eign sjóðsins, mælda í íslenskum krónum.

Eignir í árslok 2013 námu kr. 1.426.774.825 og jukust á árinu sem nemur kr. 34.689.156. Veittir voru styrkir á árinu fyrir kr. 48.300.000 og nam kostnaður sjóðsins kr. 9.321.798. Að teknu tilliti til styrkja og kostnaðar nam ávöxtun ársins 6,8%.

Stofnfé sjóðsins hefur aukist talsvert frá stofnun og að teknu tilliti til styrkja sem numið hafa kr. 582.204.528 frá upphafi er meðalávöxtun sjóðsins um 12% á ári frá stofnun. Meðalávöxtun sjóðsins í erlendri mynt er 1,5% á ári frá stofnun.

Heimasíða

Aurora Velgerðasjóður heldur úti heimasíðunni www.aurorafund.is en þar er að finna samþykktir, starfsreglur og ýmsar fleiri upplýsingar um velgerðasjóðinn og dóttursjóði hans, Kraum tónlistarsjóð Auroru, Hönnunarsjóð Auroru og önnur styrktarverkefni, ný og gömul. Þar eru einnig upplýsingar um stjórnir og stjórnendur sjóðanna þriggja. Vinna var sett í að uppfæra og lagfæra heimasíðuna á árinu og hefur hún tekið þó nokkrum breytingum. Áfram verður unnið að lagfæringum og enska síðan uppfærð að sama skapi.

Ferð stjórnar til Sierra Leone

Í apríl fór meirihluti stjórnar Auroru velgerðasjóðs ásamt fulltrúum Unicef á Íslandi í ferð til Sierra Leone. Markmið ferðarinnar var að skoða afrakstur menntaverkefnisins sem unnið hefur verið að undanfarin ár í samvinnu við Unicef á Íslandi og í Sierra Leone ásamt yfirvöldum þar í landi. Verkefninu lauk formlega á síðasta ári en það gekk út áað byggja upp barnvænt menntakerfi og skólahúsnæði einkum með þarfir stúlkubarna í huga.

Ferðin hófst í Freetown á fundi með félagsmálaráðherra og fulltrúum Unicef þar sem farið var vítt og breitt yfir stöðu barna í landinu. Hópurinn fór síðan til Kono héraðs þar sem nokkrir skólar voru heimsóttir og fundir haldnir með ýmsum aðilum sem komu að verkefninu.

Í fyrsta skólanum í Niala Nimikoro var kynnt fyrir okkur barnaþing þar sem börnin eru í mismunandi embættum og bera þannig ábyrgð á mismunandi þáttum í skólanum. Með þessu fyrirkomulagi hafa börnin skýra rödd í því sem varðar skólann og geta beitt sér fyrir umbótum. Næsta heimsókn var til Penduma en þar ræddum við við mæðraklúbb sem hafði gripið inní ofbeldi á ungri stúlku. Gott dæmi um hvernig mæðraklúbbarnir eru að virkja sem valdeflandi tæki fyrir konurnar. Í Koidu áttum við fund með yfirmanni menntamála í Kono og umsjónarmönnum skólanna og var farið yfir þær áskoranir sem þau eru að fást við. Í Old Meima hittum við mæðraklúbb sem hefur sett upp kornakur til að fjármagna skólann sinn. Í afskekkta þorpinu Masundo heimsóttum við skóla sem þorpsbúar höfðu reist sjálfir. Mæðraklúbburinn þar var mjög frumstæður að því leiti að aðeins ein kona kunni að lesa. Ferðinni var síðan heitið til Kavima þar sem við hittum samtök sem kalla sig Restless development en þau starfrækja jafningjafræðslu þar sem lögð er áhersla á mikilvægi þess að fara í skóla, koma í veg fyrir þunganir unglingsstúlkna, barnaþrælkun ofl. Dagurinn endaði síðan í Tembedu þar sem við hittum mæðraklúbb sem starfrækti einskonar smálánastarfsemi til að fjármagna skólann sinn. Þar hafði mæðraklúbburinn líka bjargað ungri stúlku frá því að giftast og hætta í skóla. Næsta dag var haldið aftur til Freetown þar sem fundað var með fulltrúum Unicef ásamt því að fulltrúar Auroru áttu fundi með ýmsum öðrum aðilum til að skoða möguleika á nýjum verkefnum á þessu slóðum.

