(Icelandic only)

FRÁ FORMANNI STJÓRNAR

Velgerðasjóður Auroru úthlutaði sem nemur 101 milljón íslenskra króna á fyrri hluta ársins 2011, sem er svipuð upphæð og síðastliðið ár. Sem fyrr runnu ákveðnar upphæðir til eigin verkefna sjóðsins, en Kraumur tónlistarsjóður og Hönnunarsjóður Auroru fengu 55 milljónir samanlagt og langtímaverkefni Auroru í Síerra Leóne fékk úthlutað 40 milljónum til menntunar þarlendra barna og þá sérstaklega ungra stúlkna. Úthlutanir til menningarmála á Íslandi á árinu voru tvær en sjóðurinn gerði áhugaverða tilraun með úthlutun 10 milljóna króna til sviðslista og fékk til liðs við sig ráðgjafa úr fagheimi sviðslistanna sem leystu af hendi mjög gott starf í samvinnu við framkvæmdastjóra sjóðsins við forval mikils fjölda metnaðarfullra umsókna. Fjögur sviðslistaverkefni voru að lokum valin af stjórn og stærsti styrkurinn, fjórar milljónir króna, fór til Vesturports til að setja upp nýtt leikrit um Axlar-Björn. Þetta verkefni tókst mjög vel og í framhaldinu hefur stjórn Auroru skoðað möguleikann á því að styðja á svipaðan hátt við myndlist. Það verkefni krefst hins vegar mikils undirbúnings og er ekki búist við að það verði að möguleika fyrr en á næsta ári. Ekki má gleyma styrk veittum til mannúðarmála á Íslandi, en þar runnu þrjár milljónir króna til Rústabjörgunarsveitarinnar Ársæls. Það er á engan hallað, þó sagt sé frá því að Velgerðasjóðurinn hefur sjaldan orðið var við eins mikið þakklæti og vegna stuðningsins við rústabjörgunarsveitina. Það þarf ekki að taka það fram hversu hvetjandi það er fyrir stjórn og framkvæmdastjóra sjóðsins að finna fyrir því að starfið sé vel metið.

Ég tel að Velgerðasjóður Auroru og stjórn hans geti verið stolt af styrkjum ársins, en flest þessi verkefni (sem eru kynnt hér á eftir) hafa náð glæsilegum árangri í framhaldi af styrkveitingunum.

Frá upphafi hefur starf Auroru velgerðasjóðs verið í sífelldri endurskoðun og þróun. Í framhaldi af þessari glæsilegu úthlutun, var ákveðið, í samræmi við úthlutunarstefnu sjóðsins, að aðlaga næstu úthlutanir sjóðsins að ástandinu á fjármálamörkuðum. Miklar sviptingar á mörkuðum gera það að verkum að ávöxtun sjóðsins er minni en áður, en samkvæmt markmiðum Auroru þá skal sjóðurinn úthluta sem nemur ávöxtun sjóðsins hverju sinni. Það var því ákveðið að einbeita sér að langtímaverkefnum sjóðsins sem eru dóttursjóðirnir tveir; Kraumur tónlistarsjóður og Hönnunarsjóður Auroru auk menntaverkefnisins í Síerra Leóne, sem Aurora stendur að í samvinnu við UNICEF í báðum löndunum og ríkisstjórn Síerra Leóne.

Það skal tekið fram að þrátt fyrir hrun á fjármálamörkuðum á árinu 2008 þá stóð sjóðurinn styrkur í fæturna eftir sem áður.

Að lokum er vert að minnast þess að þau gleðilegu tíðindi voru færð stjórn Hönnunarsjóðs Auroru síðastliðið haust að stjórn Velgerðasjóðsins hafi tekið þá ákvörðun að framlengja líf Hönnunarsjóðsins um önnur þrjú ár. Þessi niðurstaða var ekki síst grunduð á jákvæðum og hvetjandi niðurstöðum árangursmatsins sem var unnið árið áður, en kynnt formlega á fyrri hluta árs 2011. Niðurstöður árangursmatsins voru ánægjuleg staðfesting á því að starfið og umgjörð sjóðanna og þar af leiðandi einnig móðursjóðsins, sé að skila sér út til samfélagsins og að við séum því á réttri braut.

