(Icelandic only)

FRÁ FORMANNI STJÓRNAR

Þrátt fyrir efnahagsþrengingar síðastliðinna ára, hefur Aurora velgerðasjóður haldið ótrauður áfram stuðningi sínum við menningar- og þróunarverkefni á Íslandi og í Afríku. Sjóðurinn stendur meðal annars áfram fyrir kröftugu starfi dóttursjóðanna tveggja Kraums tónlistarsjóðs og Hönnunarsjóðs Auroru, en samtals renna styrkir upp á 45 milljónir króna árlega til þeirra. Sjóðirnir hafa styrkt fjöldann allan af ungum hönnuðum og tónlistarfólki auk þess sem þeir hafa tekið þátt í fjölda samstarfsverkefna og átt frumkvæði að eigin verkefnum. Sjóðunum hefur verið afar vel tekið af fagsamfélögum sínum, enda eru sjóðirnir þeir einu sinnar tegundar sem eru reknir á forsendum greinanna og alfarið stjórnað af fagfólki.

Aurora er enn fremur stolt af því að hafa á síðustu fimm árum átt stóran þátt í að gjörbreyta möguleikum þúsunda barna til mannsæmandi lífs í einu fátækasta landi heims; Síerra Leóne. Árið 2010 runnu 40 milljónir króna til þessa umfangsmikla menntaverkefnis sem Aurora styrkir í samvinnu við UNICEF og hefur því alls 156 milljónum verið varið í það frá upphafi.

Nýtt verkefni meðal styrktra verkefna árið 2010, var menningarsetrið glæsilega; Brúðuheimar í Borgarnesi, sem opnað var þann 21. maí 2010. Á þessu fyrsta starfsári hafa Brúðuheimar þegar fest sig í sessi sem mikilvægur viðkomustaður ferðamanna á leið um Vesturland, en einnig hefur staðurinn haft mjög jákvæð áhrif á nærsamfélag sitt vegna aukins framboðs á menningarviðburðum.

Árið 2010 var tími breytinga og endurskipulagningar hjá Auroru. Þórunn Sigurðardóttir og Sigurður Einarsson sögðu sig úr stjórn sjóðsins á síðasta aðalfundi og vil ég nota tækifærið hér og þakka þeim kærlega fyrir framlag þeirra til Auroru velgerðasjóðs. Í framhaldi af því var ákveðið að fækka stjórnarmönnum, meðal annars til að einfalda skipulag og umfang stjórnarfunda þar sem aðsetur stjórnar er í tveimur löndum. Einnig var sú ákvörðun tekin á árinu að framkvæmdastjóri sjóðsins sé jafnframt meðstjórnandi.

Hulda Kristín Magnúsdóttir sem hefur starfað með Auroru frá upphafi fór til annarra starfa á árinu og um leið og ég þakka henni fyrir góð störf í þágu sjóðsins þá býð ég Auði Einarsdóttur sem var ráðin framkvæmdastjóri Auroru velkomna í hópinn en eins og áður segir þá situr Auður jafnframt í stjórn Auroru.

Stefnumótunarstarf setti einnig svip sinn á starfsemi Auroru og dóttursjóðanna á árinu, en niðurstöður árangursmats sem stjórn Auroru lét framkvæma á starfsemi Kraums Tónlistarsjóðs og Hönnunarsjóðs Auroru voru ánægjuleg staðfesting á því að starf sjóðanna er að skila árangri og er í grundvallaratriðum að uppfylla markmiðin sem sett voru í upphafi. Rannsóknamiðstöð skapandi greina hjá Viðskiptafræðistofnun Háskóla Íslands var fengin til að framkvæma árangursmatið og voru niðurstöðurnar kynntar á fjölmennum fundi síðastliðið vor. Helstu niðurstöður voru þær að almenn ánægja ríkir meðal styrkþega með faglegt starf sjóðanna, viðmót og aðgengilegt umsóknarferli. Afgerandi ánægja var með þá stefnu sjóðanna að veita veglega styrki þó það þýði færri styrkt verkefni þegar upp er staðið. Var eindregið hvatt til þess að sjóðirnir haldi áfram á þeirri braut. Nánar er farið í árangursmatið hér á eftir en niðurstöður árangursmatsins eru mikilvægt innlegg í áframhaldandi stefnumótun og starfsemi Auroru og dóttursjóðanna.