Úthlutanir á árinu 2013

Aurora Velgerðasjóður úthlutaði alls 48.3 milljón króna til fimm verkefna á sviði mennta, menningar og mannúðar hérlendis og í Afríkuríkinu Kenýa á árinu 2013. Tvö af þessum verkefnum eru eigin verkefni sjóðsins en hin þrjú verkefnin eru mjög ólík en tengjast meginmarkmiðum sjóðsins.

Verkefnin sem hlutu styrki 2013:

 1. Hönnunarsjóður Auroru………………………………………………………….kr 25.000.000
 2. Kraumur, tónlistarsjóður Auroru……………………………………………..kr 20.000.000
 3. ABC hjálparstarf í Kenya………………………………………………………….kr 1.800.000
 4. Rauði Kross Íslands v.Vinafélags Vinjar…………………………………….kr 1.000.000
 5. Töfraflautan e.Mozart fyrir börn……………………………………………..kr 500.000

 

 1. Lýsing verkefna
1.1. Eigin verkefni

Stjórn Auroru óskaði eftir því þegar árið 2012 við stjórnir dóttursjóðanna að setja af stað vinnu við að leita allra leiða til að halda áfram starfsemi sjóðanna með aðkomu nýrra styrktaraðila. Stjórn Auroru lýsti sig ennfremur reiðubúna til að aðstoða við þá vinnu. Kraumur sem lauk sjötta starfsári sínu á árinu 2013 án þess að ná árangri við endurfjármögnun, fékk að lokum úthlutað einu ári til viðbótar. Tilgangurinn var að gefa stjórn Kraums enn meira svigrúm til að finna leiðir til framhaldslífs ýmist án aðkomu Auroru eða með breyttum áherslum í starfseminni. Stjórn Hönnunarsjóðsins hefur þegar lagt mikla og vandaða vinnu við að leita að nýjum styrktaraðilum og niðurstöður þeirrar vinnu munu koma í ljós á næstu misserum, en sjóðurinn hefur enn svigrúm út árið 2014 til að klára þá vinnu.

Hönnunarsjóður Auroru                                                                                                          styrkur kr 25.000.000

Hönnunarsjóður Auroru er sjálfstætt starfandi dóttursjóður á vegum Auroru Velgerðasjóðs. Hönnunarsjóðurinn var stofnaður í ársbyrjun 2009 að frumkvæði Auroru og var honum veittar 75 milljónir króna til þriggja ára. Aurora veitti Hönnunarsjóðnum síðan framhaldsstyrk til þriggja ára.

Stefna Hönnunarsjóðsins er að styrkja framúrskarandi hönnuði með heilsteypta viðskiptahugmynd og skýra framtíðarsýn.

Á þessum fimm árum sem Hönnunarsjóðurinn hefur starfað hefur hann ráðstafað styrkjum til tæplega 60 verkefna og hönnuða auk þess að taka þátt í samstarfi um ýmis verkefni á sviði hönnunar.

Alls var úthlutað 15.00.000 króna til ýmissa hönnuða og verkefna á árinu 2013 í tveim úthlutunum í maí og nóvember. Sjóðnum bárust metfjöldi umsókna af öllum sviðum hönnunar en samhliða auknum fjölda umsókna merkir sjóðurinn mikla grósku og framþróun í verkefnum hönnuða á Íslandi. Veittir voru nokkrir framhaldsstyrkir sem er í takt við þá stefnu sjóðsins að fylgja eftir völdum verkefnum þannig að sá árangur megi fremur nást sem viðkomandi hönnuður stefnir að. Í seinni úthlutun sjóðsins var lögð sérstök áhersla á arkitektur með styrk til verkefnisins Hæg breytileg átt sem er eigin verkefni sjóðsins og var kynnt á Hönnunarmars með viðburð í Hannesarholti.

Hæg breytileg átt er verkefni á sviði byggða- og íbúðaþróunar þar sem lögð verður áhersla á að fá fram hugmyndir sem varpa ljósi á vistvænni, samfélagsmeðvitaðri, ódýrari og framsæknari íbúðarkosti í íslensku þéttbýli í krafti hugmyndavettvangs, þar sem samvinna verður í fyrirrúmi. Mynduð verða þverfagleg teymi hönnuða, arkitekta, tæknimenntaðra einstaklinga, hugvísinda- og raunvísindafólks til að takast á við þetta mikilvæga verkefni. Samstarfaðilar Hönnunarsjóðs Auroru í þessu verkefni eru Reykjavíkurborg, Samtök iðnaðarins og Hönnunarmiðstöð.