Ég þakka samstarfsfólki mínu, stjórnum og fagráðum dóttursjóðanna, auk viðtakendum styrkja fyrir frábært samstarf á árinu 2011.

Ingibjörg Kristjánsdóttir, stjórnarformaður

 

STARFSEMIN Á ÁRINU 2011

 1. Stjórnarfundir


Stjórn Auroru kom sjö sinnum saman til fundar á árinu 2011 en aðalfundur var haldinn þann 29. júní 2011.

 1. Stjórn og starfsmenn


Á aðalfundi sjóðsins þann 29. júní var stjórn Auroru endurkjörin og er hún skipuð eftirfarandi aðilum:

 • Ingibjörg Kristjánsdóttir, landslagsarkitekt og annar stofnandi sjóðsins
 • Ólafur Ólafsson, stjórnarformaður Samskipa og annar stofnandi sjóðsins
 • Sigurður Guðmundsson, forseti heilbrigðisvísindasviðs HÍ
 • Auður Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Auroru velgerðasjóðs

Formaður stjórnar er Ingibjörg Kristjánsdóttir. 
Þær breytingar urðu á árinu að starfshlutfall framkvæmdastjóra var aukið úr 30% í 50%. Aðsetur sjóðsins er í Vonarstræti 4b þar sem dóttursjóðirnir eru til húsa. 
Framkvæmdastjóri sér um allan daglegan rekstur en um faglega fjárstýringu sjóðsins sér Bruellan Wealth Management í Sviss en Róbert Aron Róbertsson starfsmaður stofnenda sjóðsins í Sviss veitir ýmsa faglega ráðgjöf varðandi fjárfestingar á Íslandi. Um launakeyrslur fyrir Auroru og dóttursjóði sér launadeild Samskipa og um færslu bókhalds og skil til endurskoðenda sér Festing hf. Aurora þakkar öllum þessum aðilum fyrir framlag þeirra til sjóðsins.

 1. Stofnsjóður

Staða Auroru er áfram sterk. Greiðslur úr þrotabúi KSF á Mön héldu áfram að berast á árinu. Áfram er búist við að stærstur hluti eigna Auroru endurheimtist frá Mön eða yfir 90%. Árið 2011 var erfitt á alþjóðlegum fjármálamörkuðum en skuldavandamál evruríkja réðu ferðinni að mestu og var því neikvæð ávöxtun á flestum verðbréfamörkuðum. Stór hluti eigna sjóðsins eru í ávöxtun á erlendum verðbréfamörkuðum og lækkuðu því nokkuð í verði. Á móti kom góð ávöxtun á íslenskum hluta- og skuldabréfum. Eignir í árslok 2011 námu kr. 1.343.432.696 og lækkuðu á árinu sem nemur kr. 109.567.304. Veittir voru styrkir á árinu fyrir kr. 103.953.342 og kostnaður nam kr. 7.619.692. Því var ávöxtun í kringum núllið. Stofnfé sjóðsins nam kr. 1.000.000.000 og því hefur stofnféð aukist um kr. 343.432.696 eða um 7% að meðaltali á ári. Að teknu tilliti til styrkja Aurora frá stofnun upp á rúmlega kr. 42.000.000, er ávöxtun sjóðsins nálægt 12% að meðaltali á ári frá stofnun.

 1. Heimasíða


Aurora velgerðasjóður heldur úti heimasíðunni www.aurorafund.is en þar er að finna samþykktir, starfsreglur og ýmsar fleiri upplýsingar um velgerðasjóðinn og dóttursjóði hans, Kraum tónlistarsjóð Auroru, Hönnunarsjóð Auroru og önnur styrktarverkefni, ný og gömul. Þar eru einnig upplýsingar um stjórnir og stjórnendur sjóðanna þriggja.