Aurora velgerðasjóður var stofnaður á sínum tíma með þá trú að leiðarljósi að sköpunar- og frumkvöðlakraftur sé nauðsynlegt afl til framþróunar kraftmikilla og bjartsýnna þjóða. Starfsemi síðustu fjögurra ára hefur staðfest þá trú okkar stofnenda og stjórnar sjóðsins og erum við staðráðin í því að halda áfram á þessari braut uppbyggingar og nýjunga. Ég vil nota tækifærið hér fyrir hönd stjórnar Auroru velgerðasjóðs og þakka öllum þeim sem hafa starfað að þessu með okkur, stjórnum og fagráðum dóttursjóðanna, ráðgjöfum og starfsfólki og árna samstarfsaðilum og viðtakendum styrkja áframhaldandi velgengni með verkefni sín samfélaginu til heilla.

Reykjavík 29. júní 2011

Ingibjörg Kristjánsdóttir, stjórnarformaður

 

STARFSEMIN Á ÁRINU 2010

 1. Stjórnarfundir

Stjórn Auroru kom fimm sinnum saman til fundar á árinu 2010 en aðalfundur var haldinn þann 28. maí.

 1. Stjórn og starfsmenn

Á aðalfundi sjóðsins þann 28. maí tilkynnti formaður að Þórunn Sigurðardóttir og Sigurður Einarsson gæfu ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Formaður lagði til eftirfarandi þriggja manna stjórn: Sigurður Guðmundsson, Ólafur Ólafsson og Ingibjörg Kristjánsdóttir sem stjórnin samþykkti.

Á stjórnarfundi þann 18. október voru gerðar breytingar á fjölda stjórnarmeðlima og þeim fjölgað úr þremur í fjóra þar sem athugasemdir komu frá sýslumanni þess efnis að stofnendur sjóðsins mættu ekki vera í meirihluta í stjórn. Auður Einarsdóttir framkvæmdastjóri Auroru var þá kosin inn í stjórn sem fjórði stjórnarmaður.

Stjórnina skipa nú:

 • Ingibjörg Kristjánsdóttir, landslagsarkitekt og annar stofnandi sjóðsins
 • Ólafur Ólafsson, stjórnarformaður Alfesca og annar stofnandi sjóðsins
 • Sigurður Guðmundsson, forseti heilbrigðisvísindasviðs HÍ
 • Auður Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Auroru velgerðasjóðs

Formaður stjórnar er Ingibjörg Kristjánsdóttir.

Nýr framkvæmdastjóri, Auður Einarsdóttir var ráðinn inn í september 2010 en Hulda Kristín Magnúsdóttir fór til annarra starfa. Auður er með MBA frá Háskólanum í Reykjavík. Ákveðið var að framkvæmdastjóri yrði ráðinn inn í 30% starfshlutfall og færi á launaskrá hjá Auroru velgerðasjóði. Aðsetur Auroru flutti í kjölfarið úr Kjalarvogi í Vonarstræti 4b þar sem dóttursjóðirnir eru til húsa. Framkvæmdastjóri sér um allan daglegan rekstur en um faglega fjárstýringu sjóðsins sér Bruellan Wealth Management í Sviss en Róbert Aron Róbertsson starfsmaður stofnenda sjóðsins í Sviss veitir ýmsa faglega ráðgjöf varðandi fjárfestingar á Íslandi. Um launakeyrslur fyrir Auroru og dóttursjóði sér launadeild Samskipa og um færslu bókhalds og skil til endurskoðenda sér Festing hf. Aurora þakkar öllum þessum aðilum fyrir framlag þeirra til sjóðsins.