Úthlutunarferlið var eins og áður unnið í náinni samvinnu stjórnar og framkvæmdastjóra. Framkvæmdastjóra og stjórn til ráðgjafar er sérstakt fagráð hönnuða og aðila úr atvinnulífinu og hefur komist á gott samstarf á milli sjóðsins og fagráðsins auk þess sem tveir aðilar innan fagráðsins hafa tekið að sér ráðgjöf fyrir sjóðinn.

Þann 1.nóvember kom Atli Hilmarsson inní stjórn Hönnunarsjóðsins í staðinn fyrir Höllu Helgadóttur sem setið hefur í stjórn sjóðsins frá stofnun. Þær breytingar urðu á fagráðinu að Steinunn Sigurðardóttir fatahönnuður hætti en í hennar stað kemur Fiona Cribben fatahönnuður.

Stjórn Hönnunarsjóðs Auroru skipar eftirtalda aðila:

 • Jóhannes Þórðarsson, arkitekt, formaður stjórnar.
 • Atli Hilmarsson, grafískur hönnuður, meðstjórnandi.
 • Hlín Helga Guðlaugsdóttir, vöruhönnuður, meðstjórnandi.

Í fagráði Hönnunarsjóðs Auroru sitja:

 • Eyþór Ívar Jónsson, framkvæmdastjóri Klaks og dósent við Kaupmannahafnar- háskóla.
 • Eyjólfur Pálsson, húsgagnahönnuður og kaupmaður í Epal.
 • Sigurður Þorsteinsson, iðnhönnuður og eigandi Design Group Italia.
 • Sigríður Sigþórsdóttir, arkitekt, Basalt arkitektar.
 • Guðmundur Oddur Magnússon, prófessor í grafískri hönnun í Listaháskóla Íslands.
 • Fiona Cribben, fatahönnuður

 

Kraumur tónlistarsjóður Auroru                                                                                         styrkur kr 20.000.000

Kraumur tónlistarsjóður Auroru var stofnaður í ársbyrjun 2008 sem tilraunaverkefni til þriggja ára sem fékk síðan framhaldsstyrk til þriggja ára í viðbót og er nú á sínu sjötta starfsári. Stjórn Auroru velgerðasjóðs veitti Kraum styrk til eins árs í viðbót með þeim formerkjum að sjóðurinn reyndi að finna aðra styrktaraðila. 
Starfsemi Kraums hefur verið umfangsmikil og blómleg en sjóðurinn hefur átt fjölbreytt samstarf við ýmsa aðila innan tónlistargeirans. Á þessum árum hafa fjölmargir tónlistarmenn, hljómsveitir og tónlistartengd verkefni fengið úthlutað. 
Kraumur hefur það meginhlutverk að efla íslenskt tónlistarlíf, fyrst og fremst með stuðningi við unga listamenn, auðvelda þeim að vinna að listsköpun sinni og koma verkum sínum á framfæri. Markmiðið er að styrkja stöðu ungra tónlistarmanna á Íslandi með beinum styrkjum, faglegri aðstoð og samstarfi af ýmsu tagi. Sjóðnum er
sömuleiðis ætlað að ná markmiðum sínum með því að miðla þekkingu á sínu sviði, meðal annars með námskeiðahaldi, ráðgjöf og smiðjum (workshops) og með samstarfi við ýmsa þá sem vinna að sömu markmiðum.

Það er því ljóst að nærvera sjóðsins skiptir miklu máli í íslensku tónlistarlífi.

Kraumur var með eina formlega úthlutun í ár líkt og í fyrra sem fór fram í mars og var þá 10,4 milljónum úthlutað til 16 verkefna þar af fóru 5 milljónir í Útrás ( stuðningur og samstarf við listamenn á leið í tónleikaferðir erlendis), 3,4 milljónir fóru í Innrás ( stuðningur og samstarf við listamenn og tónlistarhátíðir við tónleika innanlands), 2,3 milljónum var varið í önnur verkefni sjóðsins en þar ber hæst Kraumslistinn sem er nú orðinn fastur liður í tónlistarlífi Íslendinga. Kraumur gerði tveggja ára samning við tónlistarhátíðina Sónar Reykjavík þa alls voru veittir styrkir uppá 11.4 milljónir.