 1. Árangursmat dóttursjóða


Aurora velgerðasjóður fékk Rannsóknamiðstöð skapandi greina hjá Viðskiptafræðistofnun Háskóla Íslands til að gera árangursmat á starfsemi dóttursjóðanna, Hönnunarsjóðs Auroru og Kraums tónlistarsjóðs. Það voru þau Margrét Sigrún Sigurðardóttir og Tómas Viktor Young sem sáu um gerð árangursmatsins sem var kynnt þann 13. mars á Háskólatorgi.

Markmiðið með gerð árangursmatsins var fyrst og fremst að aðstoða stjórnendur sjóðanna við að meta starfið sem á sér stað innan sjóðanna, hvaða áhrif það hefur á frama styrkþega og einnig hönnunar- og tónlistarsamfélagið í víðari skilningi. Einnig var árangursmatið hugsað sem lærdómur um það hvernig best er að standa að styrkveitingum, hvaða form gefur bestan árangur, hvaða aðferðafræði hentar best þeim sem sækja um styrki og hvaða ásýnd svona sjóðir hafa gagnvart umsækjendum og samstarfsaðilum.

Rannsóknin var byggð á hálfopnum viðtölum við framkvæmdastjóra sjóðanna og styrkþega. Niðurstöður árangursmatsins leiddu í ljós almenna ánægju meðal styrkþega með sjóðina en umsóknarferlið þykir persónulegt og óformlegt en vegna aukins fjölda umsókna benda höfundar skýrslunnar á að nauðsynlegt sé að gera umsóknarferlið formfastara. Styrkþegar eru ánægðir með að sjóðirnir veiti veglegri styrki á færri verkefni sem er í takt við markmið sjóðanna, en dóttursjóðirnir hafa markmið móðursjóðsins að leiðarljósi, þ.e. að styrkirnir séu það veglegir að þeir skipti sköpum fyrir verkefnin. Rannsakendur bentu á að þróun í átt að lægri styrkjum til stærri hóps þjóni ekki markmiðum sjóðanna og minnki líkur á árangri fyrir styrkþegana sjálfa. Þessi hætta sé fyrir hendi þegar fjöldi góðra umsókna eykst og átti sér stað hjá Kraumi á ákveðnum tímapunkti. Framkvæmdastjórum sjóðanna bar saman um að gerð árangursmats sé mikilvægt framlag fyrir starfsemi sjóðanna því rannsóknin muni hjálpa til við mótun stefnu þeirra í styrkveitingum sem og almennri starfsemi.

 1. Úthlutanir á árinu 2011

Aurora velgerðasjóður úthlutaði alls 101 milljón króna til sex verkefna á sviði mannúðar, mennta og menningar hérlendis og í Afríkuríkinu Síerra Leóne á árinu 2011. Þrjú ný verkefni fengu styrk en þau eru styrkur til sviðslista á Íslandi, styrkur til Rústabjörgunarsveitarinnar Ársæls og styrkur til Listasafns Íslands vegna sýningar á verkum listakonunnar Louise Bourgeois. Tvö af þessum sex verkefnum eru eigin verkefni sjóðsins.

Verkefnin sem hlutu styrki 2011:

 • Hönnunarsjóður Auroru ………………………………………………….kr. 25.000.000
 • Kraumur, tónlistarsjóður Auroru …………………………………………. kr. 20.000.000
 • Menntaverkefni í Síerra Leóne á vegum UNICEF……………………… kr. 40.000.000
 • Sviðslistir á Íslandi …………………………………………………………. kr. 10.000.000
 • Rústabjörgunarsveitin Ársæll ……………………………………………… kr. 3.000.000
 • Listasafn Íslands vegna sýningar á verkum Louise Bourgeois … kr. 3.000.000