 1. Stofnsjóður

Staða sjóðsins er sterk. Í lok ársins hófust loks endurheimtur úr þrotabúi KSF á Mön en þar hefur stór hluti eigna sjóðsins verið fastur frá hruni bankans í október 2008. Fyrstu greiðslur frá bankanum bárust í nóvember og frekari greiðslur hafa borist á fyrstu mánuðum 2011. Vonir standa til að þegar síðustu greiðslur berast hafi yfir 90% af fjármunum Aurora endurheimst þar, sem verður að teljast gott í ljósi þess að óvissa hefur ríkt um mögulegar endurheimtur eigna frá hruni bankans og hafa ársreikningar síðastliðin tvö ár gert ráð fyrir að um 20% af þeim fjármunum muni á endanum tapast. Í ljósi þess hve seint greiðslur hófust á árinu, var lítil ávöxtun á þeim eignum. Eignir á Íslandi voru að mestu leyti geymdar á innlánsreikningum á árinu og gáfu ágæta ávöxtun. Eignir í árslok 2010 námu kr. 1.453.940.489 og hefur því tekist vel til að verja eignir sjóðsins fyrir skakkaföllum frá stofnun hans. Stofnfé sjóðsins nam kr. 1.000.000.000 og því hefur stofnféð aukist um kr. 453.940.489 eða um 10% að meðaltali á ári. Að teknu tilliti til styrkja Aurora frá stofnun upp á rúmlega kr. 320.000.000, er ávöxtun sjóðsins nálægt 20% að meðaltali á ári frá stofnun. Í ljósi þess að nú hafa greiðslur hafist frá KSF á Mön standa vonir til að vel takist til við ávöxtun þeirra eigna. Á árinu var gengið frá samningi við Bruellan Wealth Management í Sviss um stýringu fjárfestinga stofnsjóðs Auroru.

 1. Heimasíða

Aurora velgerðasjóður heldur úti heimasíðunni www.aurorafund.is en þar er að finna samþykktir, starfsreglur og ýmsar fleiri upplýsingar um velgerðasjóðinn og dóttursjóði hans, Kraum tónlistarsjóð Auroru, Hönnunarsjóð Auroru og önnur styrktarverkefni, ný og gömul. Þar eru einnig upplýsingar um stjórnir og stjórnendur sjóðanna þriggja.

 1. Úthlutanir á árinu 2010 


Aurora velgerðasjóður úthlutaði alls 100 milljónum króna til fjögurra verkefna á sviði mannúðar, mennta og menningar hérlendis og í Afríkuríkinu Síerra Leóne á árinu 2010. Formleg úthlutun fór fram 16. mars og þar var 100 milljónum króna úthlutað til fjögurra verkefna. Af þeim var eitt nýtt verkefni en það er lista- og menningarmiðstöðin Brúðuheimar í Borgarnesi sem fékk 8 milljónir króna í formi styrks til hönnunar og uppbyggingar á leikbrúðusafni en 7 milljónir króna í formi víkjandi láns til frágangs lóðar og húsakosts. Tvö af þessum fjórum verkefnum eru eigin verkefni sjóðsins. 
Fyrir utan formlega úthlutun sjóðsins samþykkti stjórnin að styrkja gerð viðskiptaáætlunar fyrir fatahönnuðinn Adama Kai frá Síerra Leóne, Aschobi Design. Sjá nánar um verkefnið í kafla 6.4.

Verkefnin sem hlutu styrki árið 2010 voru eftirfarandi:

 • Hönnunarsjóður Auroru …………………………………………………….. kr. 25.000.000 

 • Kraumur, tónlistarsjóður Auroru ………………………………………… kr. 20.000.000 

 • Menntaverkefni í Síerra Leóne á vegum UNICEF………………….. kr. 40.000.000 

 • Brúðuheimar í Borgarnesi ………………………………………………….. kr. 15.000.000 

 • Aschobi design ……………………………………………….. EUR 37.500 / kr. 6.200.000 


 

6.  Lýsing verkefna 

    6.1. Eigin verkefni 
 


Hönnunarsjóður Auroru                                                                                                       styrkur kr. 25.000.000

Hönnunarsjóður Auroru er sjálfstætt starfandi dóttursjóður á vegum Auroru velgerðasjóðs. Hönnunarsjóðurinn var stofnaður í ársbyrjun 2009 að frumkvæði Auroru og var þá tilkynnt að Aurora myndi ráðstafa til hans alls 75 milljónum króna til þriggja ára.

Hönnunarsjóðurinn hefur ráðstafað fé til um 30 verkefna og hönnuða á þessum fyrstu tveimur árum og hann hefur einnig tekið þátt í samstarfi um ýmis verkefni á sviði hönnunar. Alls var úthlutað kr. 17.880.000 til ýmissa hönnuða og verkefna á árinu 2010. Ákveðið var að úthluta þrisvar sinnum á árinu til að koma til móts við hraða verkefna í faginu og fóru úthlutanirnar fram í febrúar, maí og október. Úthlutunarferlið var eins og áður unnið í náinni samvinnu stjórnar og framkvæmdastjóra.