Framkvæmdastjóri Kraums er Jóhann Ágúst Jóhannsson.

Sú breyting varð á fagráði Kraums að Árni Heimir Ingólfsson fór út en nýir aðili í fagráðinu er Guðni Tómasson.

Stjórn Kraums tónlistarsjóðs á árinu 2013 skipuðu eftirtaldir aðilar:

 • María Huld Markan, tónlistarmaður og framkvæmdarstjóri, formaður
 • Ásmundur Jónsson, framkvæmdarstjóri, meðstjórnandi.
 • Eldar Ástþórsson, verkefnisstjóri markaðsdeildar CCP, meðstjórnandi 
Í fagráði Kraums tónlistarsjóðs sitja:
 • Árni Matthíasson, blaðamaður á Morgunblaðinu
 • Björk Guðmundsdóttir , tónlistarmaður
 • Elísabet Indra Ragnarsdóttir, dagskrárgerðamaður hjá Ríkisútvarpinu
 • Guðni Tómasson, stjórnarformaður Sinfóníuhljómsveitar Íslands
 • Kjartan Sveinsson, hljómborðsleikari Sigur Rósar
 • Sigryggur Baldursson, framkvæmdastjóri ÚTÓN
 • Örn Elías Guðmundsson (Mugison), tónlistarmaður

 

1.2 Erlend verkefni – þróunaraðstoð

ABC hjálparstarf í Kenya                                                                                                         styrkur kr 1.800.000

ABC barnahjálp er íslenskt hjálparstarf sem var stofnað árið 1988 og starfar nú í 8 löndum í Asíu og Afríku. Starfið snýst um að veita fátækum börnum varanlega hjálp í formi menntunar, framfærslu og heilsugæslu. ABC barnahjálp í Kenya var stofnað í Nairóbí árið 2006 og starfa í dag um 69 starfsmenn þar en Þórunn Lusiru og Samuel Lusiru Gona eru forstöðumenn starfsins. Um 400 nemendur sækja skólann sem ABC rekur en um 200 börn búa á heimavistinni hjá þeim. Aurora velgerðasjóður mun styrkja starfið um 1.8 milljónir króna sem fara í kaup á nauðsynjum fyrir heimavistina.

Frekari upplýsingar um verkefnið er að finna á heimasíðu ABC www.abc.is

1.3. Innlend verkefni

Rauði kross Íslands v.Vinafélag Vinjar                                                                styrkur 1 milljón á ári í þrjú ár

Árið 2009 styrkti Aurora velgerðasjóður Rauða kross Íslands um 20 milljónir króna til þriggja verkefna og þar af eitt verkefnið Vin, athvarf Rauða Kross Íslands fyrir fólk með geðraskanir. Vinafélag Vinjar var stofnað árið 2011 til að tryggja framtíð Vinjar þar sem Rauði Krossinn huggðist loka vegna fjárskorts. Árið 2012 var gerður samningur milli Reykjavíkurborgar, Velferðarráðuneytisins, Rauða Krossins og Vinafélags Vinjar til að tryggja starfsemi Vinjar til þriggja ára, Vinafélagið skuldbatt sig til að leggja fram hluta af rekstrarfénu og mun Aurora velgerðasjóður þannig endurnýja stuðning sinn við Vin með því að leggja Vinafélaginu til 1.milljón króna á ári til þriggja ára.

Töfraflautan e.Mozart fyrir börn                                                                                                 styrkur 500.000

Útgáfa barnabókarinnar um Töfraflautuna e.Mozart með hljóðdiski verður fyrsta barnaóperan sem gefin verður út á íslensku í hljóði ásamt myndskreyttri barnabók. Þessi fræga ævintýraópera höfðar ákaflega vel til barna og hefur því mikið verið notuð erlendis til að kynna óperur fyrir börnum. Á Íslandi hefur fræðsla barna um óperur því miður verið mjög takmörkuð. Hugmyndin er að nýta útgáfuna við tónmenntakennslu sem og setja hana upp í samstarfi við Töfrahurðina í Salnum og mögulega í Menningarhúsinu Hofi í framhaldinu. Að útgáfunni standa Edda Austmann, Pamela De Sensi og Halla Þórlau Óskarsdóttir. Aurora velgerðasjóður styrkir útgáfu Töfraflautunnar e.Mozart fyrir börn um 500 þúsund.