 

 1. Lýsing verkefna
      7.1  Eigin verkefni

Hönnunarsjóður Auroru                                                                                                   styrkur kr. 25.000.000

Hönnunarsjóður Auroru er sjálfstætt starfandi dóttursjóður á vegum Auroru velgerðasjóðs. Hönnunarsjóðurinn var stofnaður í ársbyrjun 2009 að frumkvæði Auroru og voru honum veittar 75 milljónir króna til þriggja ára. Stefna Hönnunarsjóðsins er að styrkja framúrskarandi hönnuði með heilsteypta viðskiptahugmynd og skýra framtíðarsýn.

Á þessum þrem árum hefur Hönnunarsjóðurinn ráðstafað styrkjum til tæplega 40 verkefna og hönnuða auk þess að taka þátt í samstarfi um ýmis verkefni á sviði hönnunar. Alls var 17.580.000 króna úthlutað til ýmissa hönnuða og verkefna á árinu 2011 í tveim úthlutunum í mars og nóvember. Sjóðnum bárust metfjöldi umsókna af öllum sviðum hönnunar en samhliða auknum fjölda umsókna merkir sjóðurinn aukin gæði þeirra. Veittir voru allnokkrir framhaldsstyrkir sem er í takt við þá stefnu sjóðsins að fylgja eftir völdum verkefnum þannig að sá árangur megi fremur nást sem viðkomandi hönnuður stefnir að. Úthlutunarferlið var eins og áður unnið í náinni samvinnu stjórnar og framkvæmdastjóra.

Framkvæmdastjóra og stjórn til ráðgjafar er sérstakt fagráð hönnuða og aðila úr atvinnulífinu og hefur komist á gott samstarf á milli sjóðsins og fagráðsins auk þess sem tveir aðilar innan fagráðsins hafa tekið að sér ráðgjöf fyrir sjóðinn.

Framkvæmdastjóri er Hlín Helga Guðlaugsdóttir vöruhönnuður.

Stjórn Hönnunarsjóðs Auroru skipa eftirtaldir aðilar:

 • Ingibjörg Kristjánsdóttir, landslagsarkitekt, formaður
 • Jóhannes Þórðarson, arkitekt og deildarforseti hönnunar- og arkitektúrsdeildar 
Listaháskóla Íslands, meðstjórnandi
 • Halla Helgadóttir, grafískur hönnuður og framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar 
Íslands, meðstjórnandi

Í fagráði Hönnunarsjóðs Auroru sitja:

 • Áslaug Magnúsdóttir, TSM Capital í New York
 • Eyþór Ívar Jónsson, framkvæmdastjóri Klaks og dósent við Kaupmannahafnar- 
háskóla
 • Eyjólfur Pálsson, húsgagnahönnuður og kaupmaður í Epal
 • Sigurður Þorsteinsson, iðnhönnuður og eigandi Design Group Italia
 • Sigríður Sigþórsdóttir, arkitekt, VA arkitektar
 • Guðmundur Oddur Magnússon, prófessor í grafískri hönnun í Listaháskóla Íslands
 • Steinunn Sigurðardóttir fatahönnuður

 

Kraumur tónlistarsjóður Auroru                                                                                          styrkur kr. 20.000.000

Kraumur tónlistarsjóður Auroru var stofnaður í ársbyrjun 2008 sem tilraunaverkefni til þriggja ára. Starfsemi Kraums hefur verið
umfangsmikil og blómleg en sjóðurinn hefur átt fjölbreytt
samstarf við ýmsa aðila innan tónlistargeirans. Á þessum þremur árum hafa um 100 tónlistarmenn, hljómsveitir og tónlistartengd verkefni fengið úthlutað um 60 milljónum króna. Kraumur hefur m.a. styrkt tónleika og tónleikaferðalög heima og að heiman, aðstoðað við markaðssetningu erlendis og staðið meðal annars fyrir nýjum tónlistarviðurkenningum undir nafninu Kraumslistinn. Það er því ljóst að nærvera sjóðsins skiptir miklu máli í íslensku tónlistarlífi. Í ljósi þessa ákvað stjórn Auroru að veita þessu kraftmikla starfi áframhaldandi brautargengi og leggja Kraumi tónlistarsjóði til aðrar 60 milljónir til næstu þriggja ára.