Framkvæmdastjóra og stjórn til ráðgjafar er sérstakt fagráð hönnuða og aðila úr atvinnulífinu og hefur hefur komist á gott samstarf á milli sjóðsins og fagráðsins auk þess sem tveir aðilar innan fagráðsins hafa tekið að sér ráðgjöf fyrir sjóðinn.

Framkvæmdastjóri Hönnunarsjóðs Auroru er Hlín Helga Guðlaugsdóttir, vöruhönnuður.

Stjórn Hönnunarsjóðs Auroru skipa eftirtaldir aðilar:

 • Ingibjörg Kristjánsdóttir, landslagsarkitekt, formaður
 • Jóhannes Þórðarson, arkitekt og deildarforseti hönnunar- og arkitektúrsdeildar 
Listaháskóla Íslands, meðstjórnandi
 • Halla Helgadóttir, grafískur hönnuður og framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar 
Íslands, meðstjórnandi

Í fagráði Hönnunarsjóðs Auroru sitja:

 • Áslaug Magnúsdóttir, TSM Capital í New York
 • Eyþór Ívar Jónsson, framkvæmdastjóri Klaks og dósent við Kaupmannahafnarháskóla
 • Eyjólfur Pálsson, húsgagnahönnuður og kaupmaður í Epal
 • Sigurður Þorsteinsson, iðnhönnuður og eigandi Design Group Italia
 • Sigríður Sigþórsdóttir, arkitekt, VA arkitektar
 • Guðmundur Oddur Magnússon, prófessor í grafískri hönnun í Listaháskóla Íslands
 • Steinunn Sigurðardóttir fatahönnuður

Nánar er sagt frá verkefnum sjóðsins í viðhengi 1 með ársskýrslunni, en það er ársskýrsla Hönnunarsjóðs Auroru 2010, sem lögð var fram á aðalfundi Hönnunarsjóðsins þann 30. maí síðastliðinn.

 

Kraumur tónlistarsjóður Auroru                                                                                  styrkur kr. 20.000.000

Kraumur sem einnig er sjálfstætt starfandi sjóður á vegum Auroru velgerðasjóðs, fékk 20 milljónir króna til að styrkja ungt tónlistarfólk til listsköpunar og til kynningar á verkum sínum. Kraumur var stofnaður í ársbyrjun 2008 að frumkvæði Auroru og var þá tilkynnt að Aurora myndi ráðstafa til tónlistarsjóðsins alls 50 milljónum króna í þrennu lagi á árunum 2008-2010. 
Stjórn Auroru ákvað síðan í ársbyrjun 2009 að hækka upphæðina í 60 milljónir, þannig að þetta var þriðja úthlutunin til Kraums upp á 20 milljónir. 
Kraumur hefur það meginhlutverk að efla íslenskt tónlistarlíf, fyrst og fremst með stuðningi við unga listamenn, auðvelda þeim að vinna að listsköpun sinni og koma 
verkum sínum á framfæri. Markmiðið er að styrkja stöðu ungra tónlistarmanna á Íslandi með beinum styrkjum, faglegri aðstoð og samstarfi af ýmsu tagi. Sjóðnum er sömuleiðis ætlað að ná markmiðum sínum með því að miðla þekkingu á sínu sviði, meðal annars með námskeiðahaldi, ráðgjöf og smiðjum (workshops) og með samstarfi við ýmsa þá sem vinna að sömu markmiðum.

Úthlutun úr sjóðnum fyrir árið 2010 fór fram um miðjan apríl og var þá úthlutað kr. 11,7 milljónum til ýmissa verkefna. Styrkt voru verkefni listamanna og hljómsveita hérlendis og erlendis sem og eigin verkefni Kraums ásamt plötugerð en Kraumslistinn var tilkynntur í desember.

Sú breyting varð á stjórn Kraums að Þórunn Sigurðardóttir fór úr stjórninni og í hennar stað kom inn María Huld Markan. Pétur Grétarsson tók við sem formaður stjórnar.