Kraumur hefur það meginhlutverk að efla íslenskt tónlistarlíf, fyrst og fremst með stuðningi við unga listamenn, auðvelda þeim að vinna að listsköpun sinni og koma verkum sínum á framfæri. Markmiðið er að styrkja stöðu ungra tónlistarmanna á Íslandi með beinum styrkjum, faglegri aðstoð og samstarfi af ýmsu tagi. Sjóðnum er sömuleiðis ætlað að ná markmiðum sínum með því að miðla þekkingu á sínu sviði, meðal annars með námskeiðahaldi, ráðgjöf og smiðjum (workshops) og með samstarfi við ýmsa þá sem vinna að sömu markmiðum.

Tvær úthlutanir fóru fram úr sjóðnum fyrir árið 2011 sú fyrri um miðjan maí og sú seinni um miðjan júlí. Alls var úthlutað 11,2 milljónum til ýmissa verkefna. Styrkt voru verkefni listamanna og hljómsveita hérlendis og erlendis sem og eigin verkefni Kraums ásamt plötugerð en Kraumslistinn var tilkynntur í desember.

Þann 1. maí tók Jóhann Ágúst Jóhannsson við af Eldari sem nýr framkvæmdastjóri hjá Kraumi.

Sú breyting varð á stjórn Kraums að Pétur Grétarsson fór úr stjórninni og í hans stað kom inn Eldar Ástþórsson. María Huld Markan tók við sem formaður stjórnar.

Sú breyting varð á fagráði Kraums að Mist Þorkelsdóttir og Sjón fóru út en nýir aðilar í fagráðinu eru þau Elísabet Indra Ragnarsdóttir og Örn Elías Guðmundsson (Mugison).

Stjórn Kraums tónlistarsjóðs á árinu 2011 skipuðu eftirtaldir aðilar:

 • María Huld Markan, tónlistarmaður og framkvæmdastjóri, formaður
 • Ásmundur Jónsson, framkvæmdastjóri, meðstjórnandi
 • Eldar Ástþórsson, verkefnisstjóri markaðsdeildar CCP, meðstjórnandi

Í fagráði Kraums tónlistarsjóðs sitja:

 • Anna Hildur Hildibrandsdóttir, framkvæmdastjóri Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar, ÚTÓN
 • Árni Heimir Ingólfsson, tónlistarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands
 • Árni Matthíasson, blaðamaður á Morgunblaðinu
 • Björk Guðmundsdóttir, tónlistarmaður
 • Kjartan Sveinsson, hljómborðsleikari Sigur Rósar
 • Elísabet Indra Ragnarsdóttir, dagskrárgerðamaður hjá Ríkisútvarpinu
 • Örn Elías Guðmundsson (Mugison), tónlistarmaður
7.2. Innlendverkefni

Sviðslistir á Íslandi                                                                                                                 styrkur kr. 10.000.000

Stjórn Aurora velgerðasjóðs ákvað að styrkja sviðslistir á Íslandi þ.e. leiklist, listdans og sönglist, samkvæmt skilgreiningu Leiklistarsambands Íslands, um 10 milljónir króna. Með þessum styrk vill Aurora efla enn frekar sviðslistir með því að styrkja framúrskarandi og metnaðarfull verkefni en það er ljóst að sviðslistir á Íslandi eru í mikilli framþróun og hefur sköpunarkrafturinn vakið athygli út fyrir landsteinana. Aurora velgerðasjóður fékk með sér í lið þau Viðar Eggertsson leikstjóra og Ingibjörgu Þórisdóttur dramatúrg og leiklistargagnrýnanda, til að veita faglega ráðgjöf við val á verkefnum en lögð var mikil áhersla á að verkefnin væru listræn, áræðin og unnin af fagfólki. Sjóðnum bárust alls 67 umsóknir sem var langt umfram það sem búist var við og er því ljóst að um mikla grósku er að ræða í sviðslistum á Íslandi.

Formleg úthlutun sviðslistastyrksins fór fram þann 25. maí en verkefnin sem hlutu styrk eru:

 • Vesturport , nýtt leikrit byggt á þjóðsögunni um Axlar-Björn ……kr. 4.000.000
 • Íslenski dansflokkurinn, uppfærsla á verkinu Minus 16 …………..kr. 3.000.000
 • 16 elskendur, sýning ársins ……………………………………….. kr. 2.000.000
 • Brúðuleikhúsið 10 fingur, Litla skrímslið …………………………..kr. 1.000.000

Nánar um verkefnin: 


VESTURPORT fær styrk til að vinna að leiksýningu upp úr þjóðsögninni um Axlar- Björn. Vesturport hefur vakið athygli langt út fyrir landsteinana fyrir áræðni og listfengi í efnistökum á klassískum verkum. Skemmst er að minnast Evrópsku leiklistarverðlaunanna, þar sem þau hlutu eina helstu viðurkenningu sem sviðslistamönnum getur hlotnast. Verkefnið sem þau hljóta nú styrk til að vinna er nýr áfangi í þeirra sögu, því að þessu sinni hyggjast þau takast á við fornan arf þjóðarinnar og munu þannig nema nýjar lendur í listsköpun sinni. Höfundur og leikstjóri verksins er Björn Hlynur Haraldsson, um tónlistina sér Kjartan Sveinsson í Sigur Rós. Frumsýning er 11. janúar 2012 og er greiðslum Auroru til þessa verkefnis lokið.

ÍSLENSKI DANSFLOKKURINN fær styrk að til að ráðast í það metnaðarfulla verkefni að fá hinn kunna danshöfund Ohad Naharin til að sviðsetja verk sitt Minus 16 sérstaklega fyrir ÍD. Naharin er einn virtasti og eftirsóttasti danshöfundur heims um þessar mundir og hefur ÍD lengi haft hug á að fá hann til samstarfs. Má gera ráð fyrir að samstarfið við svo eftirsóttan danshöfund muni leiða dansflokkinn enn lengra fram á við. Það er óhætt að segja að ÍD er í fararbroddi í nútíma listdansi hér á landi og hefur jafnframt með áratuga löngu starfi sínu og miklum metnaði einnig vakið athygli erlendis fyrir listfengi sitt og hæfni. Frumsýning er 11. febrúar 2012 og er greiðslum Auroru til þessa verkefnis ólokið.

16 ELSKENDUR fær styrk til að setja upp verkið SÝNING ÁRSINS. 16 elskendur er hópur ungra og framsækinna leikhúslistamanna úr ýmsum greinum sviðslista en þau hafa vakið athygli fyrir rannsóknarvinnu sína á samtvinnun sviðslista og samfélags. Þetta er nýstárleg sýning sem byggð er á skoðanakönnun meðal fólks um „sýninguna sem allir vilja sjá“ og „sýninguna sem enginn vill sjá“ en saman verður þetta Sýning ársins.

Með þessu vilja þau varpa ljósi á hvað íslenskir áhorfendur vilja helst og síst sjá í leikhúsi sem og vekja upp spurningar um gildi og trúverðugleika skoðanakannana, eins helsta skoðanamótandi tæki samtímans. Frumsýning er 3. mars 2012 og er greiðslum Auroru til þessa verkefnis ólokið.