Stjórn Kraums tónlistarsjóðs á árinu 2010 skipuðu eftirtaldir aðilar:

 • Pétur Grétarsson, tónlistarmaður og framkvæmdastjóri, formaður
 • Ásmundur Jónsson, framkvæmdastjóri, meðstjórnandi
 • María Huld Markan, tónlistarmaður, meðstjórnandi

Í fagráði Kraums tónlistarsjóðs sitja:

 • Anna Hildur Hildibrandsdóttir, framkvæmdastjóri Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar, ÚTÓN
 • Árni Heimir Ingólfsson, tónlistarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands
 • Árni Matthíasson, blaðamaður á Morgunblaðinu
 • Björk Guðmundsdóttir, tónlistarmaður
 • Mist Þorkelsdóttir, deildarforseti Tónlistardeildar Listaháskóla Íslands
 • Kjartan Sveinsson, hljómborðsleikari Sigur Rósar
 • SJÓN (Sigurjón Birgir Sigurðsson), rithöfundur

Framkvæmdastjóri sjóðsins er Eldar Ástþórsson.

Nánar er sagt frá verkefnum sjóðsins í viðhengi 2 sem er ársskýrsla Kraums 2010, sem lögð var fram á aðalfundi Kraums þann 27. júní síðastliðinn.

 

6.
2. Innlend verkefni

Brúðuheimar lista- og menningarmiðstöð                                                                       styrkur kr. 15.000.000 
Brúðuheimar fengu 15 milljónir króna til uppbyggingar lista- og menningarmiðstöðvar í Englendingavík í Borgarnesi. Þar af voru 8 milljónir króna í formi styrks til hönnunar og uppbyggingar á leikbrúðusafni en 7 milljónir króna í formi víkjandi láns til frágangs lóðar og húsakosts. Lánið er til fimm ára og afborgunarlaust fyrstu þrjú árin. Þetta var í fyrsta skipti sem Aurora velgerðasjóður veitti fé í formi láns en sjóðurinn hefur
áhuga á að horfa enn frekar til slíkrar lánastarfsemi í stuðningi sínum þegar það á við, sérstaklega varðandi verkefni sem byggjast á atvinnurekstri.

Brúðuheimar, lista- og menningar
miðstöð tengd
 brúðuleiklist, er frumkvöðlaverkefni hjónanna Bernd  
Ogrodnik brúðulistamanns og Hildar Jónsdóttur framkvæmdastjóra. Brúðuheimar bjóða upp á leiksýningar og námskeið fyrir börn og fullorðna ásamt því að reka gagnvirkt leikbrúðusafn og kaffihús. Brúðuheimar voru opnaðir formlega þann 20. maí 2010 og eru nú þegar á fyrsta starfsárinu orðinn vinsæll áfangastaður ferðalanga á Vesturlandi og mikilvæg menningarmiðstöð. Til marks um það þá hlaut fyrsta leiksýning hins nýja leikhúss Brúðuheima Grímuverðlaunin sem barnasýning ársins 2010 fyrir sýninguna um Gilitrutt.

Greiðslum Aurora til þessa verkefnis er lokið.

 

6.3. Erlend verkefni – þróunarhjálp

Menntaverkefni í Síerra Leóne                                                                                             styrkur kr. 40.000.000

Menntaverkefni í Afríkuríkinu Síerra Leóne fékk 40 milljónir króna til að byggja upp barnvænt menntakerfi og skólahúsnæði, einkum með þarfir stúlkubarna í huga. Þetta var þriðja úthlutun sjóðsins til verkefnisins af fimm, liður í veigamesta verkefni sjóðsins frá stofnun og unnið í samvinnu við menntayfirvöld þar í landi og UNICEF á Íslandi og í Síerra Leóne. Alls hefur 156 milljónum króna verið ráðstafað á fjórum árum til verkefnisins í Síerra Leóne, að meðtöldum 36 milljónum króna sem stofnendur sjóðsins lögðu áður í byggingu 50 skóla í fátækustu héruðum landsins.

Í krafti þessara verkefna hafa á annað hundrað kennarar hlotið endurmenntun og um 60 skólabyggingar risið með tilheyrandi vatnsveitu- og frárennsliskerfum, húsbúnaði og kennslugögnum.

Á árinu sem leið var ákveðið að leggja aukna áherslu á gæði námsins og að laga það sem best að þörfum barnanna og þá sérstaklega stúlkubarna. Markmiðið er að halda stúlkunum sem lengst í skóla og koma þannig í veg fyrir að þær gangi í hjónaband og hefji barneignir á æskuárum. Meira er því lagt í endurmenntun kennara og þjálfun í kennsluaðferðum þar sem barnið er sett í forgang, auk þess sem samfélagið er virkjað með því að stofna foreldrafélög við skólana og mæðraklúbba. Frekari upplýsingar um verkefnið er að finna á heimasíðu Auroru velgerðasjóðs, www.aurorafund.is, og einnig á heimasíðu UNICEF, www.unicef.is

Markmiðið er að styðja UNICEF og stjórnvöld Síerra Leóne í því að tryggja öllum börnum á skólaaldri grunnmenntun fyrir 2015. Stofnað var til verkefnisins árið 2008 og jafnframt tilkynnt að Aurora myndi ráðstafa til þess alls USD 2.000.000, eða 120 milljónum króna á þáverandi gengi, í þrennu lagi á árunum 2008-2010. Við hrun íslensku krónunnar í lok árs 2008 jókst greiðslubyrði sjóðsins um helming vegna þessa verkefnis þar sem upphafleg upphæð styrksins var í dollurum. Í samvinnu við Landsskrifstofu UNICEF á Íslandi var því ákveðið að dreifa greiðslunum á allt að fimm ár í stað þriggja. Miðað við óbreytt gengi mun því Aurora veita til þessa verkefnis um 200 milljónum króna á fimm árum. Þessar breytingar voru samþykktar af stjórn Auroru velgerðasjóðs á stjórnarfundi í apríl 2009.

 

6.4. Önnur verkefni – staða og framvinda


Aschobi Design                                                                                                styrkur € 37.500 / kr. 6.200.000

Í ferð Auroru til Síerra Leóne árið 2009 kynntist Aurora ungum fatahönnuði; Adama Kai sem hafði að loknu námi í fatahönnun í Parsons School of Design í París, ákveðið að setjast að í fæðingarborg sinni Freetown og stofna eigið fyrirtæki þar. Þegar við komum að hafði Adama þegar sett upp litla saumastofu, framleitt fyrstu fatalínuna sína undir nafninu ASCHOBI Design og sett upp verslun í miðbæ Freetown. Á facebook síðu sinni hafði Adama Kai sett sér það háleita markmið að verða fyrir Síerra Leóne það sem Ralph Lauren var og er fyrir Bandaríkin. Adama Kai er að mörgu leyti sú ímynd sem ungt fólk í Síerra Leóne vantar. Hún er vel gefinn, duglegur einstaklingur með framtíðarsýn og metnað fyrir sína hönd og Síerra Leóne. Það þarf ekki að orðlengja það hversu stórt verkefni það er fyrir unga konu í Síerra Leóne að setja upp framleiðslu og verslun þar sem nánast engin hefð er fyrir saumaskap, engin verkmenntun til staðar, saumavélar að mestu handknúnar, enda rafmagn af skornum skammti, auk þess sem hún þarf að berjast við fordóma starfsfólks síns (sem eru að mestu leyti karlmenn), vegna þess að hún er yngri en þeir og hún er kona. Stjórn Auroru sá í Adömu þann kraft og þor sem þarf til að hafa víðtæk áhrif á ungt fólk í Síerra Leóne. Ef hún getur þá get ég!

Á síðasta aðalfundi Auroru var samþykkt að sjóðurinn myndi styrkja gerð viðskiptaáætlunar fyrir fyrirtæki hennar Aschobi Design. Gerður var samningur við franska ráðgjafafyrirtækið Luxe Corp. sem undirritaður var í maí, um gerð viðskiptaáætlunar, markaðsrannsóknar og framkvæmdaáætlunar. Viðskiptaáætlunin var unnin í nánu samstarfi Luxe Corp., Aschobi og Auroru en henni var ekki að fullu lokið í lok árs 2010. Niðurstöður hafa nýlega verið kynntar fyrir hluta stjórnar og í framhaldinu verður farið ítarlega í gegnum þær og einnig hvort og þá í hvaða formi Aurora mun fylgja þessu verkefni eftir.

 

Heilbrigðisverkefni í Malaví – styrkt 2008                                                     styrkur € 220.000 / kr. 36.000.000

Í lok árs 2009 ákvað stjórn Auroru að veita aukastyrk til nýbyggingar barnadeildarinnar í Mangochi því vegna breytinga sem gera þurfti á nýbyggingunni nægði styrkur Auroru ekki fyrir húsgögnum eins og gert var ráð fyrir í upphafi. Samþykkt var að leita tilboða í húsgögnin ásamt því að setja upp leiktæki á lóðina og er gert ráð fyrir um þremur milljónum króna til viðbótar til að ganga frá því.

Greiðslum Auroru til þessa verkefnis er ekki lokið.