LEIKHÚSIÐ 10 FINGUR fær styrk til að vinna að brúðuleikhússýningunni LITLA SKRÍMSLIÐ eftir Helgu Arnalds. Brúðuleiklist er ung listgrein hér á landi en hefur hin síðari ár eflst til muna fyrir atorku og listfengi örfárra brúðuleikhúslistamanna. Þar í hópi er Helga Arnalds og leikhús hennar 10 FINGUR. Sýningunni er ætlað að virkja börn á leikskólaaldri til listsköpunar meðan á sýningunni stendur og sá frjókornum sköpunar meðal ungra áhorfenda. Um leikstjórn sér Charlotte Bøving og um tónlistina sér Eivör Pálsdóttir. Frumsýning er 3. mars 2012 og er greiðslum Auroru til þessa verkefnis ólokið.

Rústabjörgunarsveitin Ársæll                                                                                                 styrkur kr. 3.000.000

Rústabjörgunarsveitin Ársæll er hluti af Alþjóðabjörgunarsveit Slysavarnafélagsins Landsbjargar og sinnir óveðursaðstoð, viðbrögðum við jarðskjálftum og ofanflóðum í byggð á landsvísu. Sveitin vann mikið þrekvirki við erfiðar aðstæður á Haítí í kjölfar jarðskjálftans í janúar 2010 en hún var með fyrstu björgunarsveitum á svæðið. Komið er að ýmsu viðhaldi og endurnýjun á þeim sérhæfða búnaði sem hópurinn hefur yfir að ráða og ákvað því Aurora velgerðasjóður að styrkja sveitina um þrjár milljónir króna. Upphæðin var nýtt til tækjakaupa. Greiðslum Aurora til þessa verkefnis er lokið.

Listasafn Íslands vegna sýningar á verkum Louise Bourgeois                                          styrkur kr. 3.000.000

Louise Bourgeois er í hópi þekktustu listakvenna samtímans. Hún lést árið 2010 á 99. aldursári ennþá í fullu í fjöri og starfandi af þrótti sem listamaður. Hún hóf feril sinn sem málari en um miðja síðustu öld fór hún að takast á við skúlptúr sem síðan þróaðist út í viðamiklar innsetningar. Þar er hún brautryðjandi og af mörgum talin vera sá listamaður sem brúaði bilið milli nútímalistar og samtímalistar. Á hundrað ára afmælisári hennar eru sýningar á verkum hennar eftirsóttari en nokkurn tíma áður og því var þetta einstakt tækifæri fyrir Listasafn Íslands að fá sýningu af þessari stærðargráðu. Sýningin var sú fyrsta í Evrópu eftir andlát listakonunnar og komu erlendir gestir gagngert til að sjá hana. Aurora velgerðasjóður styrkti Listasafn Íslands um þrjár milljónir króna sem fóru í uppsetningu á verkum Louise Bourgeois og útgáfu veglegrar bókar sem gaf Íslendingum tækifæri til að kynnast betur þessari merku listakonu.

Greiðslum Auroru til þessa verkefnis er lokið.

7.3. Erlend verkefni – þróunarhjálp

Menntaverkefni í Síerra Leóne                                                                                                styrkur kr. 40.000.00

Menntaverkefni í Afríkuríkinu Síerra Leóne fékk úthlutað 40 milljónum króna til að byggja upp barnvænt menntakerfi og skólahúsnæði, einkum með þarfir stúlkubarna í huga. Þetta var fjórða úthlutun sjóðsins til verkefnisins af fimm og liður í veigamesta verkefni sjóðsins frá stofnun. Verkefnið er unnið í samvinnu við menntayfirvöld þar í landi og UNICEF á Íslandi og í Síerra Leóne. Alls hefur tæpum 200 milljónum króna verið ráðstafað á fjórum árum til verkefnisins í Síerra Leóne, að meðtöldum 36 milljónum króna sem stofnendur sjóðsins lögðu áður í byggingu 50 skóla í fátækustu héruðum landsins.

Í júní kom út skýrsla um verkefnið fyrir tímabilið júní 2009 – júní 2011 þar sem kemur fram 9% aukning nemenda í skólum í Kono-héraði og 11% aukning menntaðra kennara á svæðinu. Kom fram að tæp 46% af þeim sem útskrifast úr grunnskólum héraðsins eru stúlkur sem er merkjanleg aukning skólasóknar stúlkna á þessu tveggja ára tímabili.

Það er því ljóst að verkefnið hefur skilað börnum á svæðinu aðgengi að menntun sem þau annars hefðu ekki átt kost á og sérstaklega stúlkum sem er í takt við markmiðin sem sett voru í upphafi. Ánægjulegt er að sjá að aukin gæði náms eru merkjanleg en ýmsar aðhaldsaðgerðir voru skipulagðar til að tryggja það. Þar má taka sem dæmi aukna þátttöku nærsamfélagsins í skólastarfinu með stofnun foreldrafélaga og mæðraklúbba.

Frekari upplýsingar um verkefnið er að finna á heimasíðu Auroru velgerðasjóðs, www.aurorafund.is, og einnig á heimasíðu UNICEF, www.unicef.is

Höfuðmarkmið verkefnisins er að styðja UNICEF og stjórnvöld Síerra Leóne í því að tryggja öllum börnum á skólaaldri grunnmenntun fyrir árið 2015. Stofnað var til verkefnisins árið 2008 og jafnframt tilkynnt að Aurora myndi ráðstafa til þess alls USD 2.000.000, eða 120 milljónum króna á þáverandi gengi, í þrennu lagi á árunum 2008- 2010. Við hrun íslensku krónunnar í lok árs 2008 jókst greiðslubyrði sjóðsins vegna þessa verkefnis um helming, þar sem upphafleg upphæð styrksins var í dollurum. Í samvinnu við Landsskrifstofu UNICEF á Íslandi var því ákveðið að dreifa greiðslunum á allt að fimm ár í stað þrjú. Miðað við óbreytt gengi mun því Aurora veita til þessa verkefnis um 200 milljónum króna á fimm árum. Þessar breytingar voru samþykktar af stjórn Auroru velgerðasjóðs á stjórnarfundi í apríl 2009.

7.4. Önnur verkefni – staða og framvinda

Aschobi Design

Á síðasta ári styrkti Aurora gerð viðskiptaáætlunar fyrir Aschobi Design en það var franska ráðgjafafyrirtækið Luxe Corp. sem framkvæmdi hana og kynnti fyrir fulltrúum stjórnar. Í framhaldi af því sömdu stofnendur við Elínu Stefánsdóttur viðskiptafræðing um að taka að sér tímabundið verkefni við að aðstoða Adömu við gerð áætlunar um fjármagnsstreymi og var farið í þó nokkra vinnu við að lækka kostnað og að setja upp raunhæfan strúktúr fyrirtækisins. Í lok ársins 2011 lá fyrir að fjárþörf Aschobe miðað við óbreyttan strúktúr væri um EUR 500.000 en fjárþörf fyrstu fatalínunnar er um EUR 150 þúsund. Ljóst er að Aurora velgerðasjóður mun ekki styrkja Aschobe Design frekar. Hins vegar mun stjórn sjóðsins halda áfram að styðja við bak fyrirtækisins sem ráðgjafar og leiðbeinendur, þar til fyrirtækið er tilbúið að leita sér fjárfesta.

Greiðslum Aurora til þessa verkefnis er lokið.

Heilbrigðisverkefni í Malaví – upphaflega styrkt 2008                                                     styrkur kr. 2.889.662

Gengið var frá greiðslu fyrir húsgögn og leiktæki við nýbyggingu barnadeildarinnar í Mangochi því vegna breytinga sem gera þurfti á nýbyggingunni nægði upphaflegi styrkur Auroru ekki fyrir húsgögnum eins og gert var ráð fyrir í upphafi.

Greiðslum Auroru til þessa verkefnis er lokið.